Átak sem skilaði miklu

Anna Margret I 1

Anna Margrét Jónsdóttir ferðamálafrömuður.

Viðtal við Önnu Margréti Jónsdóttur, fyrrum fegurðardrottningu, flugfreyju og núverandi ferðamálafrömuð.

Breiðholtið er 50 ára á þessu ári. Í júní árið 1964 gerðu stjórnvöld og verkalýðshreyfingin með sér samkomulag um að efna til margvíslegra félagslegra umbóta í stað launahækkana sem hluta kjarasamninga. Samkomulagið var gjarnan kennt við mánuðinn júní og nefnt júnísamkomulagið. Ári síðar 1965 fyrir réttum fimmtíu árum var svo komið að því að fara af stað með byggingaverkefnið. Tveimur árum síðar voru hús tekin að rísa í landi Breiðholts og fólk að flytja inn. Breiðholtsblaðið fékk Önnu Margréti Jónsdóttur, fyrrum fegurðardrottningu, flugfreyju og núverandi ferðamálafrömuð til þess að rifja upp bernskuár sín og Breiðholtsins og lífið og tilveruna þar í tilefni þessara tímamóta. Hún ólst upp í Fellunum er í fyrsta árganginum sem útskrifaðist úr Fellaskóla. „Ég fluttist í Breiðholtið 1972 þegar foreldrar mínir þau Jón Oddur Kristófersson og Marín E. Samúelsdóttir fluttu í verkamannaíbúð í Unufelli eins og þær voru kallaðar. Það var mikið mál að fá þessar verkamannaíbúðir á þeim tíma og afi minn reddaði foreldrum mínum viðtali við Guðmund J. Guðmundsson verkalýðsforingja sem mikið kom við sögu Breiðholtsins en þá voru þessar íbúðir að verða uppseldar. Við fengum um 90 fermetra íbúð á annarri hæð. Þá var hverfið að byggjast upp og langt í frá að það væri fullbúið. Ég byrjaði sex ára í Fellaskóla haustið eftir að við fluttum og útskrifaðist úr þeim ágæta skóla – úr níunda bekk sem í dag er tíundi bekkur. Ég er úr fyrsta árgangi sem var allan grunnskólann í Fellaskóla.“

Um 80% íbúanna undir 25 ára aldri

Anna Margrét segir mjög gaman að hafa alist upp þarna. Hún kveðst eiga margar góðar minningar um byggðina og í námi við Háskóla Íslands hafi hún valið Breiðholtið til að vinna verkefni. „Þegar ég fór að skoða þetta frá hinum fræðilega sjónarhóli komst ég að því að tveimur árum eftir að við fluttum upp eftir eða 1974 voru um 80% íbúanna undir 25 ára aldri sem segir þó nokkuð um árangurinn af júnísamkomulaginu. Þetta var að mestu leyti ungt barnafólk sem hafi fengið tækifæri til þess að koma sér upp húsnæði eða eigum við kannski að orða það með þeim hætti að koma sér upp sínu eigin heimili. En vegna þess hversu margar fjölskyldur voru í yngri kantinum og með börn var hverfið og mannlífið svolítið einsleitt á þessum tíma. Lítið var um einstæða foreldra þótt þeir fyrirfyndust. Það var heldur ekki þetta litróf mannlífsins sem er núna til staðar í Fellunum og víðast hvar í Breiðholtinu. Það voru allir eins.“

Fólkið fann fyrir miklum breytingum

Anna Margrét segir að flest af þessu fólki hafi komið úr því sem sem stundum er kölluð millistétt. Verkafólk og iðnaðarfólk. Faðir sinn sé til dæmis menntaður járnsmiður og móðir sín Verslunarskólagengin. „Mig minnir að í einhverjum skipulagshugmyndum hafi verið gert ráð fyrir allt að 10 þúsund manna byggð í Fellunum og þetta var að mestu leyti allt láglaunafólk. Þetta voru blokkir hlið við hlið eða hvor á eftir annarri og á þessum tíma voru íbúarnir fleiri en þeir sem bjuggu á Akranesi. Svo voru raðhúsin byggð og þar bjó fólk sem taldi sig í hærri klassa. Langa blokkin sem oftast var kölluð langavitleysan er svo sér á parti. Ástæður fyrir byggingu hennar voru einkum tvær. Á þessum árum voru komnir til sögunnar byggingakranar sem hægt var að renna eftir brautum. Auðveldara var að byggja með þessa tækni við hendina og menn vildu ekki gera sömu dýru mistökin og í Bökkunum þar sem allt er byggt í u. Það var mun erfiðara að byggja eftir því skipulagi en fara bara endalaust í lengjurnar með hreyfanlegum byggingakrönum sem eltu bara steypumótin þegar þau voru komin á grunnana. Hin ástæðan fyrir lönguvitleysunni var sú að með því að byggja stigagangana saman var hægt að spara einangrunarefni vegna þess að eingöngu var um innveggi að ræða. Mér fannst langavitleysan alltaf ljót og hún er það enn. Ef maður labbar niður göngustíginn á bak við hana þá er hann svolítið dimmur vegna þess að blokkirnar snúa í austur og svo lokar langavitleysan fyrir vestan. Ég man að þegar krakkarnir voru að öskra í leikjum þá ómaði hverfi að ekkói af steinsteypu sem var ekkert leiðinlegt. En það var auðvitað verið að búa til ódýrar íbúðir til þess að útrýma ónothæfu húsnæði. Ömmusystir mín bjó í lönguvitleysunni. Hún hafði búið í braggahverfi áður en þau fluttu þangað. Maðurinn hennar var verkamaður. Þau áttu fimm börn og voru þarna í þriggja herbergja íbúð og voru alsæl. Það sýnir hvað fólk sem hafði búið við húsnæðisvanda fann mikla breytingu við að fá þetta húsnæði þótt það þætti ef til vill ekki fullkomið í dag fyrir stórar fjölskyldur. Þarna var fólk að flytja úr kjallaraholum og jafnvel kofaskriflum þar sem ekki var einu sinni rafmagn í öllum herbegjum og þótt ekki sé lengra liðið voru þetta hallir í margra augum.“

Hverfið hafði ekki sál – allt var eins

Hvað gerðu krakkarnir í Breiðholtinu í þá daga. „Þau gerðu ýmisleg og þar á meðal vorum við að leika okkur í nýbyggingunum sem örugglega yrði ekki leyft í dag. Maður var að stökkva um sem var rosalega gaman því þarna voru hálfkláraðar blokkir út um allt. Svo var móinn fyrir ofan byggingarnar. Þangað fórum við í útilegur og stálum sígarettum til þess að prufa að reykja þar sem fullorðnir sáu ekki til. Það var heilt hvarfahverfi þar sem Vatnsendabyggðin er í dag. Við fórum líka niður að Elliðaám með bakpoka og nesti. Það var æðislegt að hafa náttúruna bara út í garði. En þetta varð líka til þess að ég fékk ást á miðbænum þegar fram í sótti. Þrátt fyrir allt umrótið, nýbyggingarnar og náttúruna allt í kring þá var hverfið sálarlaust. Allar byggingarnar voru eins og það var eins og allir væru eins. Fólkið var að byggja og koma sér fyrir og annað komst oft ekki að. Svo kom maður í fjölbreytileikann í gamla bænum þar sem öllu ægir saman. Alls konar byggingum og alls konar fólki. Og þótt ég hefði allt það sem Breiðholtið hafði að bjóða á þessum tíma þá man ég að ég labbaði um gamla bæinn með vinkonu minni þegar ég var tólf ára og hugsaði um það eitt að þar vildi ég búa. Við horfðum á risíbúðirnar í gömlu húsunum þar sem við vildum eiga heima. Og þegar ég keypti fyrstu íbúðina mína þá var hún í gamla bænum og ég er búin að búa þar síðan.“

Alltaf pláss fyrir alla

Anna Margrét rifjar upp þann hugsunarhátt sem var ríkjandi á þessum tíma. „Þegar ég var að alast upp vorum við fimm í fjölskyldunni. Bræður mínir voru saman í herbergi en engu að síður var alltaf nægt pláss fyrir ættingja frá Húsavík og búa hjá okkur til dæmis þegar þeir voru að byrja í menntaskóla. Þá voru bara allir saman í herbergjum. Þetta þætti auðvitað ekki boðlegt í dag en okkur fannst alveg nóg pláss. Það voru tveir bræður hjá okkur sinn hvorn veturinn og bræður mínir voru saman í herbergi þangað til að ég flutti að heiman. Þá voru þeir 14 og 18 ára gamlir.“

Margrét var besti kennari í heimi

Árin í Fellaskóla eru Önnu Margréti minnisstæð og þar koma bæði kennarar og nemendur við sögu. „Ég var í Fellaskóla og var svo heppin að hafa besta kennara í heimi – kennara sem kenndi mér nánast allan barnaskólann og mótaði mann á marga hátt. Hún heitir Margrét Jónsdóttir og er enn að kenna í Fellaskóla. En það sem hún vogaði sér að gera var að fara í barnsburðarleyfi alla vega tvisvar á tímabilinu. Hún var alltaf með sama bekkinn og við vorum stilltust og best þegar hún var með okkur en þegar hún var í barnsburðarleyfunum urðum við algerlega óalandi og óverjandi. Ég man eftir að í eitt skipti að afleysingakennari sem var kona á miðjum aldri – sennilega á mínum aldri í dag og okkur fannst hún hræðilega gömul. Einn daginn þegar hún kom til baka eftir að hafa farið fram voru engir krakkar í skólastofunni því við skriðum öll út um gluggann. Hún kom ekkert aftur, fékk taugaáfall og það þurfti að fá annan kennara. Þetta var á þeim tíma sem margir villingar voru í hverfinu. En Margrét gat verið ströng og hún var líka spör á hrós þótt hún hrósað okkur stundum. Henni tókst að halda aga á hópnum og við bárum virðingu fyrir henni. Ég hef stundum hugsað til þessara daga og vellt fyrir mér hvort börnum sé hrósað of mikið í dag. Hvort of mikið hrós geti skaðað þau. Þegar Margrét hrósaði okkur þá vissum við að það var þess virði. Að við höfðum unnið til þess. Margrét er góður kennari og bara mjög klár kona. Ég held að hún sé ein af þremur kennurum við Fellaksóla sem hafa starfað við skólann frá upphafi og í dag er um helmingur nemenda hennar af erlendu bergi.“

Ýmsir þekktir komu úr Fellunum

Anna Margrét segir að í upphafi hafi verið um 1500 börn í Fellaskóla sem segi margt um þessa nýju byggð. Skólahúsið var engan veginn nægilega stórt og það stóðu svonefnd viðlagasjóðshús sem höfðu verið keypt hingað til lands vegna eldgossins í Vestmannaeyjum á skólalóðinni og þar var einnig kennt. Til dæmis var söngkennslan í húsi út á lóð. Sem dæmi um samheldnina get ég sagt að við héldum reunion nýlega og það mættu um 90 manns af 132 sem útskrifuðust úr fyrsta árganginum. Þetta var ótrúleg mæting, við söfnuðum fyrir gjöf til nemendafélagsins og það var mjög gaman að hittast eftir öll þessi ár.“ Anna Margrét segir ýmsa þekkta þjóðfélagsþegna kom úr þessum heimi. „Skjöldur Sigurjónsson matreiðslumaður og helmingurinn af Kormáki og Skildi er einn þeirra. Hann var alinn upp í Fellunum og var algjör villingur á þessum árum. Sjón skáld og rithöfundur var annar og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarmaður sem stofnaði Todmobile og fleiri hljómsveitir var einnig í þessum hópi og Jakob bassaleikari sem spilar með John Grant. Björk Guðmundsdóttir var líka þarna. Hún er ári eldri en ég og hljómsveitirnar Tappi tíkarrass og Purkur Pilnikk voru ekki langt undan.“

Fellahellir átti enga samlíkingu

Svo kom Fellahellir. „Já – svo kom Fellahellir. Tónabær var kominn til sögunnar en með Fellahelli var þetta tekið dálítð lengra. Maður á margar skemmtilegar minningar úr Fellahelli. Það mátti meira að segja reyka þar á ákveðnum stöðum – nokkuð sem ekki yrði liðið í tómstundaheimili unglinga í dag. Þetta var frábær samveruvettvangur og hreint ótrúleg að þetta skildi takast. Þetta er eitt af því sem alltaf hefur vantað í miðbænum. Þetta var reynt í Austurbæjarskóla en þótti ekki takast nægilega vel en Fellahellir sem nú er mötuneyti Fellaskóla átti sér enga samlíkingu í heimi unga fólksins.“

Fékk fyrsta og eina bónorðið 12 ára

Anna Margrét segir að hún hafi fengið fyrsta bónorðið í Fellunum og raunar það eina á lífsleiðinni. Biðillinn ungi heitir Árni Harðarsson og var nýlega fluttur í Seljahverfið með fjölskyldu sinni. „Hann var bara eitt kvöldið á dyrabjöllunni og spurði mig hvort ég vildi byrja með sér. Við vorum 12 ára. Og hvað átti maður að segja. Já. En svo fékk ég vinkonu mína til þess að segja honum upp fyrir mig út á leikvelli því mér fannst hann vera of stuttur. Við byrjuðum svo aftur í partý eftir samræmduprófin í níunda bekk og það hefur staðið síðan. Hann var að vinna á bensínstöðinni við Suðurfell með skólanum. Krakkar unnu held ég alveg jafn mikið með skólanum þá og í dag. Ég var líka alltaf að vinna – var í bæjarvinnunni og var líka í Vestmannaeyjum. Fékk starfskynningu hjá Surtsey VE.“

AM-1

Anna Margrét var valin Ungfrú Ísland árið 1987.

Úr grænmeti í ungfrú Ísland

„Ég ég fékk svo fasta vinnu í grænmetinu í Blómavali. Þar eignaðist ég eina bestu vinkonu mína, hana Sollu, sem var líka að vinna þar. Danskóli Heiðars Ástvaldssonar var í Fellunum og mörg okkar voru send þangað. Skólinn hjá Heiðari var svona önnur félagsmiðstöð í hverfinu Hanna Frímannsdóttir kona hans var með KARON sýningarsamtökin. Þetta leiddi til þess að við urðum sýningarstúlkur hjá Heiðari og Hönnu. Við vorum svona vinnufíklar og ég hef líklega aldrei losnað frá því. Við vorum alin upp við að dugnaður væri dyggð. Ég man að við vorum eitt sinn í myndatökum fyrir vikuna. Vikan kom í sjoppuna í Fellunum og var hengt þar upp með mynd af okkur á forsíðunni. Við vorum 15 ára og ég var ekki meiri bógur en svo að ég vildi ekki fara í sjoppuna fyrr búið var að taka myndina niður. En eitt leiddi af öðru og veran í KARON varð til þess að ég tók þátt í keppninni um ungfrú Íslands 1987 og vann keppnina.“

Embla – dönskukennsla og grillklíka

„Það var mikið um lifandi starfsemi. Þarna var KRON og fleiri verslanir en nú er þetta meira og minna draugabyggð. Bókabúðin Embla var í Fellunum og þangað var ég send eftir Family Journal fyrir mömmu og stöku sinnum eitt og eitt Rapport fyrir karlpeninginn. Þar fór dönskukennslan fram. Maður lærði dönsku af blöðunum eins og margir Íslendingar. Breiðholtsbakarí var líka þarna í bakhúsi og þar er Nýlistasafnið í dag. Svo var grill þarna efra og þar var líka klíka – svona grillklíka sem átti ekki mikla samleið með okkur. Maður var oft skíthræddur við þetta lið. Og það verður að segjast eins og er að margir þeirra hafa lent undir í lífinu – jafnvel átt sér griðastað á Litla Hrauni.“

Stimpillinn hefur pirrað mig

Anna Margrét snýr sér að umfjöllun um Breiðholtið. „Hann hefur alltaf pirrað mig stimpillinn sem Breiðholtið fékk á sig. Þegar verið var að tala um öll þessi vandamál sem þar áttu að vera. Ef tölfræðin er skoðuð þá hefur ekki verið meira um afbrot í Breiðholtinu en annars staðar og jafnvel minna þegar afbrot eru skoðuð sem hlutfall af fjölda íbúa. Auðvitað eru og verða alltaf til unglingavandamál í flestum hverfum en íbúafjöldinn var svo mikill á þessum tíma að tölurnar úr Breiðholtinu gátu orðið hærri en annars staðar en ekki sem hlutfall af þeim fjölda sem bjó þar. Við erum alltaf að stæra okkur af hversu góð við erum í hinu og þessu sem hlutfall af íbúafjölda en þarna vantaði að fjölmiðlarnir stæðu með Breiðholtinu. Og enn er verið að tala um Breiðholtið á niðrandi hátt. En þetta sem hverfi getur verið Brooklin Reykjavíkur. Ungt fólk hefur haft efni á að kaupa sér íbúðarhúsnæði og nýbúar sem hafa annað hugarfar til skulda en við og vilja ekki skuldsetja sig um of horfa á lægra íbúðaverð.“ Anna Margrét segir frábært fyrir þjóðfélagið að fá blandaða menningu með fólki sem flytur hingað. Þetta er ekkert annað en innspýting í okkar menningarlíf sem eykur fjölbreytni þess að mun. Varðandi nýbúana höfum komist hjá því að gera sömu mistök og ýmsir aðrir til dæmis Svíar sem söfnuðu fólki frá öðrum löndum inn í sérstök hverfi þar sem fólkið einangraðist og fékk ekki tækifæri til þess að þiggja af menningu nýja landsins. Með því að byggja margar íbúðir á litlu svæði fyrir fólk með lægri innkomu skapast ákveðin samfélagsgerð og Breiðholtið hefur goldið fyrir það þótt nú sé orðið breyting á. En þetta verk – bygging Breiðholtsins var engu að síður mjög þarft á sínum tíma fyrir hálfri öld. Að koma með nýjar íbúðir fyrir fólk sem bjó við ömurlegar aðstæður var stórkostlegt framtak og við skulum ekkert gleyma því að fólk bjó í herbröggum og öðrum hreysum í Reykjavík allt fram á áttunda áratuginn.“

Átak sem skilaði miklu

En hvað er Anna Margrét að gera í dag. Hún hefur sinnt ferðamálum um lengri tíma. „Já – ég fékk miðaldurskrísuna snemma og sagði upp hjá Icelandair eftir 30 ára starfsferil. Ég fór í nám í ferðamálafræði og gerði þar meðal annars verkefni um tilurð og uppbyggingu Breiðholtsins. Fyrir um átta mánuðum kom ég inn í ungt fyrirtæki sem heitir Around Iceland. Við erum fjögur sem stöndum að því í dag og erum öll fyrrverandi starfsmenn Icelandair. Mér finnst mestu forréttindin felast í að starfa sem leiðsögumaður sem ég geri öðru hvoru og finna hvernig fólk sér landið okkar með augum gestsins. En aftur að Breiðholtinu. Það var átak sem skilaði miklu.

Anna Margret II 1

Anna Margrét með samstarfsfólki á Around Iceland.

You may also like...