Tekist á um reikninga bæjarsjóðs

Tekist var á um reikninga bæjarsjóðs á fundi bæjarstjórnar 27. apríl sl. Alls varð 566 milljóna króna halli á A-hluta rekstri Seltjarnarness árið 2021. Þetta kom fram á bæjarstjórnarfundi miðviku­daginn 27. Karl Pétur Jónssonar, bæjarfulltrúa Viðreisnar sagði að uppsafnaður halli 2015 til 2021 1.540 milljónir. Skuldir hafi frá 2013 vaxið úr 1,5 milljörðum í 6,1 milljarð.

Í bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar­innar segir m.a. að niðurstaða bæjarsjóðs sé 566 milljón króna tap sem er ein versta niðurstaða í sögu sveitar­félagsins og þarf að fara aftur til bankahrunsins til að finna ársreikning sem skilar jafn háu tapi og árið 2021 gerir. Það vonda við stöðuna núna er það að þessi sögulega lélegi ársreikningur kemur í kjölfarið á fjögurra ára tímabili hallareksturs A sjóðs sem nú hefur safnast upp í 1400 milljónir króna á fimm ára tímabili. Þetta þýðir að það eru ekki til peningar til að mæta þjónustukröfum íbúa, sinna viðhaldi eða sækja fram við að búa til betri bæ fyrir börnin okkar og okkur öll. Rétt að taka fram að 438 milljónir af rekstrarhalla bæjarsjóðs er breyting á lífeyrisskuldbindingu þar sem búið er að endurreikna af tryggingastærðfræðingum hvað áætlað er að bærinn muni þurfa greiða í lífeyrisgreiðslur á næstu árum. Þetta eru upphæðir sem við munum þurfa greiða en við höfum litla sem enga stjórn á.

Útsvarshækkunin dugar ekki til að loka rekstrargati

Rekstrarniðurstaða fyrir breytingu á lífeyrisskuldbindingu er 128 milljónir. Áhugavert er að setja þá upphæð í samhengi við umræðuna síðastliðið haust þar bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæltu útsvarshækkunar úr 13,7% upp í 14,09%. Hækkun sem nemur 390 krónur á hverjar 100.000 krónur sem íbúi á Seltjarnarnesi er með í laun en skilar um 100 milljónum í bæjarsjóð. Sú hækkun dugar ekki einu sinni til að loka því rekstrargati sem Sjálfstæðismenn skilja eftir sig þegar búið er að draga 438 milljóna tap frá raunverulegri rekstrarniðurstöðu bæjarins. 

Traust fjárhagsstaða og bjartir tímar

Í bókun meirihluta bæjarstjórnar kveður við annan tón. Þar segir að traust fjárhagsstaða og bjart­ir tímar séu framundan á Nesinu. Grunnrekstur styrktist um 135 milljónir milli ára. Rekstur A hluta bæjarins fyrir afskriftir og fjármagnsliði skilaði 82 m.kr. afgangi samanborið við 53 m.kr. halla árið 2020. Er þetta bati upp á 135 m.kr. Þá er grunn­reksturinn 129 m.kr. betri en áætlanir fyrir 2021 gerðu ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða af A sjóði fyrir breytingu á lífeyrisskuldbindingu er halli upp á 128 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 194 m.kr. hallarekstri vegna yfirstandandi Covid faraldurs sem nú sér loks fyrir endann á. Betri rekstrarniðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir skýrist af hærri tekjum, einkum útsvarstekjum sem voru 200 m.kr. yfir áætlun. Skatttekjur A hluta námu 3.615 m.kr. og hækkuðu um 6,2% frá síðasta ári. Laun og launatengd gjöld námu um 2.823 m.kr. og hækkuðu um 2,5%. Annar rekstrarkostnaður var töluvert hærri en áætlun gerði ráð fyrir, nam 1.799 m.kr. og hækkaði um tæp 8,6%. Skýrist kostnaður umfram áætlun að miklu leyti af aðgerðum vegna Covid faraldursins og má þar nefna m.a. lokun sundlaugar, aukin þrif og launakostnað. Veruleg hækkun lífeyrisskuld­bindinga skýrir neikvæða rekstrarniðurstöðu.

You may also like...