Þjónustusamningur við Ás styrktarfélag undirritaður

Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar og Þóra Þórarins­dóttir framkvæmdastjóri Ás.

Þann 1. mars sl. skrifuðu Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarnes­bæjar og Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Ás styrktarfélags undir þjónustusamning um sértæka búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk að Kirkjubraut 20 á Seltjarnarnesi.

Um er að ræða þjónustu í 6 einstaklingsíbúðum fyrir fatlað fólk með bestu mögulegu þjónustu í sértækri búsetu sem tök eru á að veita á hverjum tíma. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu sem stuðlar að sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Hugmyndafræðin á heimilum Áss byggir á Samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ásamt lögum um þjónustu við fatlað fólk og reglugerðum sem sett eru með þeim lögum. Einnig mótar stefna og gildi Áss styrktarfélags starfið.

Ás styrktarfélag er félag með þjónustu við fatlað fólk og hefur í gegnum árin komið á fót umfangsmiklum rekstri. Þá hefur félagið notið velvilja og hafa einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki átt drjúgan þátt í að styðja félagið til vaxtar. Í dag veitir Ás styrktarfélag hátt á fjórða hundrað manns þjónustu í formi búsetu, dagþjónustu og vinnu. Starfsmenn félagsins eru um 560 í rúmlega 200 stöðugildum.

Það er mikið gleðiefni að þessum áfanga í ferlinu hafi nú verið náð en búið er að úthluta öllum 6 íbúðunum í búsetuþjónustunni á Seltjarnarnesi og er áætlað að fyrstu íbúar flytji inn um miðjan apríl næstkomandi.

You may also like...