Beint frá vinnustofu á Barónstígnum

Brynjar og Veronika 1

Brynjar Sigurðarson vöruhönnuður og Veronika Sedlmair innanhússarkitekt á tröppum húsnæðis Crymogeu við Barónsstíg.

Sérstök vinnustofa og sýningarrými er nú opið í húsnæði Crymogeu við Barónsstíg. Vinnustofan ber heitið góðir vinir segja aðstandendur hennar það dregið af vináttu þeirra.

Þau eru Brynjar Sigurðarson vöruhönnuður, Veronika Sedlmair innanhússarkitekt og Frosti Gnarr sem er grafískur hönnuður sem standa að opnu vinnustofunni. Brynjar og Veronika eru búsett í Berlín þar sem þau eru með stúdíó og á dögunum hlaut Brynjar svissnesku hönnunarverðlaunin Swiss Design Awards í flokki vöru- og hlutahönnunar fyrstur Íslendinga. Hann segir þau Veroniku oft hafa hugleitt að koma til Íslands og gera eitthvað skemmtilegt og stefnir þríeykið á að vinna áfram hugmyndir og hluti auk þess að skapa eitthvað sem er nýtt í hönnunar- og listaflórunni.

Brynjar segir þau hafa langað að skoða hvort þau gætu sjálf framleitt einhverja hluti og selt þá beint frá vinnustofunni – hluti sem væru ekki framleiddir í einhverju upplagi heldur bara hannaðir og unnir á staðnum af þeim sjálfum. Nokkuð sem líktist hugsuninni um „beint frá býli“ í matvörunni. Hann segir þau hafa mikinn áhuga á íslensku ullinni og hafi meðal annars verið að vinna handprjónuð ullarteppi en þau vilji einnig vinna með fleiri efni og nefnir gler og sand sem dæmi.

Sótti innblástur í sjávarþorp

Saga Brynjars er á þá leið að hann útskrifaðist af vöruhönnunarbraut Listaháskóla Íslands árið 2009. Þegar hann vann að útskriftarverkefni sínu fór hann meðal annars til Vopnafjarðar þar sem hann dvaldi um mánaðar skeið til þess að kynnast mannlífi, sögu og menningu þessa fámenna byggðarlags á norðaustanverðu landinu. Hann kveðst hafa hitt alls konar fólk, spjallað við það og reynt að kynnast því andrúmslofti sem var í samfélaginu auk þess að taka mikið af myndum. Eitt sem Brynjar gerði á Vopnafirði var að læra hnúta af öldnum hákarlasjómanni sem hann hefur nýtt sér í hönnun og listsköpun. Brynjar er í raun ekki sé fyrsti sem nýtir hnúta sem grunn að listsköpun vegna þess að ein af þekktari bókum vestanhafs The Shipping News eftir Annie Proulx er að nokkru byggð á Hnútabók Ashleys en er að öðru leyti skáldsaga sem fjallar um sögu fjölskyldu sem vitjar róta sinna á Nýfundnalandi á hnignunartíma þess. Í Hnútabók Ashleys segir að hnútur með átta brögðum sé nálægt því að vera meðalhnútur og eigi 256 yfir og undirbrögð möguleg. Eftir að Brynjar yfirgaf Vopnafjörð hefur hann að sögn verið að færa þetta umhverfi og handverk og framleiðsluaðferðir sem hann kynntist á staðnum þar sem land og haf mætast yfir á form hluta bæði með meðvituðum og ómeðvituðum hætti. Hann segir að með ýmsu öðru hafa notfært sér hnúta sem hann lærði af hákarlasjómanninum við framleiðslu húsgagnalínunnar Þögult þorp fyrir franska hönnunargalleríið Galerie Kreo. Útfærsla Brynjars á hönnun sem að hluta er byggð á hnútum hefur vakið athygli víða. Sýningin eða sýningarrýmið Góðir vinir er opið öllum og verður eitthvað af mununum til sölu auk þess sem hægt verður að spjalla við hönnuðina, tylla sér niður og fá sér kaffibolla. Við ætlum að halda okkur við hugmyndina beint frá býli nema að kalla hana réttnefninu beint frá vinnustofu,“ segja þau Byrnjar og Veronika.

You may also like...