Nokkrir aðilar vilja á Fiskislóð

Fiskislod lod 1

Lóðin sem Skeljungsmenn hafa augastað á við Fiskislóð.

Skeljungur á í viðræðum við Faxaflóahafnir um úthlutun lóðar við Fiskislóð á Granda með það að augnamiði að reisa nýjar höfuðstöðvar. Skeljungur sótti um lóðina í byrjun nóvember en ákvörðun um úthlutun hennar verður að öllum líkindum ekki tekin fyrr en í byrjun næsta árs.

Fleiri aðilar hafa sýnt lóðinni áhuga og hafa að minnsta kosti þrír aðilar sett sig í samband við Faxaflóahafnir af því tilefni. Um er að ræða tvær lóðir sem verið er að sækjast eftir þarna. Annars vegar lóðin sem Skeljungur hefur sótt um og síðan Fiskislóð 37A. Ekki þarf að ráðast í skipulagsbreytingar á svæðinu en afla þarf frekari upplýsinga um fyrirætlanir þeirra sem sýnt hafa lóðunum áhuga. Þeir aðilar sem sýnt hafa Fiskislóðinni áhuga er einkahlutafélagið Reir sem er dótturfélag Niturs – félags sem kom með vel á sjöhundahundrað milljónir til landsins á árunum 2012 og 2013 í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Annað félag sem sýnt hefur Fiskislóðinni áhuga er Mid Atlantic Sim Center ehf. Að baki félaginu eru íslenskir fjárfestar sem vilja opna alþjóðlega þjálfunarmiðstöð með hermi fyrir Airbus AS350-þyrlur. Fjárfestarnir keyptu flugherminn árið 2013 og hafa síðan leitað að hentugu húsnæði undir starfsemina. Þriðja fyrirtækið er Brimrún sem selur ýmsan búnað fyrir fiskiskip og hefur rekið starfsemi sína úti á Granda síðastliðin 23 ár

You may also like...