Iðjusöm og koma vel fyrir
Líkt og undanfarin sumur útvegaði Seltjarnarnesbær öllum námsmönnum á Seltjarnarnesi, sem þess óskuðu, frá 8. bekk til 25 ára aldurs starf við þeirra hæfi. Störfin eru fjölbreytt og mörg hver stuðla að fræðslu og samstarfi með eldri borgurum auk þess sem stuðlað er að því að námsmenn geti nýtt sína sérþekkingu.
Meðal starfa sem bærinn býður upp á eru garðyrkjuvinna, viðhaldsframkvæmdir við mannvirki, stjórnun og aðstoð við leikjanámskeið, afleysingar á bæjarskrifstofum, sundlaug, bókasafni og leikskóla, gæsla í Nesstofu, gagnagrunnsvinna við ljósmyndasafn, tölvunámskeið og skipulagðar gönguferðir með eldri borgurum, umsjón með smíðavelli auk þess sem listahópur er starfræktur.
Gagnkvæmur ávinningur
Garðyrkjustjórinn Steinunn Árnadóttir og Jón Ingvar Jónsson starfsmaður áhaldahússins eru teymið sem stýrir sumarstarfsmönnum sem vinna við framkvæmdir á opnum svæðum. Þau eru afar ánægð með sumarstarfsmennina og segja þau vinnusöm og koma vel fyrir. „Við höfum verið einstaklega heppin með sumarstarfsfólk,“ segir Steinunn, en Jón Ingvar var í fríi þegar tíðindamaður Nesfrétta leit við. „Þetta eru upp til hópa iðjusöm ungmenni sem leggur metnað í störfin sín. Ég held að bæjarbúar geti sammælst um það að bærinn hefur sjaldan litið eins snyrtilega út og það vil ég þakka þessum frábæru krökkum,“ segir Steinunn. „Það er ánægjulegt að bærinn skuli bjóða öllum skólabörnum upp á vinnu, þetta er gagnkvæmur ávinningurinn því alltaf mái fegra bæinn og um leið eru ungmennunum tryggðir vasapeningar sem ættu að duga fram á vetur,“ segir hún að lokum.
Sumarstarfsmennirnir Anna Pálína og Hjörtur tóku myndirnar.