Um 540 hótelherbergi í byggingu

– þrátt fyrir 89% fækkun gistinátta og 34 hótel lokuð –

Þannig mun Hótel Reykjavík við Lækjargötu líta út að byggingaframkvæmdum loknum.

Verið er að reisa samtals um 540 hótelherbergi í miðbæ Reykjavíkur. Þessi herbergi verða í þremur hótelum í miðbænum. Gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 89% milli áranna 2019 og 2020. Þá eru 34 af 58 hótelum lokuð eða tæplega 60% þeirra. Þrátt fyrir þetta er verið að reisa þrjú mjög stór hótel í miðbæ Reykjavíkur.

Fasteignaþróunarfélagið Lindarvatn er að reisa 163 herbergja hótel á svokölluðum  Landsímareit við Austurvöll. Icelandair Hotels hafa gert 25 ára leigusamning við Lindarvatn og ætla að reka þar hótel undir merkjum Hilton keðjunnar. Hótelið á að heita Iceland Parliament Hotel. Við Lækjargötuna eru Íslandshótel að reisa 125 herbergja hótel sem kemur til með að heita Hótel Reykjavík. Þar hefur verið unnið í hægagangi. Eigendur ákváðu að draga saman seglin í apríl og var framkvæmdin sett á ís í fimm eða sex mánuði. Þegar mönnum fannst vera að rofa til í túristamálum á liðnu sumri var ákveðið að loka húsinu til að verja það skemmdum. Ætlunin er að fara að setja allt á fullt og setja fullan slagkraft í framkvæmdirnar og ætlunin er að opna Hótel Reykjavík vorið 2022. Þriðja hótelið sem er í byggingu er við hliðina á Hörpu. Þar er verið að ljúka við fimm stjörnu hótel, Reykjavík Edition, sem verður rekið af Marriott hótelkeðjunni. 253 herbergi verða á hótelinu. Það er Carpenter & Company sem stendur að byggingunni.

Iceland Parliament Hotel við Austurvöll að framkvæmdum loknum.
Reykjavík Edition hótel við Hörpu.

You may also like...