Öflugt og fjölbreytt starf í Gerðubergi í vetur

– segir Ilmur Dögg Gísladóttir forstöðumaður – 

Ilmur Dögg Gísladóttir forstöðumaður Gerðubergs menningarhúss.

Margt verður á dagskrá í Menningarhúsinu Gerðubergi í vetur. Starfsemin er komin á fulla ferð eftir lægð covid tímabilsins. Full ástæða er til þess fyrir Breiðholtsbúa og raunar aðra til þess að kynna sér hvað fram undan er. Dagskrá Gerðubergs er sniðin að þörfum flestra. Öflugt barna og ungmennastarf er í boði og einnig viðburðir  á ýmsum tungumálum sem ekki síst eru ætlaðir fólki sem á sér annað móðurmál en íslensku. Ilmur Dögg Gísladóttir veitir Gerðubergi Menningarhúsi forstöðu í dag og settist hún niður með Breiðholtsblaðinu til að fara yfir og fjalla um það fjölbreytta starf sem er í boði.

Áður en lengra er haldið má spyrja. Hvaðan kemur Ilmur. Hún Hafnarfirðingur og bjó þar til nítján ára aldurs. Hún á bakgrunn sinn í bókmenntum og bókmenntafræði þar sem hún lauk BA prófi. „Ég er einnig með masterspróf í menningar­miðlun frá Háskóla Íslands og hef einkum starfað að menningar­tengdum málefnum frá því að ég lauk námi. Áður en ég kom hingað var ég við störf hjá Listaháskáskóla Íslands og þar áður var ég um sjö ára skeið í Norræna húsinu.“ Hvað kom til að hún sóttist eftir að starfa í Gerðubergi. „Ég sá þetta starf auglýst og hugsaði að þetta væri spennandi starfs­vettvangur. Auk bókasafnsins er um að ræða skipulagningu fjölda viðburða þar sem sjónum er beint að íbúum í Breiðholt sem öðrum. Þótt Gerðuberg sé staðsett í miðju Fell- og Hólahverfinu þá miðast starfsemi þess við að ná til sem flestra utan og innan viðkomandi byggðar líkt og um aðrar starfstöðvar Borgarbókasafnsins. Þrátt fyrir það er augun ekki síst beint að nánara umhverfi – að Breiðholtinu og ýmsir viðburðir sem stofnað er til eru miðaðir við að fólk úr nærliggjandi byggð sæki þá.“ 

Sjónum er beint að yngra fólki

Ilmur segir að sjónum sé ekki síst beint að yngra fólki. „Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna Okið. Í OKinu er hægt að læra, skapa, fikta, eiga í samtali og einfaldlega hanga. OKinu hefur verið tekið mjög vel þótt starfsemi þess takmarkaðist á tíma covid. Nú er allt komið á fullt að nýju og ég vil hvetja kennara og starfsmenn frístunda- og félags­miðstöðva til að notfæra sér OKið til eigin nota, bæði  til kennslu og einnig leik. Ungmenni sem vilja koma á eigin vegum geta bókað rýmið og fengið aðstoð við að láta drauma sína verða að veruleika.“ Ilmur segir margt vera í boði. „Það sem við köllum verkstæði er lögð áhersla á fikt og sköpun fyrir yngri kynslóðina og eru ýmis spennandi tól á staðnum. Þar má nefna þrívíddarprentara, barmmerkjavél, vínyl­skera og saumavélar. Tölvu­notkun er ókeypis og einnig er hægt er að koma sér vel fyrir og lesa dagblöð, tímarit eða annað efni. Notendur geta fengið að ljósrita, prenta eða skanna gögn gegn vægu gjaldi.  Ég vil endilega nota tækifærið til þess að hvetja krakka og unglinga í Breiðholti til að koma og notfæra sér það sem OKið hefur upp á að bjóða. Þar er nánast endalaust hægt að finna sér viðfangsefni.“

Klúbbastarf, aðstoð við heimanám og margt fleira

Ilmur segir margvíslegt klúbba­starf sé í boði í Gerðubergi. Einnig megi nefna aðstoð við heimanám á tímabilinu frá október til apríl Í OKinu eru t.d. borðspil, myndasögur og bókmenntir fyrir ungt fólk. “Rýmið er opið á opnunartíma hússins. Klúbbastarfið er hins vegar bara fyrir ungmenni og er það auglýst sérstaklega á vefsíðunni okkar. Meðal klúbba eru Anime klúbburinn sem er skipulagður með Íslenska myndasögufélaginu. Stranger things klúbbur er til staðar og svo er hægt að koma og prófa sig áfram í græjunum okkar á fiktdögum annan hvern þriðjudag.”

Foreldramorgnar óháðir tungumáli

Annað sem Ilmur vill vekja sérstaka athygli á eru foreldra­morgnar sem eru fyrir alla foreldra óháð tungumáli. Gæða samverustundir fyrir fjölskyldur barna á leikskólaaldri þar sem blandað er saman tónlist, sögum og leik. Þessar stundir kallast Memmm og eru einskonar opinn leikskóli og fara fram á miðvikudögum. „Þetta starf hófst í mars 2020 þegar samkomubannið vegna Covid skall á. Þá stóðu leikskólar landsins skyndilega uppi með framandi skipulag sem þeir urðu að spila af fingrum fram. Þær vinkonur Birta og Imma upplifðu þá visst tómarúm sem varð til þess að þær urðu að endurhugsa starfið og finna leiðir til að viðhalda neistanum. Þær voru vanar að fara með sögustundir og söngstundir á milli milli deilda og fundu við þessar aðstæður ríka þörf fyrir að viðhalda tengslunum við öll þau börn sem þær voru ekki að sjá vikum saman. Þannig varð hugmyndin til um að nýta þá daga sem sem ekki var starfað í leikskólanum til að búa til þætti með samverustundum. Þær voru síðan síðan settir á You tube undir nafninu Birtu- og Immustund.“ 

Birta og Imma hafa séð Gerðubergi fyrir efni fyrir yngsta fólkið.

Eitthvað fyrir sem flesta

Ilmur segir að starfsemin í OKinu og klúbbastarfið sé fyrir alla sama af hvað uppruna þeir eru. Engu að síður þurfi að huga sérstaklega að fólki og þá einkum krökkum sem eigi sér annað móðurmál en íslensku. „Við erum með sögustundir fyrir börn á arabísku. Oussama Mabrouk les skemmtilegar barnasögur á arabísku og stundum er föndrað, hlustað á tónlist, sungið og fleira skemmtilegt. Nú í haust ætlum við að bjóða upp á sögustundir á filippínsku, pólsku og spænsku. Við erum einnig með viðburði sem heitir Spilað og spjallað. Þeir er hugsaðir fyrir fólk sem er að æfa sig í að tala íslensku. Þá má geta þess að Hrekkjavakan verður á sínum stað. Þá verða skori út  út í grasker og horft á „hræðilegar hryllingsmyndir“ með Önnu Worthington De Matos frá Munasafninu RVK Tool Library. Grasker verða á staðnum og verkfæri. einnig úrval D mynda og gotterí verður á staðnum. Skráning mikilvæg til að hægt verðu að áætla fjölda graskerja.

Kristinn R. Ólafsson kynnir nýja bók

Ilmur segir mikinn áhuga fyrir spænsku. Bæði á meðal Íslendinga sem lært hafi málið eða séu að læra það og þeirra sem eru tengdir því með öðrum hætti. Spænskan verði ekki út undan því Kristinn R. Ólafsson, rithöfundur, fararstjóri og fyrrverandi fréttaritari Ríkisútvarpsins í Madríd til margra ára mun heimsækja Gerðuberg og kynna nýja bók sína. „Bókin heitir „Þeir líta aldrei undan“ og er smágagnabók. Bókin er sérstök að því leyti að hún er á tveimur tungumálum. Skrifuð bæði á íslensku og spænsku. Eins og þeir þekkja sem hlýddu á fréttapistla Kristins í Ríkisútvarpinu er hann með afbrigðum frásagnaglaður og orðhagur. Öllum er velkomið að taka þátt en viðburðurinn sem ætlaður öllum sem hafa áhuga og fer fram á spænsku. Bókasafnið býður upp á kaffi og te á meðan erindið stendur yfir.“

Fræðakaffi um ólíka menningu

“Eitt af því sem mig langar að nefna er fræðakaffi. Næsti viðburður af þeim toga veður miðvikudagur 19. október n.k. Þar verður kafað í undirdjúp kóreskrar menningar og fá dæmi um K-drama sem hægt er að horfa á á streymisveitum, hvaða tónlist trónir á toppnum í K-poppinu og hvaða skáldsögur við getum sokkið ofan í til að komast nær þessu fjarlægja landi en nálæga menningarheimi. Þessi viðburður mun fara fram á ensku og umsjónarfólk verður Park Hye Joung sem er uppruninn frá Suður-Kóreu en hefur búið á Íslandi af og til frá árinu 1997 og Hye Joung sem er listakona og kennir við Myndlistaskóla Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands ásamt að vinna að stúdíó verkefnum.  Þá má nefna Choi Kyoung Eun sem er fædd og uppalin í Suður-Kóreu og útskrifaðist sem Jazz söngkona hjá The Royal Conservatory of The Hague. Þar kynntist hún eiginmanni sínum og kom til Íslands. Hún er sérstök áhugakona um K-drömu og tónlist og hafa þau verið henni innan handar fjarri heimalandi sínu. Hún er spennt að fá að deila þessum áhuga með ykkur. Greta Vazhko tekur einnig þátt í þessum viðburði. Hún er frá Litháen en hefur búið í Suður-Kóreu sl. tvö ár. Hún lærði tæknibrellur og stafrænt efni. Í augnablikinu býr hún á Íslandi og starfar sem grafískur hönnuður og markaðsstjóri ásamt því að vera mikil áhugamanneskja um kúltúr og góðan mat.“

Íslensk skáld og ljóðahöfundar

Að lifa og deyja í ljóði verður miðvikudaginn 12. október n.k. Þar munu Anton Helgi Jónsson, Hrafnhildur Hagalín og Alda Björk Valdimarsdóttir mæta á fyrstu Kveikju haustsins með ljóðlegan eld í farteskinu og fjalla um innblástur og efnivið í nýlegum ljóðabókum sínum. Þau munu svara spurningum um kveikjur og flytja brot úr nýjustu verkum sínum sem komu út fyrr á þessu ári. Rit- og sjónþing voru ein af aðalmerkjum Gerðubergs á fyrri árum. Þar komu bæði höfundar og myndlistarmenn og rættu við gesti um líf sitt og verk. Ritþingin eru enn á dagskrá og verður næsta ritþing á vordögum. 

Handverkskaffið ómissandi

Að lokum má ekki gleyma Handverkskaffinu. Fyrsti viðburður haustsins fór fram 28. september. Þar var fjallað um leyniprjónið sem virkar þannig að hluti prjónauppskriftarinnar er birtur í hverri viku í fjórar vikur alls. “Allir þátttakendur prjóna eftir sömu uppskrift, þeir vita hvað þeir eru að prjóna og hve margir litir eru, en ekki hvernig verkið kemur til með líta út fyrr en því er lokið. Að raða saman og velja liti í prjónaverkefni er áhugamál út af fyrir sig sem kallar oft á miklar vangaveltur og er oft alveg jafn skemmtilegt og að prjóna sjálfa uppskriftina,” segir Ilmur Dögg. 

Embla Vigfúsdóttir, Svanhildur Halla Haraldsdóttir, Ilmur Dögg Gísladóttir og Rán Flygenring, Tilefnið myndarinnar var opnun á sýningunni „Heimsókn til Vigdísar“.

You may also like...