Fjölbreytt starf í Seltjarnarneskirkju

Séra Bjarni Þór Bjarnason sóknarprestur á Seltjarnarnesi við styttu af Martein Lúther sem þýski sendiherrann gaf kirkjunni. Styttan er hluti af stærra verki sem sett var upp á torginu í Wittenberg. Martin Lúter hengdi upp 95 greinar gegn Kaþólsku kirkjunni á kirkjudyr þar 1517. Við þann atburð er saga hinnar Lútersku kirkju miðuð.

Sunnudaginn 22. ágúst var haldin sérstök minningarguðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju um Sigurbjörn Einarsson biskup. Þá voru 10 ár þá liðin frá láti hans. Karl Sigurbjörnsson biskup sonur Sigurbjörns prédikaði og ýmsir ættingjar þeirra feðga, barnabörn og langafabörn Sigurbjörns komu að málum í messunni. Svava Bernharðsdóttir lék á víólu og Steinunn Vala Pálsdóttur á flautu. Rannveig Karlsdóttir las ritningarvers og einnig Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi en hann er langafabarn Sigurbjörns. Gíslrún Sigurbjörnsdóttir er amma hans og afi hans er Kjartan Ólafsson fyrrum ritstjóri og alþingismaður. Þessi minningarguðsþjónusta er aðeins brot af því fjölbreytta kirkju- og safnaðarstarfi sem fer fram á Seltjarnarnesi því oft er ýmiskonar starf og atburðir í kirkjunni. Stundum nánast daglega. Nesfréttir settust niður með séra Bjarna Þór Bjarnasyni sóknarpresti á dögunum og ræddu við hann um kirkjustarfið.

Séra Bjarni segir mikið starf í Seltjarnarneskirkju. Sóknarnefndin sé mjög virk í kirkjustarfinu og sóknarnefndarfólk skiptist á um að vera með þegar messað er. “Þau hafa ákveðin hlutverk í messunum. Annast ritningarlestur og eru messuþjónar. Aðstoða einnig í kirkjukaffinu sem er eftir messur. Sjá um að flagga og fleira eftir því sem þörf krefur.” Bjarni segir að þótt messukaffið sé að hluta arfur úr fyrri tíð þá sé það annar mikilvægasti hluti sunnudagsmessunnar eins og hún er í dag. “Í mínum huga er kaffið mikilvægt eftir messur. Ég get lýst þessu eins og um fótboltaleik væri að ræða. Messan sjálf er fyrri hálfleikurinn en kaffið hinn síðari. Messukaffið hvílir á gömlum grunni í okkar kirkjustarfi og þjóðfélagi og er að mínu mati órjúfanleg hefð. Þessi venja var viðhöfð vítt og breytt um byggðir landsins og oft var það presturinn sjálfur eða eiginkona hans á meðan prestastéttin var karllæg sem annaðist um kaffið. Stundum kom sóknarnefndarfólk að kaffiveitingunum.” Bjarni segir að þessi siður sé síst á undanhaldi. “Ég held að hann hafi eflst á síðari árum og flust inn í þéttbýlið. Einkum eftir að safnaðaheimilin komu til sögunnar og opnuðu möguleika á mun fjölbreyttara kirkjustarfi en áður var. Til sveita var messukaffið oft drukkið á heimili prestsins sem heyrir í dag orðið til undantekninga þar sem góð aðstaða er fyrir það í mörgum kirkjubyggingum og safnaðarheimilum.”

Sigurður Óskar Óskarsson tekur við æskulýðsstarfinu 

En margt fleira er gert í Seltjarnarneskirkju en að hlíða á messur og drekka kaffi. “Við getum byrjað á æskulýðsstarfinu sem á sér sögu hér á Seltjarnarnesi,” segir Bjarni. “Við höfum haft frábæran æskulýðsfulltrúa Pálínu Magnúsdóttur sem nú er að láta af störfum en í stað hennar kemur Sigurður Óskar Óskarsson og tekur við keflinu þar sem hún leggur það frá sér. Nú er verið að stofna barnakór og ætlar Þorsteinn Sigurðsson óperusöngvari að bjóða upp á æfingar með kórnum og Friðrik Vignir organisti mun leika undir með krökkunum. Annað í æskulýðsstarfinu verður með nokkuð hefðbundnum hætti. Við verðum með starf fyrir unglinga og eins verða foreldramorgnarnir áfram þar sem foreldrar geta komið saman með ung börn sín. Þetta eru ekki einu börnin sem koma reglulega í Seltjarnarneskirkju því leikskóladeild er starfrækt í Norðurkjallara kirkjunnar á vegum bæjarfélagsins og því ómar kliður frá börnum þaðan alla virka daga.“

Kaffikarlarnir hittast tvisvar sinnum í viku í safnaðarheimili Seltjarnarneskirkju. Hluti hópsins fór í sumarbústaðarferð 4. september til þess að heimsækja einn úr hópnum sem á glæsilegan sumarbústað í Brekkuskógi í Biskupstungum. Það er Sverrir Hannesson og kona hans Helga Vallý Björgvinsdóttir. Þau tóku á móti hópnum og var glatt á hjalla á þessum frábæra stað þar sem fagurt útsýni er yfir Biskupstungurnar. Á myndinni má sjá frá vinstri Stefán Bergmann, Guðmar Marelsson, Loga Helgason, Jón Rafn Sigurjónsson, Má B. Gunnarsson, gestgjafana Sverri Hannesson og Helgu Vallý Björgvinsdóttur, sr. Bjarni Þór Bjarnason, Ægi Ólason, Ágúst Ragnarsson, Gunnar Kr. Gunnarsson, Guðmund Einarsson og Valgeir Gestsson.

 Karlaklúbburinn er merkilegur 

“Eitt af því sem mér finnst merkilegt hér í safnaðarstarfinu er karlaklúbburinn,” heldur Bjarni áfram. “Í karlaklúbbnum koma karlmenn á góðum aldri saman og ræða allt milli himins og jarðar. Þeir eru oftast á bilinu frá 10 til 20 og koma saman tvisvar í viku og þriðjudögum og fimmtudögum og sitja að spjalli í um tvo klukkutíma.  Þarna geta orðið snörp skoðanaskipti hvort sem menn ræða hin daglegu málefni eða eitthvað annað. Þessir ágætu menn hafa starfað við eitt og annað um dagana og kunna að segja frá mögnuðum atburðum sem þeir hafa upplifað eða rekið á fjörur þeirra með öðrum hætti. Þetta er ekki alveg sami hópurinn frá einum degi til annars. Þeir koma ekki alltaf allir í einu en eru engu að síður mjög duglegir að mæta sem segir að þeir hafi gaman af þessum fundum. Þeir reka sinn kaffisjóð en þar sem kaffið er gefins þá rennur sjóðurinn til hjálparstafs kirkjunnar.” Bjarni kveðst telja þetta klúbbstarf mikilvægt. Konur hafi oft átt auðveldara með að velja sér félagsstörf þegar hefðbundnum starfsaldri lýkur. Karlarnir hafi hugsanlega verið bundnari vinnu og vinnufélögum en þetta sýni að þeir geti verið til alls vísir þegar kemur að félagsmálunum. Þarna séu þeir líka alveg frjálsir. Ekki bundnir neinu prógrammi og geta talað um hvað sem er. En svo er annað starf með eldri borgurum. “Já það er félagsstarfið á Skólabrautinni sem hún Kristín Hannesdóttir sér um af miklum metnaði. Það er ekki á vegum kirkjunnar en ég fer þangað einu sinni í mánuði og er með helgistund. Það er mjög ánægjulegt en þetta er auðvitað aðeins öðruvísi en karlaklúbburinn enda um blandað félagsstarf að ræða.”

Græn messa – gæludýrablessun og margt fleira

Guðsþjónusta sunnudagsins 2. september var græn en kirkjan var í græna hverfinu á bæjarhátíðinni. Grænar veitingar voru í safnaðarheimili að lokinni athöfn. “Við gerðum þetta svolítið myndrænt og skreyttum kirkjuna græna. Svo er annað sem við höfum verið að gera en það er svonefnd gæludýrablessun. Þá kemur fólk með gæludýrin sín sem hljóta blessun. Næst ætlum við að vera með slíka stund í kirkjunni í október. Ég byrjaði með þetta í Grafarvogskirkju og við reyndum þetta hér á Seltjarnarnesi fyrir tveimur árum og aftur í fyrra. Það kom fullt af fólki með gæludýrin sín. Þessi athöfn á sér kirkjulega skýringu og er upphaflega komin frá heilögum Franz frá Assesi. Við ætlum okkur eftir reynsluna frá síðasta ári að halda þessu áfram og skapa því fastan sess í kirkjustarfinu. Margt fleira mætti telja. Að kvöldi Þorláksmessu hefur Friðrik Vignir organisti gert að venju að setjast við orgelið og spila fyrir gesti og gangandi. Fólk sem á leið um hefur getað komið við í kirkjunni og hlustað um stund. Þetta á ef til vill ekki síst við um fólk sem er á leið heim frá ýmsum erindum sem gjarnan fylgja þessu kvöldi. Þetta er róleg stund þar sem hægt er að draga andan frá erli jólaundirbúningsins. Og svo má ekki gleyma gamlárskvöldunum. Þá kemur fjöldi manns hingað. Friðrik Vignir spilar þá líka á orgelið og við bjóðum fólki upp á heitt súkkulaði. Fólk lítur þá gjarnan við á leið til brennu eða heimleið frá brennu. Á síðasta gamlárskvöldi komu allt að 400 manns og drukku um 60 lítra af súkkulaði. Á annan dag jóla er svo kirkjuhlaupið sem Trimmklúbbur Seltjarnarness annast um. Eftir hlaupið kemur fólk saman í kirkjunni. Þetta er skemmtilegt og skerpir líka tengslin á milli fólks. Og svo hefur við verið að bjóða upp á nýbreytni sem er fengin hingað að danskir fyrirmynd. Það er kvöldmáltíðin að kvöldi skírdags. Þá er sett upp langborð í kirkjunni og fólk kemur saman og snæðir lambakjöt í minningu síðustu kvöldmáltíðarinnar og við neytum saman altarissakramentisins. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert annars staðar í kirkjum hér á landi en hefur mælst vel fyrir á Seltjarnarnesi. Og af fleiru er að taka í kirkju- og safnaðarstarfinu. Fræðslumorgnar eru haldnir öðru hvoru á sunnudagsmorgnum. Þeir verða fimm eða sex á haustmisserinu og síðan í nokkur skipti eftir áramót. Einnig er ætlunin að efna til kvikmyndasýninga í vetur. Rótarýklúbburinn á Seltjarnarnesi gaf kirkjunni stórt sjónvarpstæki fyrir nokkru. Nokkurskonar heimabíó og við ætlum að efna til kvikmyndasýninga í vetur og leggja áherslu á að sína myndir með kristnum stefjum einu sinni í mánuði.”  

Leshópur um frelsi hins kristna manns

“Nú ætlar dr. Gunnar Kristjánsson fyrrum prófastur að koma og bjóða upp á leshóp þar sem lesið verður eitt af ritum Marteins Lúthers sem heitir Frelsi hins kristna manns. Seltjarnarneskirkja á styttu af Lúther sem sendiherra Þýskalands færði kirkjunni að gjöf. Styttan er hluti af verki sem sett var upp á torgi í Wittenberg og byggðist fjölda af styttum af Marteini Lúther í ýmsum litum og nú er ein þeirra í Seltjarnarneskirkju.”

Listahátíð og útialtari í Nesi

Annað hvert ár er svo slegið upp listahátíð Seltjarnarneskirkju og þar hefur kennt margra grasa. Listahátíðin er haldin um mánaðamót september til október eða að vorinu. Þar á kirkjan ýmsa öfluga hauka í horni. Menn á borð við dr. Gunnlaug A. Jónsson prófessor í guðfræði og Ólaf Egilsson fyrrum sendiherra sem báðir hafa sýnt kirkju- og safnaðarstarfinu mikinn áhuga. Margir fleiri hafa komið að þessum viðburði. Tónlistarfólk og söngvarar og listafólk af ýmsu tagi hafa glatt Seltirninga og aðra sem komið hafa og tekið þátt í listahátíðinni. Eitt af því sem okkur langar til að gera er að setja upp útialtari þar sem altari kirkjunnar í Nesi stóð en hún fauk af gunni í óveðri í janúar 1799. Eins væri gaman að koma upp minnisvarða við grafreitinn í Nesi þar sem lesa mætti nöfn þess fólks sem heimildir eru um að hafi verið grafið þar. Þetta tvennt myndi minna á þá lögnu kirkjusögu sem er á Seltjarnarnesi.”

You may also like...