Sumarframkvæmdirnar ganga vel
Hellulagðar verða gangstéttar á tveimur til þremur götum á Seltjarnarnesi í sumar. Þessa dagana er verið er að hanna hjólastíg við hlið göngustígar á Norðurströnd og áætlað er að hefja framkvæmdir í sumar.
Af öðrum sumarframkvæmdum má segja að búið er að malbika Unnarbraut og stóran hluta sundlaugarplans, ásamt ýmsum smærri malbikunarframkvæmdum. Áfram verður haldið í malbikunarframkvæmdir í sumar auk þess sem lokið verður við að gera og malbika göngustíga við Nesbala og Hrólfsskálavör. Þá verður unnið að snyrtingu bæjarins eins og undanfarin ár. Þökulagnir verða við íþróttahúsið og á Valhúsahæð ásamt nokkrum minni verkefnum. Af fráveituframkvæmdum er það að frétta að lokið er við hönnun dælustöðvar við Elliða og búið að bjóða steypuvirkið út. Áætlað er að búið verði að ganga frá því í ágúst eða í september. Fyrirhugað er að dælustöð verði tekin í notkun á haustmánuðum. Ýmis viðhaldsverkefni eru einnig á döfinni. Má þar nefna endurnýjun salerna í Valhúsaskóla, viðhald á skrifstofum og skólarýmum, viðhald á “kálfi ” við Mýrarhúsaskóla og viðhald á sambýli við Sæbraut 2 bæði utanhúss og innan. Einnig verður unnið að viðhaldi á ýmsum öðrum þáttum þar á meðal viðgerðir á girðingum, leikskólum og félagsíbúðum í eigu bæjarins svo nokkuð sé nefnt. Hönnun á hjúkrunarheimilinu er á lokastigi og undirbúningur fyrir verkframkvæmd að hefjast. Að lokum má geta þess að unglingavinnan er í fullum gangi og að öll þessi verkefni eru á áætlun og ganga vel.