Félagsstarfið í Gerðubergi komið í fullan gang

Gerduberg frontur 1

Félagsstarfið í Gerðubergi er að fara á fullt eftir sumarið. Þrátt fyrir að opið hafi verið í sumar fer alltaf nýr kraftur í starfið á haustdögum.

Anna Kristín Bjarnadóttir forstöðumaður félagsstarfsins segir að vetrardagskrá Félagsstarfsins sé að mestu tilbúin. Um hefðbundið starf verði að ræða eins og undanfarin haust og vetur eins og áður. Nauðsynlegt sé þó að hvetja fólk til þess að koma með hugmyndir að starfi sem geti orðið undirstaða að sjálfbærum hópum. Húsnæði standi til boða og öll aðstaða sem til þurfi. „Ég vil hvetja sem flesta til þess að láta í sér heyra ef þeir eru með hugmyndir. Koma með þær til mín því alltaf má athuga hvort ekki megi gera þær að veruleika. Einkenni félagsstarfssins er sem fyrr að það sé sjálfsprottið og sjálfbært. Að fólk komi með hugmyndir sem við getum unnið úr. Þá er sú vísa aldrei of oft kveðin að félagsstarfið er ekki aðeins fyrir þá sem stundum eru kallaðir „heldri borgarar“ fólk sem komið er á eftirlaunaaldur heldur eru allir velkomnir og yngra fólk á ekki að láta yngri aldur fæla sig frá félagsstarfinu,“ segir Anna í samtali við Breiðholtsblaðið.

Margt í boði

Í vetur verður boðið upp á allskyns hefðbundið félagsstarf. Félagsvist verður spiluð, farið verður í línudans, bókbandið og kórastarfið verðu á sínum stað og einnig má nefna leikfimi, gönguhóp, pappamódel, útskurð, steinamálun, myndlist, helgistund, perlusaum, bútasaum og handavinnu. Einnig verður boðið upp á stutt námskeið, þar á meðal postulínsnámskeið og önnur námskeið sem áhugi er fyrir. Þá má geta þess að starf Félags heyrnarlausra verður hluti af félagsstarfinu í Gerðubergi líkt og undanfarin ár.

Glæsileg vorsýning

Ef litið er til baka má geta þess að vorsýning félagsstarfsins í Gerðubergi og Menningarhússins Gerðubergs heppnaðist afar vel en þessar stofnanir stóðu saman að henni. Anna segir að fjöldi manns hafi kom á sýninguna sem stóð yfir allan maí mánuð. „Um 300 manns voru við opnun og á síðasta sýningardegi, sem einnig var markaður var fullt hús frá opnun til lokun. Mikil ánægja var með sýninguna þar sem yfir 90 manns áttu verk. Nú stefnum við að því að þessi viðburður verði annað hvert ár eða tvíæringur en sérsýningar verðið árið á móti,“ segir Anna.

You may also like...