Íbúðir við Kirkjubraut 1 tilbúnar til sölu með haustinu

Svona lítur húsið við Kirkjubraut 1 út þessa dagana og í sumar verður unnið að því að ljúka endurbótum og frágangi þess.

– nánast allt endurnýjað í húsinu –

Íbúðir í endurbyggðu húsi við Kirkjubraut munu verða tilbúnar til sölu síðla sumars en alls verða sex íbúðir í húsinu. Aðdragandinn að því er að í janúar á þessu ári keyptu fjárfestar húseignina Kirkjubraut 1 sem er 507 fermetra hús á þremur hæðum. Húsið var upphaflega byggt 1947 og var afar illa farið. Byggingafyrirtækið Hús í hús ehf. hefur unnið að endurbótum á húsinu síðan.

Í hinu endurbyggða húsi verða sex íbúðir, tvær á hverri hæð. Þrjár þeirra eru tveggja herbergja og þrjár þriggja. Stærðir íbúðanna eru frá 60 til 100 fermetrum. Hverri íbúð fylgja góðar geymslur og sameign í sérstæðum bílskúr á lóðinni. Sérinngangur verður í íbúðir á fyrstu og annarri hæð en sameiginlegur fyrir þriðju hæð. Svalir verða á íbúðum annarrar og þriðju hæðar.

“Húsið var mjög illa farið og þarfnaðist nánast allt endurbóta. Allar lagnir, grunn, raf og pípulagnir hafa verið endurnýjaðar frá grunni. Einnig er skipt um þak, alla glugga, hurðir og húsið klætt með viðhaldslausri álklæðningu. Íbúðirnar verða afhentar fullkláraðar að innan. Við gerum ráð fyrir að ljúka verkinu seinnipart sumars og verða íbúðirnar þá auglýstar og fara í almenna sölu,” segir Daníel Jökulsson byggingarstjóri hússins.

You may also like...