Fjölbreytt bæjarhátíð á Nesinu

Bæjarhátíð-1-

Bæjarhátíð Seltjarnarness fór fram síðustu helgina í ágúst og stóð yfir frá 27. ágúst til 30. ágúst. Hátíðin hefur verið að vaxa undanfarin ár en þetta er í þriðja skiptið sem hún er haldin.

Bæjarbúar áttu upphaflega þá hugmynd að búa til viðburð í lok ágúst sem allir í bæjarfélaginu gætu tekið þátt í og myndi ýta undir bæjaranda. Það hefur svo sannarlega tekist og má gera ráð fyrir að þetta sé hefð sem er komin til með að vera. Dagskráin í ár var fjölbreytt til að sem flestir gætu fundið sér eitthvað við hæfi. Hátíðin hófst á með listsýningu í Gallerí Gróttu í Bókasafni Seltjarnarness. Síðar um kvöldið voru stórglæsilegir latin-jazz tónleikar með Tómasi R. Einarssyni og Bógómíl Font fremsta í fararbroddi. Á föstudeginum stóð til að halda brekkusöng í Plútóbrekku sem var því miður aflýst vegna veðurs. Við Nesbúar ættum að vita betur að hér blæs inn á milli og því verður varaplan á næsta ári ef veður leikur okkur grátt. Einnig var sundlaugarpartý á föstudeginum fyrir fjölskyldufólk. Á laugardeginum hófst dagskrá snemma um morgun með hjólreiðaferð með Bjarna Torfa og TKS stóð fyrir skokki. Gróttudagurinn sem er kynningardagur fyrir starfsemi félagsins var á Vivaldi-vellinum við Suðurströnd. Seinna um kvöldið voru hverfahátíðir, frisbee-golfmót, listsýning og í lok kvölds Stuðball í Félagsheimili Seltjarnarness. Hátíðinni lauk svo með sunnudagsmessu Séra Bjarna Bjarnasonar í Seltjarnarneskirkju.

You may also like...