Fjölnotahús KR skorar hátt

– spennandi deiliskipulag svæðisins 

Þannig mun KR svæðið líta út séð frá Kaplaskjólsvegi að framkvæmdum loknum.

Tillaga um endurskoðað deiliskipulag KR svæðisins í Vesturbænum hefur verið í vinnslu í talsverðan tíma og er nú komin í auglýsingu. Hún fellur vel að áherslum aðalskipulags, skapar möguleika á þéttingu byggðar og þar með sterkari grundvöll fyrir enn meiri þjónustu í hverfinu. Pawel Bartoszek formaður skipulags- og samgönguráðs segir að fjölnotahúsið sem liggur fyrir miðju svæðinu skori hátt í forgangsröðunarvinnu ÍBR og Reykjavíkurborgar og muni bæta mjög æfingaaðstöðu fyrir iðkendur á öllum aldri.

Í breyttu aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er hluti KR svæðisins skilgreindur fyrir íbúðarbyggð, verslun og þjónustu. Meginmarkmiðið þess er að efla Vesturbæinn sem sjálfbært hverfi og að tryggja aukið framboð íbúðarhúsnæðis samanber Húsnæðisáætlun Reykjavíkur. Deiliskipulagssvæðið KR afmarkast af Flyðrugranda í norðaustri, Kaplaskjólsvegi í suðaustri, Frostaskjóli í suðvestri og íbúðarbyggð við Fjöru- og Boðagranda í norðvestri. Umrætt svæði verður breytt úr hreinu íþróttasvæði í svæði með íbúðir og þjónustu á jaðrinum en það eykur fjölbreytni.

Eldra fjarlægt og byggt nýtt

Þá er gert ráð fyrir fjölnota íþróttahúsi um miðbik svæðisins. Þar er m.a. gert ráð fyrir að eldra íþrótta-hús verði fjarlægt og byggt nýtt. Tengibygging er hugsuð fyrir búningsherbergi, félagsaðstöðu o.fl. Gert ráð fyrir skrifstofum félagsins og annarri starfsemi til dæmis tónlistarskóla. Nýr aðalkeppnisvöllur verður byggður. Vallarstæðinu snúið 90° miðað við núverandi völl, með áhorfendastúkum fyrir um 3.500 áhorfendur á tvær hliðar.  Við Flyðrugranda og Kaplaskjólsveg verða byggingar fyrir þjónustu, bílastæði og íbúðir á sér lóð. Heildarstærð nýbygginga verður um 51.060 fermetrar. 

You may also like...