Ungmennin eru stolt af hverfinu sínu

Breidholt 2030 A 1

Ungmenni sem tóku þátt í námskeiðinu Breiðholt 2030.

Í aðdraganda jóla bauðst ungmennum hverfisins að sitja námskeið sem kallaðist Breiðholt 2030. Námskeiðið var hugsað sem blanda af fróðleik og valdeflingu og var markmiðið að rýna í sýn ungmenna á hverfinu og hvetja þau til virkrar þátttöku.

Sá sem stóð fyrir námskeiðinu heitir Magnús Sigurjón Guðmundsson og er borinn og barnfæddur Breiðhyltingur. Magnús sem aldrei er kallaður annað en Maggi Peran er tómstundafræðingur að mennt og hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á störfum með unglingum. Hann var forstöðumaður yfir félagsmiðstöðvum í rúman áratug og hefur starfað hjá Barnavernd sem og fyrir Samfés, samtök félagsmiðstöðva á Íslandi. Magnús hlaut styrk frá Hverfissjóði Reykjavíkur fyrir námskeiðinu og auglýsti hann námskeiðið víða. Þátttakendur námskeiðsins voru margir hverjir reynslumiklir meðlimir nemenda- og ungmennaráða og höfðu bersýnilega fengið frábæra þjálfun í gegnum það starf. Þau voru þroskuð, fagleg og höfðu sterkar skoðanir á hverfinu sínu.

Stolt af Breiðholtinu

Ungmennin voru stolt af hverfinu en þykir leiðinlegt að heyra þær staðalímyndir sem virðast sumsstaðar svífa yfir vötnum. Þau telja menntastofn-anirnar vera framúrskarandi á mörgum sviðum og nefndu sérstaklega sérstöðu Fjölbrautarskólans í Breiðholti er varðar listnámskennslu sem og það magnaða framboð sem þar er á námi. Þau voru stolt af því öfluga félagsstarfi sem hérna er og þeim flottu íþróttafélögum sem gleðja íbúa hverfisins með stórum sigrum á íþróttavöllum landsins. Þau eru áhyggjufull yfir minnkandi þjónustu í verslunarkjörnum hverfanna en trúa því að nú sé að birta til. Ungmenni hverfisins eru stolt af Breiðholtslaug sem þau segja að sé ein fallegasta og besta sundlaug Reykjavíkur. Þau verðlaunuðu eina verslun sem þá verslun sem þau vilja sjá standa enn árið 2030 og skegg-ræddu hvernig þau geta haft áhrif á samfélagið okkar núna. Þau ræddu hvernig þau vilja sjá hverfið eftir 15 ár og mun Magnús á næstu misserum taka saman þeirra sýn og senda á stjórnmálamenn borgarinnar. Það er ljóst að í hverfinu okkar býr drífandi og dugleg æska. Æska sem hefur sterkar og góðar skoðanir. Þurfum við kannski að hlusta meira á hvað unga fólkið vil?

You may also like...