Ég vissi strax að þetta væri hljóðfæri fyrir mig
Björn Ionut Kristinsson tónlistarmaður, betur þekktur sem Bjössi Sax var útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness 2021. Bjössi hefur spilað á saxafón frá unga aldri og náð að margra dómi einstökum tökum á hljóðfærinu. Hann fann áhugann á saxófóninum þegar hann var barn að aldri að horfa á Disney þátt í sjónvarpinu þar sem leikið var á saxófón. Bjössi hefur tónlistina greinilega í blóðinu. Á auðvelt með að grípa laglínur og lög og túlka í gegnum saxófóninn. Bjössi er alin upp á Seltjarnarnesi frá sex ára aldri. Foreldrar hans eru Kristinn Haukur Skarphéðinsson náttúrufræðingur og Unnur Steina Björnsdóttir læknir. Bjössi ber nafn afa síns í móðurætt dr. Björns Sigurbjörnssonar sem var aðstoðarforstjóri sameiginlegrar deildar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar í Vínarborg og er talinn einn af frumkvöðlum grænu byltingarinnar. Dr. Björn gegndi síðar stöðu ráðuneytisstjóra í landbúnaðarráðuneytinu. Björn Ionut Kristinsson eða Bjössi sax settist niður hjá Hjördísi í Bike Cafe í Skerjafirði og spjallaði við Nesfréttir fyrir skömmu.
Bjössi er fremur dökkur á hörund, dökkhærður og ber erlent millinafn. Spurning vaknar hvaðan þetta nafn er komið. Hann er ekki seinn til svars og lýsir uppruna sínum. „Ég er frá Rúmeníu. Ionut er dregið af rúmenska nafninu Ion sem er sama nafn og Jón hér á landi. Ég var ættleiddur þegar ég var níu mánaða og flutti þá með foreldrum mínum í Vesturbæinn. Fyrst á Ægissíðuna og síðar á Seltjarnarnes. Þannig er að móðurafi minn sem ég heiti eftir var vísindamaður og diplómat og starfaði um tíma í Vínarborg. Þar kynntist hann manni frá Rúmeníu sem hét Kristian Hera og þeim varð vel til vina. Foreldrar mínir voru einhverju sinni stödd hjá afa og ömmu í Austurríki og voru í boði þar sem Kristian Hera var einnig. Foreldrar mínir voru barnlaus og farin að huga að mögulegri ættleiðingu. Þarna berst í tal að dóttir þessa vinar afa væri starfandi á barnaheimili í Búkarest. Mamma lagði við hlustir og hún og pabbi urðu strax áhugasöm. Gat verið að þar væri að finna barn sem vantaði fósturforeldra. Hún sagði við afa að hann þyrfti ekki að spyrja að þessu strax í boðinu en hann beið ekkert með það. Kristian fór síðan að færa þetta í tal við dóttur sína og fljótlega var ljóst að hún var með dreng á fyrsta ári sem sem þarfnaðist foreldra. Þessi drengur er ég – Ionut. Mamma fór síðan til Rúmeníu en ættleiðingin tók smá tíma. Strangar reglur giltu um ættleiðingar í Rúmeníu og þegar finna þurfti barni nýja foreldra áttu heimamenn forgang. Þau urðu því að bíða í tvo mánuði eftir að forgangstíminn rynni út og að niðurstaða fengist. Þá biðu þau ekki boðanna og ég var níu mánaða þegar ég kom með þeim hingað til lands. Búinn að eignast foreldra til frambúðar. Þess vegna á ég eiginlega tvö afmæli. Ég er fæddur í maí 1994 og svo er hitt afmælið mitt þegar ég kem í hendur mömmu og pabba.“
Sá saxófónleikarann í Disney mynd og heillaðist
„Mér er sagt að ég hafi fljótt orðið sprelligosi og fljótur að svara fyrir mig. Stundum að ybba gogg eins og sagt er á góðri íslensku. Ég mun hafa verið þriggja ára þegar ég var í klippingu hjá hárgreiðslukonu. Hún var eitthvað að spá í klippinguna og hafði orð á að ég væri sætur. Og ekki stóð á svarinu hjá mér sem var „þú ert líka ágæt“. En kannski var ég bara gamall í mér svona alveg frá byrjun. Ég byrjaði líka fljótt að spila. Tónlistin fór að skjóta rótum í hausnum á mér. Björn afi var líka oft heima hjá okkur á Ægissíðunni. Hann er tónelskur og oft að spila á píanóið. Ég lærði fyrstu píanógripin hjá honum. Ég var snemma farinn að spila svona geggjuð lög eins og Summertime og Papermoon. Þetta hefur alltaf verið í hausnum á mér. Það er líka svolítið skemmtileg saga um hvernig ég uppgötvaði saxófóninn. Ég var sex ára og sat með systur minni sem einnig er ættleidd frá Rúmeníu þótt við séum ekki blóðskyld fyrir framan sjónvarpið. Vorum að horfa á barnaefni frá Disney. Það var ákveðið jólaþema í þættinum sem fór fram á skautasvelli. Listskautarnir voru í búningum úr ýmsum Disney ævintýrum. Þar á meðal Mikka mús, Guffa og Fríðu og Dýrinu. Á miðju svellinu var maður í hvítum og rauðum jakkafötum og lék á saxófón. Hann var að spila Have Yourself A Merry Little Christmas í algjörum djassfílingi. Þetta var alveg fáránlega flott og ég varð alveg heillaður og hugsaði stöðugt um saxófóninn. Hann væri hljóðfæri fyrir mig. Mamma komst ekki hjá því að taka eftir þessum óvænta áhuga mínum á saxófóninum og ákvað á endanum að gera eitthvað í málinu. Frændi okkar Páll Bragi Hólmarsson er hrossabóndi fyrir austan fjall. Mamma vissi að hann átti saxófón. Ég var um tíu ára aldur þegar hún ákvað að við færum að heimsækja Palla frænda og að ég fengi að líta á saxófóninn. Ekki stóð á því. Hann náði í hljóðfærið og leyfði mér að skoða og einnig að prufa að blása. Þarna varð ekki aftur snúið. Skömmu síðar fór ég að læra á þetta hljóðfæri hjá Lárusi Grímssyni og síðar hjá Hauki Gröndal. Þarna varð Bjössi sax raunverulega til.“
Fluttu á Nesið út af mér
„Það var mín vegna sem mamma og pabbi ákváðu að flytja á Seltjarnarnes. Þau höfðu kynnst kennara sem heitir Regína Höskuldsdóttir og starfaði við Mýrarhúsaskóla eða Mýró eins og Seltirningar kalla hann. Mamma var búin að reyna fyrir sér annars staðar en það gekk ekki. Regína tók mér vel og ég settist á skólabekk í Mýró. Þetta varð til þess að þau ákváðu að flytja á Seltjarnarnes á Vesturströnd 27 þaðan sem þau hafa ekki farið síðan. Skólaganga mín var þó enginn dans á rósum,“ heldur Bjössi áfram. „Ég þjáðist af aðskilnaðarkvíða þannig að erfitt gat verið að skilja mig eftir. Ég hékk í bílnum þegar farið var með mig í skólann og annað var eftir því. Ég var líka með tengslaröskun og lenti fljótt upp á kant við krakka. Þetta var erfitt og ég skipti oft um skóla. Eftir að ég hætti í Mýró var mér komið fyrir í Valdorfsskólanum í Mosfellsbæ. Ég var þar í viku. Það gekk ekki. Síðar fór ég í Landakotsskóla. Átti stöðugt í samskiptaerfiðleikum og var lagður í einelti. Krakkar börðu mig. Fötin mín voru tekin. Ég var læstur inn í skáp og annað var eftir því. Ég kynntist þó ekki þeim hlutum sem hafa verið í hámæli um þann skóla. Það eru eldri mál. Ég endaði í Suðurhlíðaskóla. Þar toldi ég illa í tímum. Fór oft úr skólastofunni og var mikið inn á kennarastofu. En mér leið vel þar. Aðskilnaðarkvíðinn fylgdi mér. Ég fékk botnlangabólgu og þurfti í aðgerð á spítala. Af því botnlanginn var sprunginn varð ég að dvelja í nokkra daga á spítalanum meðan ég var að jafna mig. Eitt sinn þegar pabbi var nýfarinn frá mér fann ég að ég gat ekki verið einn inn í herbergi. Ég spurði hjúkrunarkonu hvort ég mætti fara fram. Og ég fór lengra en fram á ganginn. Ég fór út úr húsinu og labbaði úr Fossvoginum upp í Suðurhlíðar. Í slopp og með nálina í handleggnum. Ég var eins og gaurinn í Englar alheimsins. En mér þótti vænt um Suðurhlíðaskólann.“
Söng sem Róbert bangsi
„Ég útskrifaðist úr FÍH 2018 eftir fimm ára nám. Það er eiginlega eina útskriftin sem ég á að baki. Þarna var ég komin í nám sem átti við mig. Ég hef starfað við Þetta síðan. Unnið með ýmsum. Spilað meðal annars á Hressó og svo hef ég túrað um Ísland.“ Bjössi hefur líka sungið. Hann tók meðal annars nokkur lög í þáttum Ingó á Stöð 2 fyrr á þessu ári. En hefur hann sungið lengi. „Ég söng eitt sinn sem Róbert Bangsi. Ætli ég hafi ekki verið 10 ára. Svo hef ég líka verið í söng hjá Maríu Björk.“ En er Bjössi einn. „Já, ég hef trúlega verið svo upptekinn af tónlistinni að ég hef ekki gefið mér tíma í annað. En ég ætti kannski að fara að líta í kringum mig. Maður veit aldrei hvað leynist þarna úti.“ Þarna er hamborgarinn hennar Dísu í Bike Cafe búinn og á sama augnabliki hringir síminn hans Bjössa. Hann er þotinn. Verkefnin bíða.