Skildinganes – höfuðból frá fornu fari
Skildinganes er höfuðból frá fornu fari. Í máldögum má meðal annars sjá þá kvöð sem lögréttumenn sem bjuggu þar höfðu um að ferja fyrirfólk yfir til Bessastaða. Í Skildinganesi bjuggu lengi öflugir bændur og athafnamenn fluttust þangað. Í dag er þar íbúðabyggð en Reynistaðabæirnir standa enn og er viðhaldið sem íbúðarhúsum. Þeir Oddur Helgason ættfræðingur og Pétur Pétursson guðfræðingur hafa lagt sig eftir að kanna sögu Skildinganessins og þeirra ætta sem hafa byggt nesið að fornu enda tengjast þeir báðir Skildinganesi að fornu og nýju. Vesturbæjarblaðið hitti þá í ættfræðisetri Odds ORG ættfræðiþjónustu á dögunum. Ættfræðiþjónustan hefur aðsetur við Skerjafjörðinn og Pétur búsetu á Lambhóli sunnan Ægisíðunnar og þannig tengjast þeir báðir þessu svæði í nútímanum.
Pétur telur að nöfnin Lambhóll og Nauthóll tengist veðurfari og beit. Á fráfærutímum hafi lömbum verið beitt við Skerjafjörðinn og þau fundið sér skjól þar sem Lambhóll stendur. Hann kveðst oft hafa veitt því athygli að Lambhóll standi i veðurfarslegu skjóli sem skýrist trúlega af hafstraumum og sjávarbotni, hvernig straumarnir brotna á grynningunum og hafa áhrif á vindafar því oft sé mun minni vindur við Lambhól en austan við hann og vestan. Lömbin hafi fundið þetta skjól og valið staðinn til þess að hama sig og af því sé Lambhólsnafnið dregið. Nautgripum bænda hafi á hinn bóginn verið beitt hinu megin við Vatnsmýrina og Nauthólsnafnið sé þaðan komið. „Ég get séð fyrir mér að þegar Skildinganesbændur komu út á hlað og horfðu yfir búsmalann sem var dreifður um allar grundir eða þá að hama sig gegn veðrum og vindum og nautin hafi hamað sig við Nauthólinn. Svo er talað um hengingarklett þar sem afbrotamönnum á að hafa verið hrint fram af klettabrúninni.“
Skildinganes á 16. öld
Þeir Pétur og Oddur sem báðir eru af Skildinganesætt hinni eldri benda á að Skildinganess sé fyrst getið í bréfi frá árinu 1523 en menn séu ekki á eitt sáttir um áreiðanleika þess bréfs. Með konungsbréfi frá árinu 1553 var skólameistaranum í Skálholti lagðar til níu jarðir og var Skildinganes ein þeirra sem þýðir að þá hafi verið búið á Nesinu. Þremur árum síðar 1556 kom Knútur Zimzen hirðstjóri til Íslands með erindisbréf um upptöku Skálholtsjarða á Álftanesi og á Seltjarnarnesi en Skerjafjörðurinn var hluti Seltjarnarness á þeim tíma og hefur því fylgt með í upptökunni og farið undir konung. Þeir Oddur og Pétur segja að þrátt fyrir gömul bréf sé ekki vitað með vissu hvenær byggð hófst á Skildinganesi. Árið 1553 er Skildinganes talin sjálfstæð jörð og í eigu Skálholtsstóls en þó talin með Reykjavíkurlandi og allt fram til 1787 að Reykjavík hlaut kaupstaðarréttindi. Árið 1600 eru fyrstu heimildir um ábúanda í Skildinganesi að nafni Thumás Jónsson þótt annað sé ekki vitað um þann einstakling. Árið 1642 skoðaði Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup Reykjavíkurkirkju og í greinargerð hans að förinni lokinni segir að jarðirnar Skildinganes, Örfirisey, Hlíðarhús, Arnarhóll og Vík með seli og séu allar konungseign nema Hlíðarhús. Í vitnisburðum frá 1500 til 1650 er Skildinganes talið með Reykjavíkurlandi en nokkurs ruglings gætir þar og byggist hann að einhverju leyti á staðsetningu örnefna. Í Jarðabók Árna Magnússonar frá 1703 er sagt frá tveimur bæjum; Austurbæ og Vesturbæ í Skildinganesi. Austurbærinn var síðar rifinn en skammt fyrir neðan bæjarstæðið stendur Reynistaður.
Hafnargerð reynd í tvígang
Skildinganes heyrði undir Seltjarnarneshrepp til ársins 1932 er það var innlimað inn í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Pétur og Oddur benda á að nokkur umræða hafði orðið á fyrsta og öðrum áratug 20. aldarinnar um að leggja Skildinganes undir Reykjavík og meðal annars verið lögð fram lagafrumvörp þess efnis þótt þau næðu ekki fram að ganga. Einnig komu upp hugmyndir um höfn í Skerjafirði. Skömmu eftir aldamótin 1900 stofnuðu nokkrir eigendur Skildinganesjarðarinnar hlutafélagið Höfn í þeim tilgangi og var frumvarp um hafnargerð í Skerjafirði lagt fram árið 1907 á Alþingi en náði ekki fram að ganga. Nokkrum árum síðar kom Einar Benediktsson skáld fram á sjónarsviðið með hafnargerð í Skerjafirði. Hlutafélag sem hann var viðriðinn The Harbours and Piers Association Ltd. festi þá kaup á því landi sem Höfn hafði ætlað til hafnargerðar. Farið var af stað með hafnargerðina en ákvörðun bæjarstjórnar um að gera höfn norðan við miðbæinn, sem í dag er gamla höfnin í Reykjavík breytti áformum Einars og upphaf heimsstyrjaldarinnar frá 1914 til 1918 kom þar einnig við sögu og lögðust áform um Skerjafjarðarhöfn þá alfarið af.
Sundskáli við Þormóðsstaðavör
Jörðin á nesinu var nefnd Skildinganes og þorpið sem byggðist smám saman úr landi hennar var upphaflega nefnt Skildinganesþorp. Síðar var farið að kenna byggðina við fjörðinn sjálfan. Samúel Eggertsson teiknari vann uppdrátt af Skerjafjarðarbyggðinni árið 1913. Á teikningunni má sjá Þormóðsstaði og Þormóðsstaðavör þar undan. Skammt austan við Þormóðsstaðavör er Sundskálavík sem talin er draga nafn sitt af sundskála sem þar var byggður.
Eggert Classen kemur til sögunnar
Eggert Classen festi kaup á stórum hluta Skildinganesjarðarinnar snemma á þriðja áratug liðinnar aldar. Þá voru tvö hús á jörðinni. Annað þeirra var gamli Vesturbærinn en hitt var hlaðið hús sem ekki er til fulls vitað hvenær var byggt en talið það hafa verið eftir 1870. Eggert lét endurbæta húsið, setja kvist á það og byggja við það inngönguskúr en auk þess lét hann byggja við það á þrjá vegu og gera á því endurbætur. Þessum breytingum mun hafa verið lokið árið 1924 en þá flutti Eggert í húsið ásamt fjölskyldu sinni. Hann skýrði húsið svo upp og nefndi það Reynistað eftir Reynistað í Skagafirði þaðan sem hann átti ættir að rekja. Húsið stendur enn og ber nú númerið 15 við Skildinganes. Þar býr nú Eggert Benedikt Guðmundsson framkvæmdastjóri sonur Guðmundar Benediktssonar fyrrum ráðuneytisstjóra og Kristínar Classen. Systir Eggerts er séra Sólveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum.
Flugvallarvegur skiptir Skerjafirði
Áhrifa síðari heimsstyrjaldarinnar gætir vel í Skerjafirði enda urðu miklar breytingar á byggð þar með hersetunni. Bretar ákváðu að byggja herflugvöll í Vatnsmýrinni árið 1940 þann flugvöll sem nú er Reykjavíkurflugvöllur. Vegna flugvallargerðarinnar þurfti að flytja nokkuð af húsum og breyta götulögnum. Hluti byggðarinnar í Skerjafirði var skorin frá með gatnagerð af Suðurgötu að flugvallarsvæðinu og hefur sá hluti verið kallaður Litli Skerjafjörður síðan en byggðin við sjávarsíðuna Stóri Skerjafjörður eða Skerjafjörður. Þar var ekki fyrr en árið 1959 að samþykktur var skipulagsuppdráttur af svæðinu á milli Bauganess og sjávar. Nýjar götur urðu til og meðal annars vegna sóknar í einbýlishúsalóðir í nánd við miðborgina varð Skerjafjörðurinn eftirsóknarverður. Í dag eru um 150 íbúðarhús í Stóra Skerjafirði og íbúar Skerjafjarðar eru rúmlega 700.