Flottir unglingar í frístundamiðstöðinni Frostaskjóli
Unglingarnir í frístundamiðstöðinni Frostaskjóli hafa haft í nógu að snúast undanfarna mánuði. Félagsmiðstöðvarnar Frosti og Hofið tóku virkan þátt í Samfestingnum 2016 sem Samfés, samtök félagsmiðstöðva á Íslandi standa fyrir. Frosti átti þar flotta fulltrúa í söngkeppni Samfés, tækniráði Samfestingsins og borðtennismóti Samfés.
Í mars hélt félagsmiðstöðin Frosti Dodgeballmót í sal Hagaskóla og skemmtu þátttakendur sér konunglega þó hart væri barist. Föstudaginn 8. apríl hélt félagsmiðstöðin Hofið glæsilega árshátíð ásamt öðrum sértækum félagsmiðstöðvum í Reykjavík. Góð mæting var á skemmtunina þar sem boðið var upp á veislumat auk þess sem börnin og unglingarnir dönsuðu og léku sér. Alda Dís sigurvegari í Ísland got Talent 2015 kom og söng nokkur vel valin lög við góðar undirtektir. Um miðjan apríl stóðu félagsmiðstöðvarnar Frosti og Hofið auk Ungmennaráðs Vesturbæjar fyrir fjölbreyttum viðburðum í tengslum við Barnamenningarhátíð. Ungmennaráðið stóð fyrir ungmennaþinginu Stelpur til framtíðar í Ráðhúsi Reykjavíkur, Hofið opnaði ljósmyndasýningu á Sjóminjasafninu og Frosti bauð upp á listviðburðinn Open Art. Þessa dagana eru unglingarnir í hjólabrettaklúbb Frosta á fullu að undirbúa hjólabrettamótið Skötuveisluna sem haldið verður á Ingólfstorgi þann 27. maí og má búast við miklu fjöri í kringum það. Með hækkandi sól færist starfsemi félagsmiðstöðvanna meira út í ferska loftið og því eru skemmtilegir tímar framundan hjá unglingunum okkar á næstu mánuðum.