Öldungaráðið á fyrsta fundi
Nýskipað Öldungaráð Seltjarnarnesbæjar kom saman til fyrsta fundar síns 3. mars sl. í sal bæjarstjórnar. Því er ætlað að vera til ráðgjafar um málefni og hagsmuni íbúa bæjarins 67 ára og eldri – og getur beint tillögum til bæjarstjórnar, nefnda og ráða bæjarfélagsins. Verður ráðið vettvangur samráðs og virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins. Gert er ráð fyrir að það komi saman eigi sjaldnar en 4 sinnum á ári, auk opins fundar með bæjarstjórn og hagsmunaaðilum þegar svo ber undir.
Formaður ráðsins er Ólafur Egilsson, kjörinn af bæjarstjórn ásamt Stefáni Bergmann, en einnig sitja í ráðinu þrír fulltrúar Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi (FebSel), þau Þóra Einarsdóttir, Birgir Vigfússon og Magnús Oddsson sem er formaður FebSel. Varamenn valdir af bæjarstjórn eru Guðrún Valgerður Haraldsdóttir og Árni Einarsson, en frá félaginu þær Hildur Guðmundsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir auk eins sem tilnefndur verður síðar. Núverandi fulltrúum er ætlað að sitja til loka kjörtímabils bæjarstjórnar.
Unnið að undirbúningi hjúkrunarheimilis
Stofnun Öldungaráðsins sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar 10. febrúar sl. á m.a. rætur að rekja til íbúaþings og kemur í framhaldi af stofnun Félags eldri borgara í bænum 12. sept. sl. Á fundi Öldungaráðsins á dögunum lýsti Ásgerður Halldórsdóttir m.a. stöðu hjúkrunarheimilismálsins og sýndi líkan sem gert hefur verið af hinu væntanlega heimili á Norðurtúni (sjá mynd). Unnið er nú að undirbúningi útboðs og stefnt að framkvæmdum hið fyrsta þ.e. síðar á þessu ári. Einnig gaf Snorri Aðalsteinsson yfirlit yfir þá fjölþættu almennu og sértæku þjónustu sem eldri borgurum stendur til boða í bæjarfélaginu. Fór því næst fram í ráðinu ítarleg umræða um hlutverk þess og hugsanleg næstu verkefni. M.a. var samþykkt að fara vandlega yfir skýrslur sem liggja fyrir um málefni eldri borgara og skoða hvaða aðgerðir sem þar er mælt með gætu enn komið að gagni. Þá mun Öldungaráðið taka við hvers kyns ábendingum frá bæjarbúum. Annast félagsmálastjóri móttöku erinda til ráðsins, en hann ber einnig ábyrgð á framkvæmd ákvarðana þess. Í bænum búa nú nál. 625 eldri en 67 ára og hefur fjölgað um u.þ.b. eitt hundrað á undanförnum 6 árum. Þetta eru um 12% bæjarbúa, örlítið yfir landsmeðaltali.