Við megum ekki búast við svartnætti

– segir Gylfi Magnússon dósent –

Gylfi Magnússon hagfræðingur og dósent.

Gylfi Magnússon dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Gylfi er fæddur Vesturbæingur en hefur búið á Seltjarnar­nesi um ára bil. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Mennta­skólanum í Reykjavík og sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsgráðu í hagfræði frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Gylfi hefur komið nokkuð við sögu þjóðmála án þess að hafa tekið þátt í stjórnmálum með beinum hætti – það er að hafa verið í framboði eða átt sæti á Alþingi. Eftir að önnur ríkisstjórn Geirs H. Haarde féll í byrjun árs 2009 var Gylfi skipaður viðskiptaráðherra í minnihlutastjórn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann lét af ráðherraembætti 2. september 2010 og hélt aftur til starfa við Háskóla Íslands. Gylfi er formaður bankaráðs Seðlabankans og hefur meðal annars setið í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur um hríð og var kjörinn formaður stjórnar á framhaldsaðalfundi fyrir skömmu. 

„Ég er eiginlega af þriðju kynslóð Vesturbæinga,“ segir Gylfi. „Afi minn og amma keyptu hús við Vestur­vallagötu um miðjan fjórða áratug liðinnar aldar. Eitt húsanna sem byggð voru á þeim tíma sem sam­vinnu­­verkefni. Þau bjuggu þar og móðir mín og síðan ég. Fjöl­skyldan var þarna í meira en sextíu ár. Ég fór að heiman til að fara til framhaldsnáms í Bandaríkjunum. Eftir að ég kom til baka bjó ég um tíma í Vesturbænum en hinu megin við Hringbrautina. Við Boða­granda í þrjú ár en flutti síðan á Seltjarnarnes þar sem ég hef verið síðan. Ég kann vel við mig Nesinu og við fjölskyldan. Á Seltjarnarnesi er sérstaklega þægilegt umhverfi til þess að vera með börn og við hjónin eigum fimm. Miklu skiptir hvernig búið er að þeim. Þar eru allar stofnanir, skóli, tónlistarskóli, félagsstaða og íþróttastarf nánast á sömu þúfunni. Vesturbærinn er heldur aldrei langt undan. Maður fer sjálfkrafa í gegnum hann til og frá vinnu hingað út í Háskóla. Ég hef því aldrei komist langt frá Vesturbænum nema á námsárunum.

Stutt hlé frá hagfræðinni

Gylfi hefur komið nokkuð víða við á starfs­ævinni. Kveðst þó aldrei hafa farið langt frá hagfræðinni. „Ég fór beint í nám í henni eftir menntaskóla og síðan fram­haldsnám. Þegar ég kom til baka úr doktors­náminu fór ég til starfa við Háskólann og hef verið þar síðan með einu hléi þegar tók sæti í ríkisstjórn um tíma á árunum 2009 og 2010. Ég hef þó sinnt ýmsum störfum með fram háskólakennslu og rannsóknar­störfum í gegnum tíðina. Núna gegni ég stjórnar­formennsku í banka­ráði Seðlabankans og Orku­veitu Reykjavíkur. Ég hef verið í stjórn Orkuveitunnar í ellefu ár en tók við formennsku fyrir síðastliðinn áramót.“

Ingibjörg Sólrún hringdi í mig

Talið berst að ráðherradómnum sem bar nokkuð brátt að. „Ég hafði aldrei stefnt að því að taka sæti í ríkisstjórn, aldrei boðið mig fram til þings eða séð mig fyrir mér í því hlutverki. En þetta voru fordæma­lausir tímar. Ég heyrði fyrst í fjölmiðlun áður en nokkur talaði við mig að verið væri að máta mig við ráðherrastól. Einhver samtöl hafa örugglega farið fram á milli fólks áður en að Ingibjörg Sólrún hringdi í mig og bar þetta erindi upp. Hún var þá formaður Samfylkingarinnar en að víkja fyrir Jóhönnu Sigurðar­dóttur. Ég hafði ekki stefnt að þessu en þarna var ekki annað hægt en að segja já. Ekki síst vegna þess hversu ástandið var skelfilegt eins og flestir muna. Ég sá að ég gat ekki setið á hliðarlínunni og gagnrýnt ef ég gæti komið að einhverju gagni. Engin uppskrift var til að því hvernig mætti bregðast við eða takast á við þá stöðu sem upp var komin. Þetta var tröllvaxið verkefni þar sem nánast allt fjármálakerfi landsins hafði hrunið. Flest fyrirtæki voru í miklum vandræðum og heimilin líka. Króna var nánast sokkin.  Blessunarlega lenti þjóðin á fótunum eftir þetta sem enginn gat þó séð fyrir í byrjun. Engir góðir kostir blöstu við í neinum málum. Velja þurfti eftir því hvað mönnum sýndist skást um og var ekki alltaf af mörgu að taka.“ Gylfi kveðst vera persónulega reynslunni ríkari eftir þetta og að skilningur hafi aukist hvernig megi mæta svona krísu. „Vonandi verður hægt að nýta þá reynslu til að koma í veg fyrir að eitthvað svipað gerist aftur. Ef við lendum aftur í krísu sem við getum gert þá eigum við að geta spilað betur úr því. Eða eins vel og hægt er.“

Ríkisráðsfundur 10. maí 2009. Talið frá vinstri: Árni Páll Árnason, Jón Bjarnason, Gylfi Magnússon, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Steingrímur J. Sigfússon, Kristján L. Möller, Katrín Jakobsdóttir, Ragna Árnadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Ragnhildur Arnljótsdóttir ríkisráðsritari. Í þessari ríkisstjórn sátu tveir ráðherrar án þingsetu. Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir núverandi skrifstofustjóri Alþingis.

Ég er í brattari hópnum

Ef við snúum okkur að nú­­tímanum og framtíðinni virðast skoðanir skiptar. Sumir segja að allt sá á leið á vonar völ en aðrir eru brattari. Sjá ljós við enda brautar­innar. Gylfi kveðst vera í brattari hópnum. Ákveðnar áskoranir séu fyrir hendi. Sjá megi fyrir endann á sumum þeirra. „Kóvíd faraldurinn lék okkur grátt. Þótt margt væri með öðrum hætti heldur en fjármálakrísan. Ferðaþjónusta lamaðist og lagðist nær af. Fólk þurfti að vera heima. Vinna heima sem það gátu sem hafði bæði andleg og félagsleg áhrif en líka efnahagsleg áhrif. Áhrif faraldursins eru ef til vill ekki komin fram að öllu leiti. Til dæmis áhrif hans á fólk sem var í skóla og fékk menntun með þeim leiðum sem fundnar voru þegar fólk gat ekki komið saman. Námið sjálf gat komist til skila en fólk missti af þeim félags­lega þroska sem fylgir skólagöngu og skólavist. Frímínúturn­ar og félags­lífið skipta miklu máli. Stundum lærir fólk meira af að tala við nemendur í frímínútum en af því að sitja í kennslustundum. Samtalið fór að miklu leyti forgörðum á þeim tíma sem við vorum bundin af þeim takmörkunum sem faraldurinn olli.“ 

Vinnuumhverfi hefur breyst

Talið berst að því hvort ein af áhrifum faraldursins séu ákveðnar breytingar á vinnuumhverfi. Fólk sé ekki eins staðbundið við ákveðinn vinnustað. Geti unnið að heiman ef það hentar eða jafnvel frá öðrum stöðum. Umhverfi á vinnustöðum sé að breytast og ein afleiðing þess að vinnurými nýtist betur. Gylfi segir að ef til verði atvinnulífið aldrei eins og það var sem geti verið af hinu góða. „Eitt af því eru fundir sem margir stjórnendur og skrifstofufólk hefur jafnan setið kalli ekki á eins mikil ferðalög. Þau taka tíma. Akstur á milli staða og leit að bílastæðum. Ég tala nú ekki um ef fundarhöld fara fram í öðrum löndum. Þá bætast við ferðir til og frá flug­völlum, biðtími í flugstöðvum og síðan sjálfar flugferðirnar. Í slíkar ferðir fer oft mun meiri tími en í fundina sjálfa. Ég tel því að það geti verið af hinu góða að nýta þá samskiptamáta sem við neyddumst til að nota í far­aldrinum. En það verður að vera einhver skynsamleg blanda því það skiptir líka máli að hitta fólk augliti til augliti. Þau samskipti sem eru í gegnum skjáinn geta verið góð upp að ákveðnu marki. En það er oft auðveldara að ná sambandi þannig ef maður hefur hitt fólkið áður í eigin persónu. Það myndast önnur tengsl.“ Gylfi segir að sama gildi um skólana. Hann bendir á að innan Háskólans hafi verið ákveðið að fara aftur í staðbundna kennslu. „Engu að síður verður trúlega áfram stuðst við rafræn samskipti að einhverju leyti og vonandi verður það til þess að bæta kennsluna en það á eftir að koma betri reynsla á það fyrirkomulag. Það tekur smá tíma að fóta sig í nýjum veruleika. En hvað félagslegu hliðina varðar þá hefur fjarvinnslan ókosti hvort sem um nám eða störf er að ræða. Maður kynnist engum með því að vera í náttfötum að horfa á tölvuskjáinn.“  

Við megum ekki búast við svartnætti

„Ég er bjartsýnn. Þótt við séum ekki búin að vinda endanlega ofan af því sem varð til í faraldrinum en ég tel að við sjáum fyrir endann á því. Auðvitað geta ný áföll komið til. Heimsbyggðin er að kljást við afleiðingar stríðsins í Úkraínu. Áhrif þess ná hingað þótt við séum blessunarlega laus við sjálf átökin. Með fyrirvara um að það leynist ekki dökkar horfur framundan í heimsbúskapnum og þar á meðal á Íslandi. Við erum hins vegar að fara í gegnum smá skafl hvað verðbólguna varðar. Við erum ekki ein um þann vanda. Hann er til staðar bæði vestan hafs og austan og mörg ríki berjast við að halda henni niðri. Þetta er ekkert skemmtilegt viðfangsefni en vel þekki og á að vera leysanlegt. Ég minnist óðaverðbólgunnar sem fór hæst á árunum 1983 og 1984. Það er langsótt að við förum aftur í slíkt ástand. Við erum hins vegar ekki búin að komast út úr þessum skafli. En ég vil vona að við ráðum við þetta og væri verulega slæmt ef við misstum algerlega tökin á henni. Með hóflegri bjartsýni að leiðarljósi vil ég vona að það verði fljótgert án þess að úr því verði kreppu­ástand með tilheyrandi látum á vinnumarkaði. Þetta er allt innan þeirra marka sem eru leysanleg. Við megum ekki búast við svartnætti.

Krónan hefur bæði kosti og galla

Talið best að krónunni sem er umdeild í samfélaginu. Gylfi segir hana bæði hafa kosti og galla. Hann segir erfitt að sá betri kost í stöðunni eins og hún er núna. „Við verðum að halda vel utan um krónuna en auðvitað eigum við aðra kosti til lengri tíma. Í því efni er fyrst og fremst horft til Evrunnar. En það er engin góð leið til að taka hana upp önnur en að ganga í Evrópu­sambandið. Innganga í það er ekki í sjónmáli og kannski förum við aldrei þangað. En á meðan við getum það ekki er tæpast til önnur leið en að vera með krónuna.“ Gylfi segir að hægt sé að vera með eigin krónu með öðrum hætti en við erum með í dag. „Það væri hægt með því að festa gengi hennar við einhverja vísitölu, dönsku krónuna eða Evruna sem væri í raun það sama. Fastgengið hefur bæði kosti og galla.

Lífskjör batna ekki og fólk er ósátt

Gylfi kveðst alltaf hafa gætt sín á að dragast ekki inn í pólitísk átök. Hann segir að mikið rót hafi verið í stjórnmálum á undan­förnum árum. Eiginlega alveg frá því að hrunið varð. „Þetta er svipað og við sjáum í sumum nágrannalanda okkar. Fólk er ósátt. Það á sér að hluta til hagrænar skýringar. Í mörgum löndum hefur fólk vanist því að lífskjör bötnuðu tiltölulega hratt. Voru betri frá einni kynslóð til þeirrar næstu. Á 21. öldinni hefur lægt mjög á þeirri þróun. Í Banda­ríkjunum hafa lífskjör ekki batnað að neinu ráði á milli kynslóða. Sumir eru jafnvel að upplifa verri lífskjör en kynslóð foreldra þeirra hafa búið við. Þetta skapar gremju sem hefur áhrif í stjórnmálunum. Fólk er skiljanlega að leita að þeim sem það telur að geti leysi þessi vandamál. Þessi viðleitni hefur fært fólk meira út á jaðrana í pólitík. Til beggja átta. Við sjáum þetta í Evrópu og einnig í Bandaríkjunum þar sem öfl sem við teljum nánast vera öfgahópa eru orðin áberandi í þjóðmála­umræðunni. Þau hafa komið fyrir hófsamari öfl. Þetta hefur blessunar­lega ekki birst hér með sama hætti og sums staðar í Evrópu. Í Ungverjalandi og jafnvel í Póllandi sem dæmi séu nefnd. Þarna hafa öfl komist til valda sem ekki eru hefðbundin evrópsk lýðræðisleg stjórnmálaöfl. Sums staðar er mjög tvísýnt hvort lýðræðisöflin hafa betur eða ekki.“ Gylfi nefnir nýlega afstaðnar forsetakosningar í Tékklandi. „Þar munaði mjóu að þau héldu velli. Þegar fólki finnst að sér vegið verður óánægja.“

You may also like...