FB útskrifaði 162 nemendur
Skólaslit Fjölbrautaskólans í Breiðholti fóru fram í Háskólabíói föstudaginn 22. maí. Alls útskrifuðust 162 nemendur og afhent voru 175 skírteini þar sem nokkrir nemendur útskrifast af tveimur brautum.
Þórunn Sunneva Elfarsdóttir er dúx skólans, en hún hlaut 9.17 í aðaleinkunn, en hún lauk prófi frá fata- og textílbraut skólans. Þrjár stúlkur sópuðu að sér flestum verðlaunum sem veitt voru fyrir góðan námsárangur. Auk þess að vera dúx skólans fékk Þórunn Sunneva verðlaun fyrir íslensku, bestan árangur á fata- og textílbraut og að auki fékk hún viðurkenningu frá Soroptimistaklúbbi Hóla og Fella. Sunna Sól Sigurðardóttir fékk verðlaun fyrir dönsku, ensku og myndlist og Sara Líf Magnúsdóttir fékk verðlaun fyrir myndlist auk þess sem hún fékk íslenskuverðlaun í formi peningastyrks úr styrktarsjóðs Kristínar Arnalds. Þá hlaut Leifur Daníel Sigurðarson viðurkenningu frá Rotarýklúbbi Breiðholts.
Verðlaun fyrir góða árangur í íslensku
Aðrir sem hlutu verðlaun og viðurkenningu voru m.a. Gangadai Sahadeo sem verðlaun fyrir góðan námsárangur í íslensku sem annað mál og tveir nemendur á starfsbraut skólans fengu viðurkenningu fyrir mestar framfrarir á námstímanum, þeir Ingimundur Ágústsson og Sigurður Bjarki Brjánsson. Fjöldi fyrirtækja, félaga og stofnana gáfu útskriftarnemendum gjafir, s.s. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Samtök iðnaðarins, Gámaþjónustan, Soroptimistaklúbbur Hóla og Fella, nokkur sendiráð erlendra ríkja og fleiri aðilar.