Fólk spyr enn um gömlu Dairy Queen-ísbúðina

— segir Sigurður Ragnarsson verslunarstjóri Krambúðarinnar við Hjarðarhaga —

Sigurður Ragnarsson, 39 ára verslunarstjóri Krambúðarinnar við Hjarðarhaga.

„Ég kynntist ekki þessari ísbúð en það er gaman að rifja upp sögur af henni því ennþá koma einstaka manneskjur hér inn og spyrja um gömlu Dairy Queen-ísbúðina,“ segir Sigurður Ragnarsson, 39 ára verslunarstjóri Krambúðarinnar við Hjarðarhaga. „En það er alltaf hægt að fá ís hjá okkur,“ bætir hann við brosandi.

Það hefur verið sterkur verslunar­kjarni við Hjarðarhagann í áratugi. Ísbúðin sem um er rætt er gamla Dairy Queen-ísbúðin sem var um árabil við hliðina á gömlu Hagabúðinni þar sem Krambúðin er núna. Dairy Queen í Aðalstrætinu var flaggskipið en Hjarðarhaginn átti sína kúnna og var hluti af rúntinum. Það eru áratugir síðan.

Í verslunarstörfum frá 16 ára aldri

Sigurður hefur verið með annan fótinn í verslunarstörfum frá 16 ára aldri og verið verslunarstjóri í Krambúðinni við Hjarðarhaga í um fimm ár. Hann hóf ferilinn í 10-11 við Staðarbergið í Hafnarfirði og fór á milli búða. Árið 2018 urðu vistaskipti þegar hann hóf störf hjá Samkaupum sem verslunarstjóri Krambúðarinnar við Hjarðarhaga.

Hann ólst upp í Vestmannaeyjum til sex ára aldurs og lítur enn á sig sem Eyjapeyja sem heldur með ÍBV. Hann á skyldmenni í Eyjum, amma hans býr þar sem og systkini móður hans – nema eitt þeirra sem býr í Danmörku.

Ólst upp í Eyjum – en Melaskólinn fyrsti skólinn

Þrátt fyrir Eyjatengslin er Sigurður á vissan hátt kominn á bernskuslóðir sínar í Vesturbænum. „Þegar pabbi hóf nám í háskólanum fluttumst við hingað og ég var í Melaskólanum í fjögur ár. Eftir það fluttum við til Hafnarfjarðar þar sem ég bjó öll unglingsárin og gott betur. Hér í Krambúðinni við Hjarðarhaga er ég því á slóðum æskuminninganna og fer fram hjá Melaskólanum á hverjum degi.“

Sigurður segir að sumarið hafi verið mjög gott. „Þetta hefur verið mjög fínt enda alveg ótrúlega gott veður megnið af sumrinu. Gott veður lífgar alltaf upp á alla verslun því fólk er meira á ferðinni og kaupir oftar inn.“

Dyggir viðskiptavinir Krambúðarinnar

Það er minna um erlenda ferða­menn í Kram­búðinni við Hjarðar­haga en í mörgum öðrum Kram­búðum. „Við erum fyrir utan miðbæinn og ekki alveg í leiðinni fyrir hinn hefðbundna erlenda túrista. Þetta er fyrst og fremst hverfisverslun með mjög dygga og trausta viðskiptavini sem koma daglega og maður hefur afgreitt lengi. En auðvitað sjáum við ný andlit á hverjum degi; sérstaklega yfir sumarið.“ 

Þrjár sprengjur yfir daginn

Yfir vetrartímann setja skólarnir svip á verslunina en tveir grunnskólar eru í hverfinu; Hagaskóli og Melaskóli. Hagaskólakrakkarnir hafa alltaf verið duglegir að sækja búðina heim. „Það er hægt að tala um þrjár sprengjur yfir daginn; tíu-frímínútur á morgnana, hádegishléið og svo eftir skóla. Seinni partinn er það svo hin hefðbundna síðdegistraffík í versluninni.“

Hann segir að fjöldinn allur af tilboðum hafi verið hjá þeim í sumar. Sömu tilboðin eru í grunninn í hverjum mánuði í öllum Kram­búðum. „En við fáum svigrúm til að meta aðstæður og stilla fram vörum sem við teljum að sé eftirspurn eftir hverju sinni – og það þarf engan veginn að vera það sama í öllum búðum enda kúnnahópurinn oft misjafn.“

Bakað stanslaust frá átta til þrjú

Bakaríið í Krambúðinni er mjög vinsælt og það er bakað stanslaust frá klukkan átta til þrjú á daginn. „Við seljum mikið af bakkelsi og úrvalið er alltaf að aukast. Við fáum allt forbakað og hitum upp hér á staðnum. Eftir sumarfrí í ágúst tókum við til dæmis upp nýjar tegundir af kleinuhringjum og heitum samlokum sem slegið hafa í gegn, enda á fínu verði, matarmiklar og því vinsælar.“

Starf með skóla varð ævistarfið

Eftir árin í Vesturbænum og í Melaskólanum lá leiðin til Hafnarfjarðar þegar hann var tíu ára. „Hafnarfjörður er einstakur bær en ég tel mig samt meiri Eyjamann en Hafnfirðing. Ég fór í Flensborgarskólann og það var einmitt þar sem ég leitaði mér að vinnu með skólanum, eins og gengur, og úr varð starf í 10-11 við Staðarbergið þar sem núna er verslunin Iceland. Þetta reyndist stærra skref en ég hélt því verslunarstörf hafa verið starfsvettvangur minn nær óslitið síðan.“

Sigurður segist ekki hafa verið mikið í íþróttum þótt hann fylgist mjög vel með sumum þeirra. „Ég spriklaði um tíma í marki og hafði gaman af en áttaði mig fljótlega á að ég yrði ekki atvinnumaður í faginu. Ég fylgist hins vegar mjög vel með fótbolta.“

Eyjapeyi og þjóðhátíð

En hvernig var að alast upp í Eyjum til sex ára aldurs? „Það var mjög fínt. Mikið frelsi sem við krakkarnir höfðum og gátum ærslast. Uppátækin voru ekki alltaf vinsæl og ég man enn þegar við vorum skömmuð hressilega fyrir að klifra í fiskinetum,“ segir hann og hlær.

En Eyjapeyi og þjóðhátíð í Eyjum hljóta að fara saman – ekki satt? „Jú, ég fór sem barn með foreldrum mínum á þjóðhátíð yfir daginn og kom við í hvítu tjöldunum. Svo þegar maður hafði aldur til varð þetta meira djamm og heimsóknir til skyldmenna. Þjóðhátíð í Eyjum stendur alltaf fyrir sínu.“

Rigndi niður á Hróarskelduhátíð

Tónlist og tónleikar eru eitt helsta áhugamál Sigurðar. Eftirminnilega tónleika erlendis segir hann hafa verið Hróarskelduhátíðina árin 2006 og 2007. „Það var dúndrandi sól og blíða fyrra árið og svo mætti maður árið eftir nánast á „sandölum og ermalausum bol“, eins og segir í laginu. En þá gerði mestu rigningu í manna minnum. Þarna fuku og rigndi niður tjöld fyrstu nóttina. Þetta var svakalegt en tók á sig ævintýrablæ eftir á, eins og oft vill verða.“

Samskipti við fólk það besta við starfið

En verslunin er komin á fullt skrið eftir annars líflegt sumar við Hjarðarhagann með tilheyrandi skorpum og rabbi við viðskiptavinina. „Hér hef ég kynnst mörgum viðskiptavinum og geri mér far um að spjalla stuttlega við þá í leiðinni þegar þeir koma. Það er nú einu sinni svo að samskiptin við viðskiptavini og starfsfólk eru skemmtilegasti hlutinn af verslunarstarfinu,“ segir Sigurður Ragnarsson.

Krambúðin við Hjarðarhaga. 

You may also like...