Stjörnufans á Menningarhátíð Seltjarnarness í október

Helgi og Tina-2

Seltirningarnir Helgi Hrafn Jónsson bæjarlistamanns 2015 og eiginkonu hans Tina Dickow, söngkona og lagaskáld.

Eins gott er að vera snöggur að bregðast við þegar miðar á tónleika Seltirninganna Helga Hrafns Jónssonar bæjarlistamanns 2015 og eiginkonu hans Tinu Dickow, hinnar dáðu, dönsku söngkonu og lagaskálds fara í sölu síðar í þessum mánuði. Með þeim koma fram tónlistarmenn sem hafa fylgt þeim á tónleikaferðalagi um Evrópu frá síðasta hausti en saman hafa þau leikið fyrir um 300.000 áhorfendur. Í ágúst síðastliðnum komu hópurinn fram í Tívolí og lék þar fyrir 25.000 áheyrendur.

Tónleikarnir Helga og Tinu eru einn af hápunktum Menningarhátíðar Seltjarnarness sem fram fer fimmtudag til sunnudags, 15. til 18. október. Tónleikarnir verða haldnir í Félags-heimili Seltjarnarness laugardaginn 17. október kl. 21. Að sögn Soffíu Karlsdóttur sviðsstjóra menningarsviðsins er um stórviðburð að ræða, en Helgi og Tina hafa til þessa afþakkað nánast öll boð um tónleikahald á Íslandi og munu sökum anna ekki koma fram á Íslandi á næstu misserum. “Miðasalan fer í gang á vefnum síðar í september og verður hún rækilega kynnt þegar þar að kemur”, segir Soffía. “Hátíðin mun að miklu leyti hverfast um bæjarlistamanninn okkar, sem eins og menn muna, lét af einstöku örlæti sínu verðlaunaféð renna til lúðrasveitar Tónlistarskóla Seltjarnarness.“

Opnunarhátíð í sýningarrýminu í Nesi

„Auk tónleikanna verður vegleg opnunarhátíð í sýningarrýminu í Nesi, áður Lækningaminja-safninu, þar sem Helgi sýnir nýja, magnaða málverkaseríu með vídeóverki, en dansari frá Berlín málaði strigann með danshreyfingum um strigann og verður stílíseruð upptaka af gerð verksins sýnd á vídeói og einnig málverk-in sjálf. Dansarinn verður viðstaddur opnuarhátíðina og flytur þar við annan mann dansverk undir frumsaminni tónlist Helga Hrafns. Við tónlistarflutninginn fær Helgi til liðs við sig kunna tónlistarmenn sem flytja tónlistina live á staðnum. Þar með er ekki öll sagan sögð því í kjallaranum frumsýnir Helgi sína fyrstu stuttmynd, sem hann vann með dönskum félögum sínum, sem einnig verða viðstaddir.”

Kappsmál að virkja hæfileika bæjarbúa

Soffía segir að henni sé það kappsmál að virkja hæfileika og krafta bæjarbúa á hátíðinni. “Hér leynist ótrúlega mikill fjársjóður í ólíkum listamönnum og áhugafólki og þá hef ég reynt að virkja,” segir hún. “Haldin verður hátíðardagskrá um einn elsta og dáðasta Seltirninginn okkar hana Jennu Jens þar sem fram koma miklar kanónur sem Jenna hefur haft áhrif á með einum eða öðrum hætti. Einnig verða allar fáanlegar bækur Jennu til sýnis á bókasafninu og þar er úr meiru en barnabókum að moða. Tónlistarparið og Seltirningarnir Björg Þórhallsdóttir og Hilmar Örn Agnarsson standa að skipulagningu stórtónleika í kirkjunni þar sem tónlistarfólk af Nesinu kemur fram ásamt gestum úr nágrannabyggðarlögum en tónleikarnir spanna allt tónlistarlitrófið. Þarna verða kórar og sólistar og allt þar á milli með prógramm sem enginn verður svikinn af. Frá síðustu áramótum hefur Sigurlaug Arnardóttir menningarmiðlari verið að vinna að stóru sýningarverkefni í Gallerí Gróttu undir yfirskriftinni Taktur í 100 ár. Sýningin er unnin í samstarfi við nemendur og kennara í Való og félagsstarf eldri borgara með áherslu á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Þar fáum við m.a. að sjá hvernig raunverulegur klæðnaður konunnar verður eftir 100 ár. Nemendurnir hönnuðu og hannyrðadeild félagsstarfsins saumar og útfærir. Þetta er verkefni sem tók á sig ýmsar myndir og verður gaman að sýna.

Friðrik Vignir með Bach fyrir börnin

Börnin fá líka að njóta sín á hátíðinni en Bach fyrir börnin er dagskrá sem Friðrik Vignir Stefánsson organisti heldur í kirkjunni þar sem hann reynir m.a. að slá eigið hraðamet með því að spila 663 nótur í fúgu eftir Bach á innan við mínútu. Ungmennaráðið ætlar að standa fyrir Popp Quiz á Eiðistorgi og þar verður fleira skemmtilegt um að vera. Umræður um unglingabækur verða í unglingadeild Bókasafnsins og Lúðrasveit tónlistarskólans heldur heiðurstónleika fyrir Helga Hrafn bæjarlistamann með völdum, þekktum einleikurum. Trimmklúbbur Seltjarnarness lætur sitt ekki eftir liggja og í samstarfi við menningarsviðið verður efnt til skemmtihlaups og afmæliskaffis á Eiðistorgi, en TKS fagnar 30 ára afmæli um þessar mundir. Seltjarnarneskirkja verður með vandaða dagskrá þar sem blandast saman fræðsla, tónlist og fleira nýstárlegt. Þjóðminjasafn Íslands setur upp sýningu á ljósmyndum hinnar heimsþekktu Mary Ellen Mark, sem lést síðastliðið sumar. Systrasamlagið mun koma bæjarbúum skemmtilega á óvart og gítarleikarinn snjalli, Friðrik Karlsson slær botninn í hátíðina með hugleiðslu í samstarfi við Nýjaland. Það er von mín að allir finni eitthvað við sitt hæfi og ég hvet alla til að skoða dagskránna vel þegar hún er komin út og taka helgina frá fyrir alla fjölskylduna,” segir Soffía að lokum.

You may also like...