Bandaríkjamaður kaupir Kjarvalshúsið

Sæbraut 1

Kjarvalshúsið við Sæbraut 1 á Seltjarnarnesi hefur verið selt. Kaupandinn er William Oli­ver Luckett banda­rísk­ur viðskiptamaður, lista­verka­safn­ari og um tíma fram­kvæmda­stjóri the Audience. Húsið við Sæbraut 1 er jafnan kallað Kjarvalshús en það var sér­smíðað fyrir Jóhann­es S. Kjar­val listmálara árið 1969 sem fékk það að gjöf frá ís­lensku þjóðinni.

Markmiðið með byggingu þess að búa honum huggulegt heimili og góða vinnuaðstöðu. Kjarval kaus þó að flytja ekki í húsið og var það nýtt meðal annars sem aðstaða fyrir þroskahefta. Húsið hentaði þó ekki allskosta til umönnunar- og sérkennslustarfsemi og var selt árið 1991. Kaupendur þess voru hjónin Högni Óskarsson, geðlæknir og Ingunn Benediktsdóttir, glerlistakona og yogakennari.

Högni rakti tildrög þess að þau festu kaup á húsinu í viðtali við Nesfréttir fyrir nokkrum árum. Hann sagði aðdragandann þann að þau hjónin hafi oft farið í ökuferðir um Nesið og þá komið auga á hús við austari enda Sæbrautarinnar sem þeim fannst dálítið geggjað. „Húsið var í eigu ríkisins og við fréttum svo af því að ætlunin væri að selja þetta hús sem var í umsjón menntamálaráðuneytisins og Listasafns Íslands. Við settum okkur í samband við Beru Nordal sem þá var forstöðumaður safnsins til að tryggja aðkomu okkar að söluferlinu. Svo lásum við í fréttum um páska að Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra hafði látið Sláturfélag Suðurlands hafa húsið í makaskiptum fyrir byggingar sem það átti á Kirkjusandi þar sem Listaháskóli Íslands er nú til húsa. Okkur varð fljótt ljóst að sláturfélagið myndi ekki að eiga húsið til frambúðar svo Ingunn tók af skarið, settist að Steinþóri Skúlasyni, forstjóra og keypti húsið, sagði Högni í viðtalinu. Hann sagði að á sínum tíma hafi verið steyptur garður við sjóinn þar sem Sæbrautin liggur nú. Fiskur hafi verið verkaður á þessu svæði á vegum Thorsaranna og á einhverjum tíma hafi verið farið með nautgripi frá Korpúlfsstaðabúinu þangað til þess að nýta beitarland á Seltjarnarnesi. Tæpast sést móta fyrir garðinum lengur og leifar hans voru urðaðar undir sjóvarnargarð í kjölfar stórviðrisins. Húsið er teiknað af Þor­valdi S. Þor­valds­syni arki­tekt. Hann teiknaði húsið með sérþarf­ir Kjar­val í huga. Stofa húss­ins var til dæm­is ætluð sem vinnu­stofa lista­manns­ins en hún er 110 fermetrar að stærð með fimm metra loft­hæð. Í stof­unni eru risa­stór­ir glugg­ar með út­sýni út á haf. Húsið er 443 fm að stærð. Í hús­inu eru sex her­bergi, ar­inn, stór­ar stof­ur og ein­stakt út­sýni út á haf en húsið stend­ur á sjáv­ar­lóð. Húsið fékk sér­staka um­hverf­is­viður­kenn­ingu frá Seltjarn­ar­nes­bæ árið 2014.

You may also like...