Minnihlutinn gerir athugasemdir við fjárhagsáætlun

Nesið

Faldar tekjur, skólaskjól, félagsstarf eldri borgara og félagslegar íbúðir eru á meðal þess sem fulltrúar minnihluta bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar nefna í athugasemdum við fjárhagsáætlun bæjarfélagsins sem nú liggur fyrir bæjarstjórn. Í bókun þeirra á bæjarstjórnarfundi kemur fram að samkvæmt áætluninni standi rekstur bæjarfélagsins í járnum en á undanförnum árum hafi tekjur verið talsvert vanáætlaðar, sem leitt hafi til þess að rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs hafi verið sem nemur meira en 200 milljónum á ári umfram áætlanir að meðaltali síðustu fimm ár.

Af því megi ætla að í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 sé til staðar svigrúm til þess að tryggja betur ýmsa brýna þjónustu og ráðast í verkefni sem setið hafa á hakanum. Bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar telja að nokkrir þættir þurfi sérstakrar skoðunar við á milli umræðna um fjárhagsáætlunina. Sá fyrsti er skólaskjólið en börnum í skólaskjólinu hefur fjölgað umtalsvert á síðustu misserum og núverandi húsnæði því í raun sprungið. Því til viðbótar hefur lengi verið bent á nauðsyn þess að skólaskjólið komist í hentugra húsnæði sem hæfi starfinu sem þar fer fram og geri mögulegt að bæta þjónustuna. Annað er félagsstarf eldri borgara en mikill uppgangur sé í því starfi á Seltjarnarnesi. Á velheppnuðu íbúaþing um málefni eldri bæjarbúa sem haldið var 28. mars síðastliðinn og stofnun Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi í framhaldi af því. Á íbúaþinginu kom skýrt fram að eldri borgarar er fjölbreyttur hópur með margvísleg áhugamál sem þarf að taka tillit til. Eldri borgurum á Seltjarnarnesi fer fjölgandi sem nauðsynlegt er að bregðast við með fjölþættum stuðningi. Mikilvægt er að styðja við áhuga og virkni þessa aldurshóps, m.a. með því að koma á fót félags- og/eða þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara, eins og minnihluti bæjarstjórnar hefur ítrekað bent á. Í þriðja lagi benda bæjarfulltrúar millihlutaflokkanna á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Bent er á að bærinn hafi selt félagslegar íbúðir á árinu án þess að nýjar hafi verið keyptar í staðinn. Bæjarfulltrúarnir líta svo á að um algjört forgangsmál sé að ræða að keyptar verði íbúðir í stað þeirra sem seldar hafa verið auk einnar til viðbótar og að gætt sé að því að stærðir þeirra séu í samræmi við þarfir þeirra sem bíða úrlausnar.

You may also like...