Stórfelld lækkun leikskólagjalda á Seltjarnarnesi

Seltjarnarnes mynd

Seltjarnarnesbær boðar stórfellda lækkun leikskólagjalda frá og með 1. janúar 2016 en þá lækka leikskólagjöld á Seltjarnarnesi um 25% og verða þar með þau lægstu á landinu.

Þetta kemur fram í frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2017 til 2019 sem nú er til umræðu í bæjarstjórn. Í frétt frá bæjarfélaginu segir að lækkun leikskólagjalda um 25% frá 1. janúar sé ætlað að koma til móts við barnafjölskyldur í bæjarfélaginu. Tómstundastyrkir með hverju barni 6 til 18 ára verða 50 þúsund krónur og niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum, sem nú nema 75 þúsundum króna verða einnig hækkaðar frá 1. janúar næst komandi. Álagning fasteignagjalda í A-flokki verður 0,20% af matsverði íbúðarhúsnæðis og lóðar og álagningarprósenta útsvars verður langt undir hámarki eða 13,70%, en hámarkið er 14,52%. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heildartekjur Seltjarnarnesbæjar verði 2,5 milljarðar og rekstrarafgangur verði rúmlega 16 milljónir. Skuldahlutfall er komið undir 50% og fer lækkandi á hverju ári. Helstu framkvæmdir á næsta ári samkvæmt frumvarpinu felast í byggingu 40 rýma hjúkrunarheimilis. Einnig stendur til að endurnýja gervigrasið á knattspyrnuvelli Íþróttafélagsins Gróttu ásamt því að sinna öðrum almennum viðhaldsframkvæmdum.

You may also like...