Spennandi tímar framundan

skuli-sigurdur-olafsson3 1

Sr. Skúli Ólafsson.

Skúli S. Ólafsson tók við embætti prests í Neskirkju fyrr á þessu ári. Skúli var áður sóknarprestur í Keflavíkurprestakalli, en einnig hafði hann þjónað á Ísafirði og verið prestur Íslendinga í Svíþjóð. Skúli lauk doktorsnámi frá Háskóla Íslands fyrir um ári. Tíðindamaður settist með Skúla á notalegu kaffihúsi í safnaðarheimili Neskirkju á dögunum. Fyrsta verk prestsins var að búa til gott espressó kaffi fyrir komumann.

„Ég hef lengi haft augastað á þjónustu í þessum söfnuði og fyrir áratug sótti ég um um hér í Neskirkju. Að mínu mati býður Neskirkja upp á einhverja bestu aðstöðu sem þekkist í kirkjum hérlendis. Safnaðarheimilið er vel skipulagt og kaffihúsið sem tekið var í notkun fyrir rúmum áratug, gefur því skemmtilega vídd. Kirkjuskipið er tilgerðarlaust og notalegt, stíllinn minnir helst á stássstofu frá sjötta eða sjöunda áratug liðinnar aldar. Hugsunin var að fólki liði hér vel og ég er viss um að sú sé einmitt raunin. Kirkjan er hönnuð í módernískum stíl sem farin var að ryðja sér rúms þegar hún var hönnuð um miðja síðustu öld. Slíkar byggingar hafa ekki alls staðar komið vel út og sumar eru kaldar og fráhrindandi,” segir Skúli. ,,Ágústi Bjarnasyni arkitekt og hönnuði kirkjunnar tókst á hinn bóginn vel til við að brjóta hefðbundið kirkjuform upp og laga það að nýrri hugsun. Kirkjubyggingin var framsækið verk á þeim tíma en hefur elst og reynst vel. Hún er orðin klassísk og er ein þeirra þriggja bygginga í þessum anda sem risu á Melunum, með skömmu millibili og styðja vel hver aðra. Þær eru auk Neskirkju, Háskólabíó og Hótel Saga.“

Ekki að ástæðulausu að hverfin eru eftirsótt

Skúli segir það ekki að ástæðulausu að Haga- og Melahverfin eru jafn eftirsótt og raun ber vitni, enda hafa byggingarnar staðist tímans tönn. „Þegar við leituðum að húsnæði í Reykjavík nú um áramótin, stóð hugur okkar til þessa borgarhluta en vegna þess hversu eftirsóttur hann er var lítið að hafa og verðlagið æði hátt. Húsnæðisleitin endaði því með kaupum á húsnæði rétt við Laugardalinn. Það er líka ágætur staður. Skammt út í náttúruna og ekki það langt í burtu að við hjónin hjólum daglega til og frá vinnu. Frúin mín er lögreglustjóri á Höfuðborgarsvæðinu og leggur því hjólhesti sínum við lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem hún sinnir krefjandi þjónustu.“

Á flakki í tvo áratugi

„Talið berst lengra aftur í tímann, vestur á Ísafjörð og til Svíþjóðar. Skúli segir fjölskylduna hafa verið á flakki í heila tvo áratugi. Árið 1995 héldum við til náms í Kaupmannahöfn. Þaðan lá leiðin vestur á Ísafjörð, svo til Svíþjóðar og aftur á gamlar slóðir á milli fjallanna vestur á fjörðum. Konan mín hafði fengið veitingu fyrir sýslumannsembætti þar og ég fór að starfa við skóla- og æskulýðsmál hjá bæjarfélaginu. Þar lærði ég margt einkum er snertir stefnumótun og rekstur nokkuð sem ekki er kennt í guðfræðinni en hefur síðan nýst mér vel í prestsstarfinu. Þarna dvöldum við fram til 2006 að ég var valin sóknarprestur í Keflavík. Þar var ég svo í níu ár eða þangað til ég kom hingað í Neskirkju.“

Tugur milljóna í velferðarsjóð

Talið berst að Keflavík og Suðurnesjum. ,,Á þeim tíma er mig bar þar að garði, voru blikur á lofti, sem tæpast fóru fram hjá mér fremur en öðrum. Þegar herinn fór tók að bera á atvinnuleysi sem skall á af fullum þunga í kjölfar hrunsins. Þrátt fyrir þetta þá hefur margt gott verið gert á Suðurnesjum sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Skólakerfið hefur gengið í gegnum endurnýjun og leik- og grunnskólar í bænum eru nú í fremstu röð hérlendis. Þá sýndi samfélagið einstakan samtakamátt og fólk gaf af fádæma rausnarskap til nauðstaddra mitt í þrengingum sínum. Leiðtogar sem störfuðu á vegum Keflavíkurkirkju stofnsettu Velferðarsjóð sem kirkjan sinnti og hélt utan um. Sjóðurinn varð einn helsti samnefnarinn fyrir það jákvæða sem átti sér stað á þessu svæði á þessum tímum, en í hann söfnuðust tugir milljóna af frjálsum framlögum. Fyrir vikið tóks að draga úr félagslegum ójöfnuði og beindum við kröfum okkar einkum að börnum sem nutu stuðnings til tómstundastarfs og menntunar.“

Spennandi tímar framundan

Víkur nú talinu aftur vestur á Melana. ,,Framundan eru spennandi tímar í Neskirkju. Safnaðarstarf á okkar dögum þarf að fylgja skýrum línum. Við eins og aðrir eigum í samkeppni viljum nýta vel þann tíma sem fólk nýtir í okkar umhverfi. Hlutverk okkar er ekki síst að skapa jarðveg fyrir samtal um mikilvæg málefni sem brenna á fólki. Sum þeirra varða trú okkar og tilvist, önnur snerta á þeim dýrmæta tilgangi sem ég held að búi innra með okkur öllum – að gera gagn. Í því sambandi efnum við til Samtals á Kirkjutorgi, þar sem sjónum verður beint að Þjónandi forystu – hugmyndafræði sem tengir saman leiðtogasýn og viljann til að starfa í þágu góðra verka. Fleira mætti nefna. Í samstarfi við Dómkirkjuklerka bjóðum við upp á sjö kvölda námskeið sem ber það gegnsæja heiti, ,,Hvað er kristin trú?” Söfnuðurinn býr að góðum rekstri, öflugu æskulýðs- og tónlistarstarfi. Nýverið lukum við námskeiði fyrir fermingarbörn sem er fyrsti hlutinn af fermingarfræðslu vetrarins. Hópurinn er alveg frábær og það var gaman að kynnast þessum krökkum. Þar sem endranær lítum við á það sem hlutverk okkar að taka þátt í samtali, við viljum ekki bara svara heldur líka spyrja og það var einstaklega fróðlegt að heyra sjónarmið þessa unga fólks. Fermingarfræðslan tengist líka því læsi sem við teljum nauðsynlegt að hafa á menningu okkar samfélags. Tungumálið, siðferðið og hinar ýmsu listgreinar hafa sótt mikið í sjóði Biblíunnar og á sama tíma og skólakerfið hefur dregið úr fræðslu á því sviði verður hlutverk kirkjunnar enn brýnna.“

Kirkjan á eftir að spjara sig

Í framhaldi af þeim orðum væri fróðlegt að vita hvað Skúla kann að finnast um stöðu kirkjunnar á okkar tímum. ,,Ég er í engum vafa um að kirkjan á eftir að spjara sig. Það mótlæti sem á henni hefur dunið undanfarið á eftir að styrkja hana og stuðla að því að kirkjunnar fólk endurskoði ýmislegt í skipulagi og boðun þessa gróna samfélags sem kirkjan er. Mér er vel kunnugur sá kraftur sem býr í söfnuði, það þekki ég frá þjónustu minni, ekki síst í Keflavík. Hvað sem bíður á komandi tímum er ljóst að erindi kirkjunnar er mikilvægt og kröfurnar sem til okkar eru gerðar verða sífellt meiri. Því ber vitaskuld að fagna.“

You may also like...