Stórt verkefni að fara af stað í Breiðholti
Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri í Breiðholti fór rúntinn eins og hann komst að orði í samtali við Breiðholtsblaðið og gaf skólastjórnendum í hverfinu plakat í ramma og fána Heilsueflandi Breiðholts. Um er að ræða hluta af kynningu á verkefninu Heilsueflandi Breiðholt sem er þróunarverkefni og hefur það markmið að stuðla að heilbrigði og velferð í samfélaginu.
Verkefnið miðar að því að stofnanir og félagasamtök í hverfinu skapi heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði íbúa frá ýmsum hliðum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirritaði ákvörðum um verkefnið ásamt Óskari Dýrmundi Ólafssyni hverfisstjóra og Nichole Light Mosty formanni hverfisráðs Breiðholts 22. apríl s.l. Ákvörðunin markar ákveðin tímamót í hverfinu með yfirlýsingu um að Breiðholt muni hrinda af stað vinnu um heilsueflandi samfélag og verða þar með leiðandi hverfi í borginni öðrum hverfum til fyrirmyndar á komandi misserum. Hluti þessa verkefnis er Heilsueflandi skólar sem í grunninn er verkefni á vegum Embættis landlæknis og byggir á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá jákvæðu og víðtæku sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að aukinni hreyfingu, hollri næringu, bættri andlegri líðan og jákvæðum lífsstíl. Stefnt er að því að allir grunnskólar, leikskólar og framhaldsskólinn í Breiðholti verði Heilsueflandi skólar. Aðaláhersla í verkefninu er á fjóra þætti, næringu, hreyfingu, líðan og lífsstíl. Unnið verður með afmarkaða þætti í einu á hverju skólaári og hver skóli ákveður í hvaða röð þættirnir eru teknir fyrir. Dr. Þórdís Gísladóttir verkefnastjóri frístunda og félagsauðs í Breiðholti stýrir verkefninu.