Spennandi uppbygging á Keilugranda 1

Keulugrandi 4 1

Hér má sjá hugmyndir um framtíðarbyggð við Keilugranda 1 í Vesturbænum. Þar er gert ráð fyrir fjölbreyttri íbúðabyggð fyrir fólk á öllum aldri. Bæði Búseti og Félagsbústaðir munu koma að uppbyggingunni auk þess sem KR kemur að samstarfi um lýðheilsusvæði á reitnum. Gert er ráð fyrir að íbúðir verði afhentar 2018. Mynd: Kanon arkitektar.

Reykjavíkurborg hélt 25. nóvember fund með Búseta og Kanon arkitektum um uppbyggingu á Keilugranda 1. Fundargestum gafst þá tækifæri til að koma með ábendingar sem gætu nýst áfram í vinnsluferlinu. Nú er unnið áfram með tillögu að deiliskipulagsbreytingu sem stefnt er á að auglýsa fljótlega.

Guðrún Ingvarsdóttir, forstöðumaður þróunar og nýframkvæmda hjá Búseta kynnti helstu verkefni þeirra og breyttar áherslur með svæðið á Keilugranda. Þau verða áfram í samstarfi við KR um lýðheilsusvæði á reitnum. Rík áhersla er á að verkefnið falli vel að aðliggjandi byggð og að skapa svæði þar sem eftirsóknarvert er að búa. Á reitnum verða fjölbreyttar íbúðir fyrir fólk á öllum aldri eða Stúdíóíbúðir og 2., 3., 4. og 5. herbergja íbúðir. Útivistarsvæðið er fjölbreytt og lýðheilsureitur ætti að verða lyftistöng fyrir hverfið. Guðrún sagði að gætt yrði að því að lágmarka jarðvegsáhrif vegna nýbygginga. Búseti og félagsbústaðir Hildur Gunnarsdóttir, arkitekt hjá skipulagsfulltrúa, umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar kynnti áherslur Aðalskipulags Reykjavíkur og skipulagslega stöðu deiliskipulagsreitsins. Hún vitnaði í samkomulag frá 23. janúar 2015 en þá gerðu Reykjavíkurborg og Búseti hsf. með sér viljayfirlýsingu þar sem kveðið var á um að Búseti kæmi að uppbyggingu íbúða á lóð Keilugranda 1. Þá munu Félagsbústaðir eiga og reka hluta íbúða reitarins. Halldóra Bragadóttir, arkitekt hjá Kanon arkitektum kynnti drög að deiliskipulagstillögu fyrir svæðið sem afmarkast af Keilugranda, Eiðsgranda, Boðagranda og göngustíg meðfram KR velli. Meðal þess sem kom fram í máli hennar var að mælikvarði nýrrar byggðar félli að núverandi byggð, hugað væri að sólar- og vindáttum og að á milli bygginga yrðu mótuð fjölbreytt útisvæði með s.k. lýðheilsureit í tengslum við núverandi leikvöll. Spurt og svarað um Keilugranda 1 Fundargestum var boðið að koma með spurningar og athugasemdir til frummælenda og var þeim svarað eftir því sem við var komið á fundinum en tekið verður mið af þeim við áframhaldandi vinnu við gerð deiliskipulagsins. Helga Bragadóttir, arkitekt hjá Kanon arkitektum og Björn Axelsson skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar tóku einnig þátt í því að svara fundargestum. Hér eru nokkur dæmi um fyrirspurnir og svör. Spurt var hvort að gert væri ráð fyrir bílakjallara á svæðinu. Svarið er að ekki er gert ráð fyrir bílakjallara þar sem að lóðin við Keilugranda 1 er aðeins um fimm metra yfir sjávarmáli og því geta skapast vandamál s.s. jarðsig. Spurt var um hæðir húsa. Svarið er að byggingar verða 2 til 3 hæðir að Keilugranda og Fjörugranda og 5 hæðir auk inndreginnar hæðar nyrst. Spurt var um staðsetningu og fjölda bílastæða, áhyggjur af því að þau séu of fá. Svarið er að það eru ca. 40 stæði norðan við fjölbýlishús við Eiðsgranda 10 stæði við götu við Keilugranda og ca. 20 stæði í vösum við Fjörugranda. Fjöldi stæða er í samræmi við aðalskipulag og bent er á að þarna er gert ráð fyrir þó nokkrum litlum stúdíóíbúðum. Afhendingar 2018 Spurt var um tímaramma verkefnisins og hvort samráð verði haft við íbúa og KR varðandi opna svæðið á reitnum. Svarið er að gert er ráð fyrir að deiliskipulagið verði tilbúið í vor. Svo þurfi að skipta framkvæmdinni upp. Möguleg afhending íbúða yrði árið 2018. Fundað hefur verið með KR varðandi lýðheilsureitinn og þeim líst vel á. Tekið var undir hugmynd um að ræða við skólann líka um málið. Fundurinn fór fram á Aflagranda – Vesturreit og var fundargestum einnig boðið að senda ábendingar eða athugasemdir á netfangið skipulag@reykjavik.is

Keilugrandi Fundurinn 1

Frá kynningafundinum sem haldinn var í Aflagranda 40.

You may also like...