Fleiri íbúðir fyrir eldri borgara í Suður-Mjódd

Dagur Þorunn Arskogar 1

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Félags eldri borgara undirrituðu viljayfirlýsinguna.

Fyrirhugað er að byggja fjölbýlishús með allt að 50 íbúðum við Árskóga 1 til 3 í suður Mjódd í Breiðholti. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Félags eldri borgara undirrituðu viljayfirlýsingu í frístunda- og félagsmiðstöðinni í Árskógum, 22. apríl sl.

Dagur segir að áður en langt um líði munu stórir árgangar eldri borgara þurfa á íbúðum að halda. Því sé mikilvægt að ríki og sveitarfélög um land allt séu meðvituð um þörfina. Kortlagt hafi verið hjá Reykjavíkurborg hvar og hvenær íbúðir fyrir eldri borgara munu rísa. Fimmtíu slíkar séu nú í kortunum í Breiðholtinu og þessi áform eru hluti af húsnæðisáætlun borgarinnar. Gildistími viljayfirlýsingarinnar er tvö ár frá undirritun hennar, en að þeim tíma liðnum áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að úthluta viðkomandi lóð með byggingarrétti til annarra uppbyggingaraðila hafi ekki verið gefið út úthlutunarbréf vegna lóðarinnar. Í leigusamningum um lóðina skal vera kvöð um byggingu og rekstur íbúða fyrir eldri borgara í samræmi við sérskilmála Reykjavíkurborgar um úthlutun lóða til félaga og samtaka eldri borgara fyrir íbúðir eldri Reykvíkinga, sem gilda er lóðinni verður formlega úthlutað. Ákveðið er að breyta nokkuð gildandi deiliskipulagi lóða við Árskóga og tengigangi að þjónustumiðstöð við Skógarbæ.

You may also like...