Endurbygging í Fellunum
Lokið er við endurbætur og nýbyggingu á húsi í Fellunum í Efra Breiðholti. Breytingin á húsinu byggist á deiliskipulagi frá 2005.
Samkvæmt því mátti byggja tvær hæðir ofan á verslunarhús með 19 íbúðum og stæðum fyrir 13 bíla. Á þessu ári fékkst samþykkt breytt deiliskipulag og fjölgun íbúða í 24 og bílastæði sem áður voru undir húsinu voru færð út fyrir bygginguna. Hverfaskipulag Breiðholtsins gekk í upphafi út á að koma verslun og þjónustu fyrir inni við miðju hverfanna og raða íbúðahúsinum umhverfis. Allt átti að vera í göngufæri og við hendina. Byggðin var þéttust næst þjónustunni og skólunum svipað og hefur tíðkast í borgum og bæjum um aldir. Eftir að verslunarhættir breyttust með tilkomu stærri markaðsverslana utan íbúðabyggða og almennri bifreiðaeign fluttist verslun og þjónusta að miklu leyti úr íbúðahverfunum inn á iðnaðar- og hafnarsvæði. Við það losnaði húsnæði á góðum stöðum víðs vegar í borgarlandslaginu – einnig í Breiðholtinu en nú er farið að huga að endurbyggingu. Hin stækkaða og endurbyggða bygging í Fellunum er steypt, neðsti hlutinn klæddur með steinsteyptum plötum. Timburklæðning er grófhefluð fura lituð ljós. Húsið setur nú sterkan svip á umhverfi sem áður bar einkum keim niðurníðslu.

Húsið eins og það var fyrir endurbygginguna. Myndir: Heimasíða GP arkitekta en þeir önnuðust skipulag og teikningu hússins.