Breiðholtið var einstakt afrek

– segir Magnús L. Sveinsson fyrrum formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur og borgarfulltrúi

Magnús L. Sveinsson fyrrum formaður VR og borgarfulltrúi í garðhýsinu heima í Geitastekk 6.

Magnús L. Sveinsson fyrrum formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur og borgarfulltrúi tók á móti tíðindamanni í notalegu garðhýsi sem hann hefur byggt við hús sitt við Geitastekk 6 í Breiðholti. Í Garðhýsinu hefur hann komið sér upp vinnustofu þar sem meðal annars eru létt húsgögn og bækur að finna. Í einu horninu hefur hann komið fyrir skrifborði og tölvu. „Hingað kem ég með morgunkaffið og byrja á að fletta blöðunum. Þegar ég hætti að vinna varð ég að hafa eitthvað fyrir mig,“ segir hann sem er enn að þrátt fyrir að 89 ár séu að baki. Hann ber árin ekki utan á sér. Er unglegur bæði til æðis og anda. Hann var að ljúka við bók um ævi sína og störf sem var að koma út hjá bókaforlaginu Skruddu. Bókin hefur að geyma lífshlaup hans allt frá því að hann fæddist austur á Rangárvöllum þar sem enn var moldargólf í bænum til þessa dags að hann situr við skriftir í garðhýsinu. Verslunarmannafélag Reykjavíkur á stóran hluta ævi hans en hann var einnig borgarfulltrúi um árabil. Sem borgarfulltrúa kom í hans hlut ásamt fleirum að koma byggingu Breiðholtsins af stað og fylgja henni eftir. Bókina kallar hann  „Af moldargólfi í ólgusjó verkalýðsmála.“

En af hverju skyldi hann velja bókinni þetta nafn. „Það kemur til af því að ég er fæddur í húsakynnum þar sem enn var moldargólf. Engar vatnslagnir voru og fólk sótti vatn út í læk sem rann skammt frá bænum. Ég er fæddur á Uxahrygg skammt sunnan við Þverá sem var óbrúuð þar til ári eftir að ég kom í heiminn. Fólk lifði við allt aðrar aðstæður á þessum tíma. Tugir kílómetra voru í næstu verslun og engir bílar voru komnir til sögunnar í sveitunum. Nútíma þægindi voru ekki til. Þetta voru ótrúlegir tímar og ekki lengra undan en að núlifandi fólk man eftir þeim. Framþróun varð þó nokkuð hröð þegar hún fór af stað. Magnús nefnir dæmi sem hafi hjálpaði mikið til og flýtt fyrir nýjungum. Þar eigi rafvæðingin stærstan hluta. „Hún lagði grunn að öllum tækniframförum sem urðu og raunar því velferðarþjóðfélagi sem við búum við í dag.“

Sex vikna verkfall fyrir atvinnuleysistryggingasjóð

 En allt fékkst ekki fyrir ekkert. Margt kostaði baráttu. Magnús kynntist því vel síðar á lífsleiðinni og þá einkum í tengslum við verkalýðsbaráttuna. Fyrst og fremst sem formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur eða VR eins og það er oftast kallað. „Sagan sýnir okkur að flest ef ekki allt sem samið hefur verið um á vinnumarkaði hefur kostað baráttu. Allt of oft hefur þurft að grípa til verkfallsaðgerða til þess að ná fram umbótum sem í dag eru talin til sjálfsagðra mannréttinda. Ég get nefnt dæmi um stofnun Atvinnuleysistryggingasjóðs 1955. Það mál kostaði sex vikna verkfall. Lægst launaða fólkið á höfuðborgarsvæðinu þurfti að fórna sex vikna launum fyrir þetta framfaramál. Þetta var að mestu fólk sem háði harða baráttu upp á hvern dag að hafa ofan í sig og á.“ 

 Magnús segir að ekki hafi allir notið aðgengu að Atvinnuleysistryggingasjóðnum á sínum tíma. „Sérstaklega var tekið fram að verslunarfólk ætti ekki aðild að sjóðunum. Ástæða þess var að verslunarmenn urðu að velja um hvort þeir vildu aðild að sjóðnum eða að stofna lífeyrissjóð sem varð fyrir valinu. Um áratug síðar fór að bera á atvinnuleysi hjá verslunarmönnum. Þá þurfti VR að heyja tveggja daga verkfall til þess að knýja fram samþykki vinnuveitenda fyrir aðild að sjóðnum. Einnig þurfti að fá fram breytingu á lögum því ríkið greiddi helming framlags í sjóðinn á móti vinnuveitendum.“ Magnús segir að fjölmörg framfaramál hafi ratað á fjörur VR í gegnum tíðina. Mál sem þurft hafi að heyja harða baráttu fyrir. Hann minnist þess að eitt af mörgu hafi borið að 1988. Þá hafi VR haft forystu um meðal verslunarmannafélaga á landinu að gera kröfu um 42 þúsund króna lágmarkslaun sem þá voru 31 þúsund krónur á mánuði. Engir aðrir í verkalýðshreyfingunni hafi sýnt þessu máli áhuga. „Þessi krafa jafngilti um 308 þúsund króna lágmarkslaunum 1. apríl 2019 eða rúmum 30 árum seinna. Verslunarmenn fóru í níu daga verkfall til að fylgja þessari kröfu eftir sem vannst þó ekki nema að litlu leyti fyrst og fremst vegna samstöðuleysis innan verkalýðshreyfingarinnar.“ Frá þessu og mörgu öðru greinir Magnús ýtarlega frá í bók sinni.

Magnús L. Sveinsson ásamt fólki sínu á góðum degi.

Mikið um ósamþykkt og heilsuspillandi húsnæði  

En Magnús hefur frá fleiru að segja en áralangri þátttöku í verkalýðsbaráttu. Hann átti sæti í borgarstjórn Reykjavíkur um árabil. Frá árunum 1974 til 1994. Var borgarfulltrúi á þeim árum sem Breiðholtið var byggt sem hann segir stærsta átak í byggingarsögu þjóðarinnar. „Þegar ráðist var í byggingu Breiðholts hafði mikill húsnæðisvandi verið í Reykjavík um langan tíma. Vandinn fylgdi örri fólksfjölgun allt frá stríðsárunum og jafnvel fyrr. Ekki hafði tekist að hafa undan við að byggja yfir fólk sem kosið hafði sér búsetu í höfuðborginni. Magnús segir að mikið hafi verið um ósamþykkt, heilsuspillandi leiguhúsnæði í kjöllurum og risum og allt fram á sjöunda áratug liðinnar aldar verið búið í bröggum frá styrjaldarárunum. „Þarna var fyrst og fremst um láglaunafólk að ræða sem lánskjör á húsnæðismarkaðinum útilokaði frá því að geta eignast húsnæði. Hann segir að upphafið að þessu mikla húsnæðisátaki sé afleiðing af kjaradeilum 1964 og 1965 og samninga sem leiddu til lausnar þeirra. „Óhætt er að fullyrða á í júlí 1965 hafi verið brotið blað í sögu bygginga íbúðahúsnæðis fyrir láglaunafólks í Reykjavík. Þá gaf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, viðreisnarstjórnin eins og hún var kölluð út að byggðar skyldu eitt þúsund söluíbúðir fyrir láglaunafólk í verkalýðsfélögum. Þessi yfirlýsing byggðist á samkomulagi á hinum almenna vinnumarkaði frá því í júní 1964 sem oft var kallað „júnísamkomulagið“. Og þetta var ekki nóg því til viðbótar þessum þúsund íbúðum em úthluta átti til félagsmanna verkalýðsfélaganna var ákveðið að byggja 250 leiguíbúðir sem Reykjavíkurborg myndi leigja láglaunafólki.“ Magnús segir að mikil andstaða hafi verið við þessar hugmyndir í stjórnkerfinu. Einkum hafi margir embættismenn talið þær óraunhæfar og ógerlegar. Bjarni Benediktsson eldri þáverandi forsætisráðherra hafi hins vegar staðið fastur fyrir og ekki látið andstöðu embættismanna ráða för.

Á fimmta þúsund sóttu

Fljótt kom í ljós að þörfin fyrir húsnæði var mikil. Á fimmta þúsund manns sóttu um eitt þúsund íbúðir. Það varð að synja á fjórða þúsund umsækjenda og flestir voru í mikilli þörf. Okkur sem vorum í úthlutunarnefndinni var því mikill vandi á höndum. Við töldum okkur þekkja nokkuð til mála en óraði þó ekki fyrir um hversu mikinn vanda var aðra ræða. Í raun bjó meirihluti á fimmta þúsund manns við neyðarástand í húsnæðismálum.“ Magnús segir ekki auðvelt fyrir fólk sem alltaf hefur búið við öryggi í húsnæðismálum að setja sig í spor fólks sem þurft hefur að búa við mikið óöryggi og jafnvel heilsuspillandi húsnæði í langan tíma að ekki sé minnst á sálarkvalir sem margir höfði orðið að líða. „Ég lagði vinnu í að gera tölulega athugun á aðstæðum fólks. Um 30% umsækjanda bjuggu inni á öðrum fjölskyldum og tveir þriðju hlutar af þeim voru undir 25 ára aldri. Í sumum tilvikum var um að ræða hjón með allt að fjögur börn. Dæmi voru um að ein fjölskylda hýsti tvær aðrar fjölskyldur og allt að ellefu manns voru stundum í þriggja herbergja íbúðum. Af þeim mikla fjölda umsókna sem barst og þeim aðstæðum sem við urðum vitni að var þó ljóst að með þessu mikla átaki tókst aðeins að leysa takmarkaðan hluta af þeim húsnæðisvanda sem var til staðar í höfuðborginni.“

Stjórn VR árið 2002. Sitjandi f.v. Benedikt Vilhjálmsson, Elín Elíasdóttir ritari, Magnús L. Sveinsson formaður, Stefanía Magnúsdóttir varaformaður og Edda Kjartansdóttir gjaldkeri. Standandi f.v. Sigurður Sigfússon, Bryndís Lárusdóttir, Gunnar Böðvarsson, Kristín Sigurðardóttir, Valur M. Valtýson, Rannveig Sigurðardóttir, Seinar J. Kristjánsson, Sigrún Baldursdóttir, Kolbeinn Sigurjónsson og Jóhanna E. Vilhelmsdóttir.  Ljósm. Jóhannes Long.

Um 47% íbúa 16 ára og yngri

„Ég hika ekki við að fullyrða að þetta hafi verið einstakt afrek. Á rúmum áratug var byggt yfir hátt í 25 þúsund manns á landi þar sem engin byggð var fyrir. Þar vantaði allt. Ekkert var fyrir hendi. Engar götur. Engar veitur eða lagnir. Engar þjónustustofnanir. Aðeins eitt gamall býli og móar. Raddir heyrðust um að þarna ætti að byggja of hátt yfir sjávarmáli. Þarna þrifist enginn gróður. Þarna væri langur vetur og annað var eftir því. En reyndin varð önnur.“ Magnús segir að ungt fólk hafi sest að í Breiðholtinu. „Árið 1975 voru um 47% íbúa í Breiðholti 16 ára og yngri. Þessu fylgdu eðlilega félagsleg vandamál. Þarna kom saman ungt fólk úr hinum ýmsu borgarhlutum. Fólk sem ekki þekktist neitt fyrir og settist nú saman á skólabekk og fór að taka þátt í félagsstarfi. En það var auðvitað ekki nóg að borgin legði fjármuni í þetta. Ríkið varð einnig að koma við sögu. Ég man að 1976 voru umræður í borgarstjórn um að ríkið yrði að leggja fé í heilsugæslustöð í Breiðholti.“  

ÁriÐ 1970 bjuggu sjö manneskjur í Efra Breiðholti – 9465 sjö árum síðar

“Þetta kom ótrúlega hratt á mjög stuttum tíma. Sem dæmi um hraðann má nefna að 1. desember 1970 áttu sjö manneskjur heima í Efra Breiðholti. Sjö árum síðar 1977 bjuggu 9465 manna í hverfinu. Íbúunum hafði fjölgað um yfir níu þúsund á sjö árum. Það var ungt fólk sem byggði Breiðholtið. Fólk um fertugt og yngra. Fólk sem hafði trú á framtíð þessa nýja borgarhluta. Eitt af því sem borgin stóð fyrir var að malbika götur í Breiðholti. Oft hafði frágangur gatna komið þegar byggðirnar voru fullbúnar og flutt í húsin. Stundum nokkru síðar. Árið 1962 var ákveðið að götur í Reykjavík yrðu malbikaðar á tíu árum. Því verki yrði lokið 1972. Þegar Efra Breiðholt var byggt var búið að malbika allar götur í hverfinu áður en byggingaframkvæmdir hófust.”

Félagsleg aðstoð á að miðast við að fólk geti eignast húsnæði

Magnús segir að lengst af hafi þeirri stefnu verið fylgt að stuðla beri að því að sem flestir geti búið í eigin húsnæði. Að meiri hluti þjóðarinnar búi í eigin húsnæði sé ein grundvallarreglum efnahagslegs sjálfstæðis borgaranna. Engu að síður geti bygging félagslegs húsnæðis verið hagkvæm auk þess sem í því felist kjarabætur. “Ég tel að þetta almenna sjálfseignaform sem þróast hefur á húsnæði hafi dregið úr stéttaskiptingu sem kemur fram hjá mörgum öðrum þjóðum þar sem meirihluti fólks býr í leiguhúsnæði. Þess vegna á félagsleg aðstoð hins opinbera að miðast við að aðstoða fólk við að búa í eigin húsnæði. Þótt bygging Breiðholtsins leysti ekki öll húsnæðisvandamál Reykvíkinga var skrefið stórt og átti sér ekkert fordæmi í sögunni.”

A-sveit Selfoss sem vann 4×100 metra hlaupið á Þjórsártúni 1952. Fr.v.: Kolbeinn I. Kristinsson, Árni Guðmundsson, Þór Vigfússon og Magnús L. Sveinsson. Magnús hljóp fyrir Ungmennafélag Selfoss 100 metrana á 11,5 sekúndum. Hann var einnig með í A-sveit Selfoss í 4×400 metra boðhlaupi sem sveitin vann.

You may also like...