Hér er mikil fjölbreytni og allir eru velkomnir
Félagsstarfið í Gerðubergi og í Árskógum hefst nú af krafti eftir sumarið. Elísabet Karlsdóttir verkefnisstjóri félagsmiðstöðva í Breiðholti er staðsett í Gerðubergi, hún segir að dagskrá haustsins og komandi vetrar sé spennandi og boðið verði upp á fjölbreytilegt starf að venju. Félagsstarfið byggir mikið á þeim góða grunni sem lagður hefur verið síðustu ár en einnig verði bryddað uppá nýjungum að þessu sinni. „Hugmyndafræði starfsins byggir á að framlag allra er mikilvægt og heimilisfólk og starfsmenn vinni saman að því starfi sem hér fer fram. Þá er starfandi notendaráð Félagsstarfsins í Gerðubergi. En tilgangur með notendaráði er að rödd notenda heyrist og að starfið beri með sér valddreifingu og unnið á lýðræðisgrunni.“
Elísabet segir að talsvert stór fastur kjarni komi í félagsstarfið og taki þátt í því sem þar er í boði en nýtt fólks sé alltaf að bætast við. „Eftir því sem við getum aukið fjölbreytnina náum við til fleira fólks og við viljum alveg sérstaklega leggja áherslu á að félagsstarfið er fyrir allra burtséð frá aldri og kyni. Það hefur stunduð viljað loða við starfið að það sé einkum fyrir eldri borgara og á það ef til vill rætur til þess að framan af var það raunin en þetta er að breytast. Við tökum vel á móti öllum og alltaf er gaman að sjá ný andlit.“
Nýjar hugmyndir eru velkomnar
Elísabet segist opin fyrir öllum hugmyndum. mikilvægt er að fólk vinni saman og myndi heimilisbrag. Ég held að þetta hafi tekist ágætlega hér í Gerðubergi í gegnum tíðina og ég vil nýta þá margvíslegu reynslu sem fengin er af félagsstarfinu og reyna að auka við hana eftir mætti. Fólk býr yfir margvíslegri kunnáttu og gaman ef það vill koma og nýta hana í verki hér í félagsstarfinu.“
Hefðbundnir þættir og nýjungar
Af dagskráratriðum í haust- og vetrarstarfinu nefnir Elísabet hefðbundna þætti eins og félagsvist og kórstarf sem alltaf er vinsælt. Af öðru starfi má nefna margskonar handaverk og listsköpun á borð við útskurð, glervinnu, bókband og myndlist að prjónakaffinu vinsæla ógleymdu. Þá er Félag heyrnarlausra er með starfsemi í félagsstarfinu í Gerðubergi. Þá er einnig mikið um hópa sem stunda hreyfingu og útivist. Þar má nefna leikfimi, línudans og gönguhópa. Svo er markmiðið að bjóða einnig uppá Bingó og gömlu dansana í vetur. Í Gerðubergi er líka starfrækt Fjölskyldumiðstöð og þar er boðið upp á foreldramorgna í hverri viku og allir foreldrar eru velkomnir með börn sín. Elísabet segist vilja sjá sem flesta koma og taka þátt í félagsstarfinu. „Fólk getur bara komið, skoðað sig um, fengið sér kaffisopa og spjallað saman til að byrja með. „Hér er opið fyrir alla, fjölbreytni í starfinu er mikil og svo erum við alltaf opin fyrir nýjum hugmyndum sem mætti útfæra og gæti jafnvel leitt til nýrra hópa. Maður er manns gaman og aðal málið er að fólk langi til að koma saman og taka þátt í sjálfbæru og uppbyggilegu félagsstarfi. Ég vil hvetja fólk til að koma og kynna sér starfsemina,“ segir Elísabet að lokum.