Byggingarsaga þess er einstök

Breidholtskjor 1

Breiðholtskjör var ein fyrsta verslunin í hinu nýja Breiðholti. Þannig var umhorfs við Arnarbakkann undir lok sjöunda áratugarins.

Breiðholtið er hálfrar aldar gamalt. Fyrir um 50 árum fóru fyrstu húsin að rísa í Neðra Breiðholti – fyrst í Stekkum og skömmu síðar í Bökkunum. Þá lágu tveir niðurgrafnir malarslóðar upp í Breiðholtið. Við þann austari var skilti sem á stóð Stekkur. Við hinn var merkið Bakkar. Aðdragandinn að byggingu Breiðholtsins var ekki langur en sérstæður í meira lagi ef miðað er við þá þróun sem uppbygging og vöxtur Reykjavíkur hafði farið eftir. Að baki ákvörðunum um byggingu Breiðholtsins lágu mjög pólitískar ákvarðanir og ekki síður voru stigin skref á milli andstæðra stjórnmálafylkinga að tjaldabaki.

Upphafið að byggingu Breiðholtsins liggur í svonefndi júnísamkomulagi sem gert var á milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda snemmsumars árið 1964. Samkomulagið fólst í að gerðar voru margvíslegar félagslegar umbætur í stað beinna launahækkana og mótaði þetta samkomulag ákveðin tímamót í samskiptum þessara hreyfinga sem oft höfðu verið erfið til þessa tíma. Þessi aðferðafræði var að nokkru sótt til Norðurlandanna þar sem stjórnvöld höfðu unnið að því að koma á sögulegum sáttum til þess að tryggja vinnufrið en fá einnig frjálsari hendur við uppbyggingu velferðarkerfis þar á meðal félagslegs húsnæðiskerfis.

Finnbogi Rútur, Guðmundur Joð, Jóhannes Nordal, Styrmir og Bjarni Ben

Ári síðar 1965 var farið að láta reyna á stoðir þessa samkomulags. Þessu er nokkuð lýst í ævisögu Guðmundar J. Guðmundssonar sem þá var varaformaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Guðmundur J. lýsir í bókinni hvernig Finnbogi Rútur Valdimarsson bæjarstjóri í Kópavogi og bróðir Hannibals Valdimarssonar sem þá var forseti Alþýðusambands Íslands lagði fyrstur manna fram hugmyndir um byggingu stórs íbúðahverfis utan hinnar eiginlegu byggðar í Reykjavík sem framlag til lausnar erfiðri kjaradeilu. Kveður Guðmundur J. Finnboga Rút hafa rætt þetta ýtarlega við sig og í framhaldi af því hafi þeir sett sig í samband við Jóhannes Nordal sem þá gegndi stöðu seðlabankastjóra og reynt að fá hann til liðs við þessar hugmyndir. Á þessum tíma var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks – viðreisnarstjórnin við völd og hafði verkalýðshreyfinguna að miklu leyti gegn sér þar sem hún laut forystu Alþýðubandalagsins sem var í stjórnarandstöðu. Samkvæmt frásögu Guðmundar J. bárust fregnir af þessum hugmyndum eftir krókaleiðum til Bjarna Benediktssonar þáverandi forsætisráðherra. Taldi Guðmundur J. að Finnbogi Rútur hafi fengið tengdason sinn Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins til þess að fara á fund Bjarna en Styrmir var innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokknum. Hvað sem því liður boðaði Bjarni Guðmund J. til sín í stjórnarráðið til viðræðu um málið.

Jarðýtur á þessi ömurlegu hreysi

Þessar þeytingar leiddu af sér viðræður verkalýðsforystunnar, atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar og var sérstök yfirlýsing Viðreisnarstjórnarinnar um aðgerðir í húsnæðismálum láglaunafólks, sem gefin var út í júlímánuði 1965. Hún fól í sér að byggja 250 íbúðir á ári á næstu fimm árum samtals 1250 íbúðir. Sérstakri nefnd var komið á fót vegna framkvæmdanna sem var kölluð Framkvæmdanefnd bygg-ingaráætlunar. Það tókst að ná þessu 1250 takmarki þótt það tæki aðeins lengri tíma en alls urðu íbúðir í Breiðholtinu öllu um 7600, þannig að sá hluti sem Framkvæmdanefndin stóð fyrir að byggja er býsna stór hluti alls hverfisins. Guðmundur J. lýsir þessu svo í ævisögu sinni að með þessum byggingum hafi Höfðaborgin verið rifin en hún var heilsuspillandi húsaþyrping þar sem Borgartúnið er nú auk þess sem bröggunum og skúra- og saggadraslinu var útrýmt. Það voru einfaldlega settar jarðýtur á þessi ömurlegu hreysi og húsaleiga í Reykjavík stórlækkaði. Ekki var að spyrja að orðfæri verkalýðsforingjans en nauðsynlegt er að hafa í huga fyrir hvaða húsnæði Breiðholtsblokkirnar komu í staðinn fyrir og hvaða efnahagsforsendur lágu að baki því að unnt var fyrir nær hálfri öld að ráðast í stærra íbúðabyggingarátak en sést hefur fyrr eða síðar á Íslandi. Fyrsti hluti Breiðholtsins eða Neðra – Breiðholt reis milli áranna 1966 og 1973 síðari hverfið frá því um 1970 til 1985. Breiðholt var og er en fjölmennasta svæði í Reykjavík. Það bjuggu rúmlega 22 þúsund íbúar íbúa þegar flest var og búa þar yfir 20 þúsund manns í dag. Enn er byggingarsaga þessa borgarhluta sem er einskonar bær í borginni einstök í sögu byggða á Íslandi. Nú eru malarslóðarnir löngu horfnir og Breiðholtið orðið með grónustu byggðum hér á landi.

Breidholt_109_250_72 001

Ungir menn við byggingavinnu í Breiðholti í kringum 1970.

Storhysi 1

Stórhýsi einkenndu hluta Efra Breiðholtsins og hafa slík hús ekki risið hér á landi – hvorki fyrr eða síðar.

You may also like...