Hlýr og hvetjandi vettvangur og öllum opinn
„Hér í Seljahlíð er félagsstarfið öllum opið, en hjá okkur starfa leiðbeinendur sem eru til aðstoðar þeim sem þess þurfa. Þetta hefur farið aðeins í hringi í gegnum tíðina. Í fyrstu var um opið félagsstarf að ræða en síðan var það takmarkað við heimilisfólk í Seljahlíð. Í dag er það opið hverjum sem vill,“ segir Arngunnur Atladóttir deildarstjóri félagsstarfsins í Seljahlíð í spjalli við Breiðholtsblaðið.
Félagsstarfið er rekið sem hluti af starfsemi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og fer fram á þremur stöðum í Breiðholtinu; í Seljahlíð, í Árskógum og í Gerðubergi. Þær Arngunnur og Margrét Ósvaldsdóttir forstöðumaður Seljahlíðar segja að markmið félagsstarfsins í Seljahlíð sé að vera hlýr og hvetjandi vettvangur þar sem saman fari blanda af alvöru og lífsgleði. Umhverfið þurfi að vera hvetjandi til virkni þar sem flestir geti fundið farveg fyrir þekkingu sína, reynslu og ekki síst hæfileika. Arngunnur segir mikilvægt að koma vitneskju um félagsstarfið út til fólks. „Það eru margir sem vita ekki hvað við erum að gera og jafnvel ekki að þeir séu velkomnir hingað til þess að taka þátt í félagsstarfinu. Það er alltof algengt að fólk sem komið er á eftirlaun eða af vinnuskeiði af einhverjum ástæðum lokist inni á heimilum sínum og hætti að blanda geði við annað fólk. Okkar hlutverk er að fá fólk til þess að koma, sýna sig og sjá aðra, kynnast og spjalla saman, fá sér kaffisopa og taka þátt í ýmsum viðfangsefnum sem í boði eru.
Virkni og heilsuefling öllum nauðsynleg
Fjölbreytt dagskrá er í boði í félagsstarfinu í Seljahlíð. „Við leggjum mikla áherslu á reglubundna hreyfingu. Sumu heldra fólki hættir til þess að minnka hreyfingu eða hætta að mestu að hreyfa sig þegar breyting verður á högum þess að almennum starfsdegi loknum. Það er mikill misskilningur fólgin í að notalegheit felist í að hætta að hreyfa sig. Hreyfingin er eitt það nauðsynlegasta til þess að halda sér frísklegum og hressum, því að verkir stafa oftar en ekki af hreyfingarleysi. Við miðum hreyfinguna við hálftíma alla virka daga,“ segir Arngunnur. Arngunnur og Margrét leggja mikla áherslu á þann þátt félagsstarfsins sem snýr að virkni. Að fá fólk til þess að fara úr híbýlum sínum, koma á staðinn og taka þátt í félagsstarfinu og að reynt sé að sníða starfið eftir þörfum sem flestra. Þær segja að stundum geti verið nokkurt mál að fá fólk til virkni. Einstaklingarnir séu mismunandi – einnig þegar komi að lífsþáttum eins og félagslyndi. Félagsstarfið snúi því að mörgum þáttum mannlegra samskipta – allt frá því að hittast og skrafa saman til þátttöku í skapandi viðfangsefnum og síðast en ekki síst í heilsueflingu sem öllum sé til góða. „Við höfum reynt að taka hana föstum tökum meðal annars með því að vera með leikfimina allaf á sama tíma sem hefur reynst mjög vel. Fólk er aldrei of oft hvatt til þess að hreyfa sig. Hreyfingin er oft besta meðalið við líkamsvanda sem sækir gjarnan að fólki á efri árum. Í því sambandi má benda á að fjölga þyrfti bekkjum við gönguleiðir í Breiðholti, því gott væri að geta sest niður og hvílt sig af og til á göngunni, einkum fyrir fólk sem styðst við göngugrindur,“ segir Arngunnur.
Handavinna, upplestur, sjúkraþjálfum og annað
Annað sem lögð er áhersla á í félagsstarfinu í Seljahlíð er almenn handavinna af ýmsu tagi, leirmótun, kertagerð og svo boccia. „Við leggjum líka áherslu á upplestur, við lesum úr dagblöðunum og einnig er lesin framhaldssaga. Þá er söngstund með harmoníkuleikara, bíósýningar og bingó. Og svo verður líkaminn að fá sitt utanumhald, hér er sjúkraþjálfun fyrir þá sem á því þurfa að halda og einnig hárgreiðslustofa og fótaaðgerðarstofa. Og svo koma prestarnir í Seljakirkju, þau Ólafur Jóhann og Bryndís Malla hingað reglulega og eru með helgistundir og veita íbúum andlegan stuðning.“ segir Arngunnur og bætir við að hádegismatur sé eldaður alla daga í Seljahlíð. Hann sé ekki eingöngu ætlaður heimilisfólki heldur geti fólk komið og keypt sér í svanginn alla daga vikunnar.
Allt að 40 ára aldursbil
Íbúar Seljahlíðar spanna nokkuð breytt aldursbil eða um 40 ár allt frá 60 ára til tíræðs „Það gefur auga leið að þetta er mjög breytilegur hópur og áhugamálin fjölbreytt. Hér er tölvuver sem íbúar geta nýtt sér og svo eru alltaf fleiri og fleiri sem eiga sínar eigin tölvur. segir Arngunnur. Margrét bætir við að áherslan sé á heimilisbrag. „Við forðumst að líta á Seljahlíð sem stofnun, þetta er heimili fólksins og heimilisbragurinn er fyrir öllu.
Árvissir atburðir og heimilisráð
Talið berst að hinum árlegu viðburðum í félagsstarfinu. Margrét segir þá af ýmsum toga. Má þar nefna þorrablót, menningardaga, kvennahlaupið sem alltaf er tekið með stæl, sumarferð og ökuferð með formbílaklúbbunum eða drossíudagurinn eins og hann er jafnan kallaður. Einnig má nefna letigarðanna sem er útivistarverkefni þegar útsæðið er sett niður, uppskeruhátíð og sultugerð. Seljagleðin er sérstök hátíð og einnig er efnt til uppáhaldsviku í mat, íbúar og starfsmenn sameinast í smákökubakstri til jóla fyrir heimilið, jólunum eru síðan gerð sérstök skil. Þá er farið í verslunarferð, haldinn er jólabasar og jólagleði, „Litlu jólin í félagsstarfinu“. Heimilisráð hefur verið starfandi frá opnun Seljahlíðar. Í því eiga sæti sex íbúar og fjórir deildarstjórar. Margrét segir hlutverk þess að vera; „að vera virkur tengiliður íbúa við stjórnendur og ræða málefni sem brenna á fólki á hverjum tíma“.
Þyrfti að bæta ferðaþjónustuna
Arngunnur og Margrét nefna að lokum einn vanda sem þær telja að hamli mörgum íbúum hverfisins í að geta nýtt sér þá starfssemi sem þessir þrír staðir bjóði uppá og það er ferðaþjónusta á milli hverfanna. „Ferðaþjónustan er eitthvað sem þyrfti að efla. Margt af því fólki sem stundar félagsstarfið er hætt að aka og hefur ekki tök á að nýta sér þjónustu strætó. Þetta er mál sem hverfisráðið og þjónustumiðstöðin þyrftu að beita sér fyrir að leita lausnar á,“ segja þær Arngunnur og Margrét að lokum.