Okkur vantar barna- og unglingabækur

Dröfn Vilhjálmsdóttir bókasafns- og upplýsingafræðingur.

– segir Dröfn Vilhjálmsdóttir bókasafns- og upplýsingafræðingur í Seljaskóla.  –

Dröfn hefur verið að þróa ýmsar nýjungar í starfi bókasafns skólans er einkum miða að því að auka áhuga barna á lestri. Eftir samdrátt í skólastarfinu eftir hrun hafði starfsemi safnsins verið í lágmarki. Þegar Dröfn kom til starfa fyrir fimm árum ákvað hún að snúa þróuninni við og hefur látið hendur standa frama úr ermum. Dröfn er Breiðhyltingur alin upp í Seljahverfinu þegar það var að byggjast, gekk sjálf í Seljaskóla og þekkir bæði skólann og umhverfið mjög vel. Hún er menntuð í heilbrigðisfræði og einnig bókasafns- og upplýsingafræði og segir báðar þessar fræðigreinar koma sér að haldi í núverandi starfi. Dröfn spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.

„Þegar ég kom hingað til starfa hafði enginn fastur starfsmaður verið við skólasafnið í tvö ár og því ekkert annað en uppbyggingarstarf sem mætti mér frá fyrsta degi. Það hafði verið keypt ómarkvisst inn af bókum og krakkarnir gátu alls ekki gengið að safninu vísu því það var bara opið litla stund úr degi. Það fyrsta sem ég ákvað var að hafa safnið alltaf opið og stefndi strax að því að safnið gæti orðið hjarta skólans þangað sem allir væru velkomnir og fyndist gott að vera.“

„Bókaskjóður Seljaskóla“

En hvernig fór hún að því að hæna krakkana að safninu eftir að mörg hver höfðu ekki vanist því að eiga aðgang að hjartanu í skólanum svo notuð séu hennar eigin orð. „Ég fór strax í það að hafa bókasafnstíma fyrir nemendur skólans og jafnframt þróaði ég verkefni og bjó til þemu sem gætu vakið áhuga þeirra. Stærsta verkefnið sem ég setti á fót og lagði mikla áherslu á eru „Bókaskjóður Seljaskóla“. Þarna er um að ræða um 50 skjóður eða pokar með bókum og hlutum tengdum viðkomandi bókum sem nemendur fá lánað heim. Dæmi um þetta er til dæmis matreiðsluskjóða sem hefur að geyma matreiðslubækur, kökuform og fleira. Eða fótboltaskjóðu með fótboltabókum, rauðu og gulu spjaldi, dómaraflautu og línufánum. Ég byrjaði rólega til að sjá hvernig þetta þróaðist. Þetta tók strax vel við sér og ég fór fljótlega að auka við verkefnið. Krakkarnir fengu strax mikinn áhuga og ég fjölgaði skjóðunum jafnt og þétt. Það þarf einnig stöðugt að viðhalda og uppfæra innihald skjóðanna því forsendan fyrir áhuga nemenda er að innihaldið þeirra veki athygli og fái ekki að drabbast niður.“

Heppin að hafa fengið styrki

Dröfn segir að þessar nýjungar hafi kostað peninga. „Við höfum verið svo heppin að hafa fengið styrki til dæmis frá Lionsklúbbnum Fold. Jafnframt hefur foreldrafélagið staðið vel við bakið á bókaskjóðuverkefninu og að auki hafa borist rausnarleg framlög frá einstökum foreldrum. Það er vonandi til marks um að foreldrar séu almennt ánægðir með verkefnið. Bókaskjóðurnar eru liður í að auka læsi barnanna og menningarlæsi fylgir í kjölfarið. Bókaskjóðuverkefnið hefur einnig gefið nemendum kost á að prófa lesbretti og fá þannig textann í rafrænu formi. Það hefur reynst vel og fyrir marga nemendur hefur sú aðferð opnað þeim nýja möguleika í lestri. En til þess að ná árangri og viðhalda lestraráhuga barnanna þurfum við fleiri og fjölbreyttari bækur. Bækurnar eru verkfærin til þess að vinna með og krakkarnir lesa ekki ef bækurnar eru ekki til staðar. Ég var alin upp við bóklestur sem barn en þá var lesturinn líka ein aðal afþreying barna og sú eina sem þau gátu stýrt sjálf. Í dag er orðin mun meiri samkeppni í afþreyingu barna og unglinga. Allt í einu stendur maður frammi fyrir því að lesturinn er orðinn sú afþreying sem mest þarf að hafa fyrir og þar með sú sem börnin gefast stundum upp á, sérstaklega ef þau finna ekki nákvæmlega þær bækur sem höfða til þeirra.“

Frá bókamarkaði í bókasafni Seljaskóla.

Okkur vantar barna- og unglingabækur

Dröfn segir að það vanti sárlega meira af barna- og unglingabókum hér á landi. Við höfum ekki þann sjóð af bókum sem við vildum láta börnin lesa. „Ef við lítum til Noregs þá eru Norðmenn um fimm milljónir en líta engu síður þannig á að þeir séu smáþjóð og tungumálið þeirra norskan geti verið í útrýmingarhættu. Í Noregi koma um 1300 barnabækur út á hverju ári og í Svíþjóð koma út um 2200 barnabækur árlega en hér á landi eru þær aðeins um 200. Af þeim er stór hluti myndabækur fyrir yngstu börnin og einnig fræðibækur. Eftir standa kannski um 40-50 skáldsögur fyrir börn og unglinga á skólaaldri. Þessar bækur höfða til mismunandi aldurshópa og ólíks áhugasviðs barnanna. Þau fara því afar hratt í gegnum þessar fáu bækur sem eru í boði og höfða til þeirra. Það er ekki óalgengt að þau séu búin að lesa allar nýju jólabækurnar í febrúar og spyrja þá gjarnan daglega hvort eitthvað nýtt sé til. Og þá þarf að hryggja þau með því að þau verði að bíða fram í nóvember. Að þurfa að bíða í níu mánuði eftir nýjum bókum virkar ekki sem hvatning í lestri heldur sem bólusetning gegn því að lesa. Sérstaklega í dag þegar börn og unglingar geta kallað fram alla aðra afþreyingu með einum hnappi“

Þarf að þýða mun meira af erlendum bókum

Hvað er þá til ráða. Dröfn segir að til dæmis vanti þýðingar á erlendum bókum. „Það er til mikið af góðum barnabókum bæði norrænum og víðar að en þær eru ekki þýddar yfir á íslensku nema að litlu leyti og notast því ekki til að auka lestraráhuga barna hér á landi sem virkilega þurfa á því að halda að lesa bækur á íslensku. Það þýðir ekkert að búa til lestrarstefnu fyrir skólakerfið ef allt of fáar bækur eru til staðar til að viðhalda áhuga barna á lestri. Að sama skapi þarf að styðja duglega við íslenska rithöfunda sem skrifa fyrir börn og unglinga. Í dag eru engir styrkir eða fé eyrnamerkt barnabókahöfundum til þess að stuðla að aukinni barnabókaútgáfu. Þetta er enn mikilvægara í ljósi þess að afþreyingarefni barna og unglinga í dag er mestmegnis á ensku í gegnum til dæmis streymisveitur og tölvuleiki. Þegar börn komast á skólaaldur þá horfa þau jafnvel aldrei á íslenskt sjónvarp eða sjónvarpsefni sem er talsett eða textað“ Dröfn segir að enskan banki alltaf á hjá krökkunum. Streymið sé stöðugt og krökkunum er því oft tamara að grípa til enskunnar en íslenskunnar. „Ég verð mikið vör við þetta í skólanum, sérstaklega í unglingadeild. Þess vegna er þörfin enn meiri að viðhalda lestrarhæfni barna á íslensku. Og til þess þarf ógrynni af bókum sem hentar börnum á öllum aldri og áhugasviðum þeirra.“

Dröfn hefur verið að tengja bækur og lestur við mat og matarmenningu.

Bókahátíð í Seljaskóla

„Ég reyni að hlusta vel eftir því hvað krakkarnir eru að tala um, hvert sé áhugasvið þeirra. Með því móti er auðveldara að koma til móts við þau með efni sem höfðar til þeirra. Reyndar hryggir það mig alltaf jafnmikið þegar margar þessara bóka eru einungis til á ensku. Ég er jafnframt stöðugt með augun opin fyrir efni á safnið og er sífellt að hugsa um nýjar leiðir til þess að gera safnið eins spennandi og kostur er. Ef krökkunum líður vel á skólasafninu þá er ég fullviss um að það muni skila sér á margvíslegan jákvæðan hátt, þó svo að það mælist ekki endilega á einhverskonar formlegum prófum.“ Hún segir það markmið sitt fyrir hvern og einn nemanda að finna réttu bókina sem verður vonandi til þess að barnið fær áhuga á lestri. Bókina sem kveikir lestraráhugann. Til þess á ná því markmiði er best að nota sem fjölbreyttastar leiðir „Við vorum með sérstaka bókahátíð í Seljaskóla á liðnu hausti. Við lögðum áherslu á að hafa allt undirlagt af bókum og lestri í eina viku. Ég setti upp skiptibókamarkað í safninu þar sem nemendur lögðu inn bækur að heiman og keyptu aðrar í staðin. Þar vorum við með alvöru búðarkassa og eftirlíkingu af peningaseðlum. Auk þess voru allar bækur verðmerktar með alvöru verðmiðum. Krakkarnir unnu sjálf í bókabúðinni. Þar fengu þau ekki aðeins að handfjatla og kynnast allskonar bókum heldur líka að hugleiða verðgildi bókanna. Samtímis voru þau að þjálfa stærðfræði og lífsleikni með því að reka verslun og sjá um viðskipti með peningum. Við tókum matsalinn líka inn í lestraræðið og tengdum bækur við hádegismatinn þá vikuna. Til dæmis var bókinni „Skýjað með kjötbollum á köflum“ stillt upp í matsalnum þegar kjötbollur voru í matinn. Það var annað ákaflega vel heppnað verkefni á bókahátíðinni sem ég vann í samstarfi við myndlistarkennara skólans, Dagnýju Sif Einarsdóttur, auk fleiri kennara og síðast en ekki síst við nemendur unglingadeildar. Það var að mála nemendaskápa eins og bókakili. Flestar bækurnar sem fengu kjalmynd sína málaða á skáp fóru strax til útláns af safninu því verkefnið vakti mikla athygli nemenda á öllum aldri og bækurnar kveiktu forvitni þeirra. Þetta var skemmtilegt samvinnuverkefni sem kostaði okkur ekkert nema vinnuframlag því Slippfélagið lét okkur hafa málningu til verksins. Þetta var því einföld og frumleg leið til að kveikja mikla umræðu og áhuga á bókum hjá öllum í skólanum, bæði nemendum og starfsfólki. Við efndum einnig til samlesturs í skólanum bókahátíðarvikuna og þá lásu allt nemendur og kennarar í 20 mínútur í byrjun skóladags, sama í hvaða kennslustund þeir voru. Þetta var viðleitni til að skapa þá ró og það næði sem þarf til lesturs.“

Ekki eðlilegt að einkafyrirtæki sinni barnabókaþörfinni ein og sér

Dröfn segir stjórnvöld tala um minnkandi lestrargetu hjá börnum og ungu fólki. En til þess að mæta þeim vanda þurfi að beina augunum að verkfærinu sjálfu sem börnin þurfa til þjálfunar, barnabókinni. Að hennar mati er þarft að gera stórátak til þess að börn og unglingar hafi þau tæki sem þau þurfa til að vekja áhuga þeirra á lestri og viðhalda honum. Það þurfi að stórauka útgáfu á barna- og unglingabókum. Hún vitnar aftur til Noregs. „Við þurfum að skoða hvað Norðmenn eru að gera. Norska ríkið rekur kúltúrráð sem kaupir 1500 eintök af öllum barna- og unglingabókum sem koma út í landinu af norskum forlögum hverju nafni sem þau nefnast. Bókunum er síðan dreift á milli skólasafna og bókasafna víðs vegar um landið. Þetta tryggir að bækur eru til í samræmi við þarfir í stað þess að markaðslögmálin ein og sér eigi að sjá til þess að nóg sé til af lestrarefni fyrir börn. Á Íslandi er allt of algengt að byrjað sé að þýða erlendar bókaraðir fyrir börn og unglinga en síðan er þýðingum hætt í miðjum klíðum því að salan er ekki talin standa undir sér. Einkafyrirtæki þurfa að standa undir sér hvort sem þau sinna bókaútgáfu eða einhverju öðru. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þau standi ein undir þeim tækjum sem nauðsynleg eru til þess að vekja áhuga barna á lestri og auka leshæfni þeirra. Því miður hefur Þjóðarsáttmáli um læsi ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Ég tel að farsælast væri að nota lungann af því fé sem varið er í slíka sáttmála og læsisátök í að styrkja útgáfu barna- og unglingabóka. Við stöndum á tímamótum. Við verðum að taka upp opinbera stefnu þar sem farið verður að láta barnabækur flæða eins og Norðmenn gera. Ef það verður ekki gert og markaðsöflunum látið þetta eftir er hætt við að læsi íslenskra barna haldi áfram að hraka.“

Með fyrstu nemendum Seljaskóla

Dröfn var þriggja ára þegar foreldrar hennar fluttu í Breiðholtið úr Árbænum. „Við bjuggum fyrst í Bökkunum en sjö ára flutti ég á Seljabraut. Ég gekk sjálf í Seljaskóla, byrjaði þar haustið 1979 þegar skólinn tók fyrst til starfa. Þá var einungis búið að byggja fyrsta húsið af þeim átta sem skólinn stendur saman af. Það var stöðugt verið að byggja við skólann öll árin sem ég var þar. Sem flest vorum við 1500 nemendur í skólanum og yngstu bekkirnir þrísetnir en í dag eru nemendur skólans 650. Á meðan ég var nemandi í skólanum var ekki búið að byggja matsal eða samkomusal og þar sem bókasafnið er í dag þar hafði skólatannlæknirinn aðstöðu. Ég sit því á sama stað og maður settist þegar litið var upp í mann og gætt að tannheilsunni. Það tók fremur langan tíma að byggja upp innviði hverfisins líkt og gangstéttir og göngustíga. Að sama skapi samanstóð skólalóðin fyrstu árin af einungis möl og moldarflögum. Leiksvæði okkar krakkana voru því húsagrunnar og hálfbyggð hús en það þótti okkur ekkert leiðinlegt. Eftir stúdentspróf úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti flutti ég með eiginmanni mínu til Stokkhólms þar sem við bjuggum í 15 ár og eignuðumst þrjú börn. Þegar kom að því að flytja heim varð Seljahverfið fyrir valinu. Hverfið sem ég þekkti út og inn. Í dag er hverfið orðið mjög gróin borgarhluti þar sem er afar rólegt og gott er að búa í. Hér býr jafnframt fólk af ýmsum uppruna og frá mörgum menningarheimum. Þegar við bjuggum í Stokkhólmi kunnum við vel við fjölmenningarbraginn sem þar ríkti og að búa í blönduðum byggðum með fólki af ýmsum uppruna. Ég gæti ekki hugsað mér að búa þar sem allir eru eins. Breiðholtið er að þessu leyti þverskurður af mannlífi og hollt og gott að vera innan um allskonar fólk. Það er allavega mín reynsla. Ég sé það aðeins sem kost að vera í fjölbreytilegu samfélagi.“

You may also like...