Breyttir lífshættir

Svo virðist sem við efumst ekki um lífshætti okkar og gildismat nema þegar við stöndum frammi fyrir spurningum um líf eða dauða. COVID-19 hefur að minnsta kosti haft slík áhrif. Sáð fræi efasemda í huga okkar. Við höfum öll litið í spegil undanfarnar vikur og ekki bara af því okkur leiðist.

Það þarf ekki að lesa íþróttafréttir lengi til að sjá að íþróttirnar, þ.m.t. knattspyrnan, glíma í örvæntingu við að halda sínum sess, sumpart sjálfskipuðu mikilvægi í samfélaginu. Lífið og líffræðin hefur hins vegar minnt okkur óþyrmilega á mikilvægi raunsæis; við flýjum ekki veruleikann.

Sjálfsagt er mörgum það þungbært að þurfa að viðurkenna að leikurinn sem við elskum er léttvægur þegar við stöndum frammi fyrir alvarlegri vá. Það hvarflaði ekki að okkur, að það þyrfti ekki kröftuga tæklingu til að stöðva knattspyrnumann í bullandi sókn, heldur fyrirmæli Víðis Reynissonar lögreglufulltrúa. Áhyggjur af liðsvali þjálfara, frammistöðu leikmanna eða úrslitum leikja, hverfa einfaldlega eins og dögg fyrir sólu þegar líf og heilsa eru í forgangi.

Í þessu ljósi þurfum við að líta íþróttaiðkun barna. Æ fleiri gera sér vonandi betur grein fyrir að hún er barnaleikur. Jafnvel þeir sem áður sáu hana sem tæki til persónulegra landvinninga. Börnin hljóta að hafa fundið þetta líka þegar þau fylltu götur og garða til að leika sér með boltann hvert á sinn hátt, til að æfa sig, skemmta sér og stytta daginn.

Við þessar aðstæður hljótum við að hafa öðlast betri skilning á því hvaða þýðingu Grótta og knattspyrnan hefur fyrir okkur. Hvað það er sem íþróttin og félagið gerir raunverulega fyrir börnin, fyrir okkur sjálf og fyrir samfélagið okkar.

Hún hefur kennt okkur gildi samheldni gegn erfiðum andstæðingi. Það er betra að takast á við mótlæti í sameiningu. Krakkarnir hafa fundið leiðir til að hafa samskipti og leika sér við gjörbreyttar aðstæður. Þjálfararnir hafa sýnt ábyrgð og útsjónarsemi í störfum sínum. Foreldrarnir hafa haldið áfram að styðja við bakið á félaginu og sjálfboðaliðarnir í stjórn sýnt seiglu og auðmýkt á erfiðum tímum. Við höfum öll gert þetta saman.

Knattspyrnan gefur líka tilgang. Börnin hafa drifið sig í að klára heimavinnuna úr skólanum til að sinna heimaverkefnum frá Gróttu. Sent boltann í vegg tímunum saman af áhuga og þrótti á meðan þau láta sig dreyma, rétt eins og þjálfarnir okkar sem hafa haldið vídeóæfingar og sýnt metnað í að sinna starfi sínu fyrir börnin.

Síðast en ekki síst gefur knattspyrnan okkur von. Barn með lítið sjálfstraust getur með góðri leiðsögn fundið sína rödd sem hluti af liðsheild. Ungur þjálfari getur lært að leiðtogahæfni í stað þess að vera áhangandi eða fylgjandi. Félagið okkar getur þjappað samfélaginu saman og vísað veginn í öðrum málum. Í Gróttu höfum við sýnt, að saman getum við fært fjöll, skrifað sögur sem venjulega er bara að finna í ævintýrum.

Þótt knattspyrnan varði ekki líf eða dauða, eigum við að taka fagnandi öllu sem hún gefur okkur, m.a. hvíld frá önnum hversdagsins. Þegar við stígum aftur inn á völlinn með hækkandi sól, vona ég að við sjáum gildi íþróttarinnar, fyrir hvað hún stendur og það sem Grótta gefur okkur.

Chris Brazell

Yfirþjálfari yngri flokka

Knattspyrnudeildar Gróttu

You may also like...