Fólk fær þjónustukjarnana aftur

– Hvernig hvarf verslunin úr Breiðholti –

Lengi hefur verið verslun við Seljabraut 54. Seljakjör var og nú er verslun Iceland þar.

Borgarráð samþykkti  í júní 2018 að kaupa verslunarkjarnann í Arnarbakka og verslunarhúsnæði við Völvufell á samtals 752 milljónir króna. Kaupin voru gerð í því augnamiði að ráðast í skipulagsbreytingar og opna fyrir uppbyggingu fyrir verslun á þessum svæðum. Þegar Breiðholtið var skipulagt í upphafi var gert ráð fyrir ákveðinni þjónustu í öllum þremur hlutum þess. Bökkum, Efra Breiðholti og Seljahverfi. Gert var ráð fyrir að verslanir og önnur þjónustufyrirtæki myndu vara og dafna í fjölmennum byggðarlögum. Þessi þróun gekk eftir til að byrja með en fljótlega fór að draga úr áhuga á að reka verslanir eða önnur fyrirtæki á þessum stöðum. Trúlega hefur afkoma þeirra ráðið þar mestu um. Verslanir lokuðu eða voru fluttar burt og þá dofnaði yfir annarri starfsemi vegna að þjónustuaðilar á sama svæði styrkja yfirleitt hvorir aðra.

Í verslunarkjarnanum við Arnarbakka lifði lítið af því sem eitt sinn var blómlegar verslun. Á níunda áratug síðustu aldar voru þar matvöruverslun, banki, apótek og bókabúð auk fleiri verslana og þjónustufyrirtækja. Síðar voru þar myndbandaleigur og pizzastaðir og tattóstofa var þar um tíma. Flest af því var horfið. Hársnyrtistofa lifir þar enn. Sumar byggingar voru komnar í niðurníðslu og veggjakrot var áberandi. Á meðan verslunarkjarninn í Arnarbakka var stöðugt að gefa eftir hvarf einfaldlega verslunin sem var í Leirubakka. Þar mátti eitt sinn finna bakarí, myndbandaleigu, skóbúð og innrömmun. Húsin sem hýstu þá starfsemi eru horfin og í staðinn komið íbúðarhúsnæði.

Hólagarður haldið uppi verslun í Efra Breiðholti

Í Efra Breiðholti hefur sagan orðið með nokkuð öðrum hætti en í Bökkunum. Það munar mestu um Hólagarð – verslanakjarna sem Gunnar Snorrason kaupmaður byggði upp þegar Hólahverfið var að byggjast um og upp úr 1970. Þótt á ýmsu hafi gengið í rekstri verslana þar hafa þær aldrei horfði. Þar munar mestu um að tekist hefur að reka stóra matvöruverslun – verslun sem árum saman hefur verið rekin af Bónus en byggir í raun á þeim hugmyndum sem Gunnar lagði upp með en hann rak sjálfur fyrstu stóru matvöruverslunina undir heiti Hólagarðs. Fyrir neðan húsnæði Hólagarðs var reist annað verslunarhúsnæði. Við Gerðuberg en það náði aldrei flugi. Nú er þar frístundamiðstöðin Miðberg fyrir börn og ungmenni frá sex til sextán ára aldurs og Iðjuberg, stoðþjónusta fyrir fólk með skerta starfsgetu. Við hlið Miðbergs er annað verslunarhúsnæði sem erfiðlega hefur gengið að ná flugi sem slíkt. Þar hefur ýmis starfsemi komið og farið. Nú er þar meðal annars bakarí. Sú bygging lokar fyrir inngang að Markúsartorgi sem er fyrir framan efri innganginn að Borgarbókasafninu og menningarmiðstöðinni í Gerðubergi.

Gamla kaffihúsið og Pólska búðin 

Fellagarðar er annar verslunar- og þjónustukjarni í Efra Breiðholti. Fellagarðar standa saman af húsaþyrpingu við Eddufell, Drafnarfell og Völvufell. Á níunda áratug síðustu aldar og fram á þann tíunda voru þar margar verslanir og þjónustufyrirtæki, hvert við hlið annars. KRON var með matvöruverslun í öðrum enda húsnæðis við Eddufell. Það húsnæði var rifið fyrir nokkrum árum eftir að hafa lengi staðið autt. Í staðinn kom íbúðarhúsnæði. Í sömu húsalengju var að finna hárgreiðslustofu, skyndibitastað og myndbandaleigu, auk annarrar starfsemi á jarðhæð í enda hússins. Fab Lab var þar um tíma áður það var flutt í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Á jarðhæðinni eru snyrtistofur og verslun.

Við Drafnarfell er Gamla kaffihúsið – vinalegt kaffihús og veitingastaður Unnar Örnu Sigurðardóttur og fjölskyldu. Pólska matvöruverslunin Mini Market er einnig við Drafnarfell og segja má að þessir aðilar haldi lífinu þar uppi.  

Öll verslun horfin úr Völvufelli

Á meðan verslun í húsunum við Eddufell og Drafnarfell hefur gefið eftir hefur hún horfið alveg úr þeim hluta Fellagarða sem eru í húsaröðinni við Völvufell. Þar hefur engin verslun verið árum saman. Það er breyting frá því sem áður var þegar þarna mátti finna öflugt bakarí, skóbúð, bókabúð, leikfangaverslun og á tímabili veisluþjónustu. Völvufellið er sá hluti Fellagarða sem borgin hefur fest kaup á og hyggst skipuleggja að nýju.

Seljabraut 54 en annað hvarf

Í Seljahverfi var nokkuð um verslunarhúsnæði. Við Seljabraut 54 var á einum tíma matvöruverslun, söluturn, myndbandaleigan og pizzastaður. Fyrirtækin í húsinu hafa verið mismörg en matvöruverslun hefur alltaf verið þar. Lengi undir merkjun Seljakjör – þín verslun og nú síðast undir merkjum Iceland. Verslunarhúsið sem reist var í Kleifarseli, við hlið Seljaskóla, endurspeglar hins vegar vel hnignun hverfisverslunar. Þar er engin verslun en Hellirinn, Frístundaklúbbur Seljaskóla er þar til húsa. Verslunarhúsnæði var einnig byggt upp í Hólmaseli við hlið Seljakirkju. Þar var talsverð starfsemi í gegnum tíðina, meðal annars hverfiskráin Hólmi en þar er nú aðeins að finna hárgreiðslustofu og félagsmiðstöð á vegum borgarinnar. Við Tindasel var lengi matvöruverslunin Ásgeir og síðar Gunnarskjör og Bónus, en einnig hárgreiðslustofa um skeið og söluturn. Þar er nú Skátafélagið Segull með aðstöðu.

Heimabyggð í stað langra búðarferða 

Ýmsar orsakir urðu til þess hvernig fór og hugmyndir hönnuða Breiðholtsins um þjónustu í byggjum þess gengu ekki eftir. Ýmsir hafa bent á að bygging verslunarmiðstöðvar í Mjóddinn hafi haft afgerandi áhrif á aðra verslun í Breiðholti. Vissulega átti hún einhvern þátt í þeirri þróun en fleira kom til. Það er stórmarkaðsvæðingin. Breyttir verslunarhættir borgarbúa urðu til þess að sjálfstæðar matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu og víðar týndu tölunni. Verslanakeðjur tóku til sín sífellt stærri hluta verslunarinnar og verslunarmiðstöðvar drógu til sín fjölda fólks. Margar stórverslananna eru utan hefðbundinna íbúðahverfa. Hverfisbúðirnar áttu erfitt með að keppa við þessar verslanir þrátt fyrir fjarlægð þeirra. Þar skipti stærðin máli. Stóru verslanirnar gátu boðið hagstæðra vöruverð og hugsanlega meira vöruúrval. En nú vill fólk fara að líta sér nær. Að geta verslað í heimabyggð er komið á óskalistann.

Fólkið í fyrirrúmi

Í drögum að nýju hverfaskipulagi fyrir Breiðholt er lögð áhersla á að endurvekja hverfiskjarna. Í kynningu þess segir að um mikilvægan þátt sé að ræða að styrkja núverandi hverfiskjarna til að skapa aukin tækifæri fyrir blómlega verslun og fjölbreytta þjónustu í göngufæri fyrir íbúa. Í Neðra Breiðholti verða gerðar miklar breytingar á kjarnanum við Arnarbakka en í hverfisskipulagi er uppbygging hans sett í forgang. Hverfiskjarninn verður styrktur með því að fjarlægja gömlu húsin og reisa nýjar byggingar en hugmyndir eru um að vera þar með verslanir og þjónustu á jarðhæð í nýjum byggingum og stúdentaíbúðir á efri hæðum. Kjarnarnir í Efra Breiðholti verða einnig efldir verulega. Þar á meðal verður farið í umfangsmikla endurnýjun við Eddufell og Völvufell. Eldri byggingar verða fjarlægðar að hluta og nýtt húsnæði reist sem áætlað er að hýsa muni bæði leikskóla, stúdentagarða og sérbýli. Áfram verður verslun og þjónusta í Fellagörðum og heimildir verða fyrir íbúðum á efri hæðum verslana. Þarna eru möguleikar að bæta við nýjum íbúðum. Einnig eru hugmyndir um ýmsar endurbætur við Austurberg sem er einskonar aðalgata í Efra Breiðholti og skilgreind sem borgargata í hverfisskipulagi.  

Reykjavíkurborg festi kaup á fasteignum í Arnarbakka með það að markmiði að flýta fyrir uppbyggingu á reitnum. Auglýst var eftir hugmyndum að starfsemi í húsnæðinu með sérstaka áherslu á samfélagsleg verkefni. Ýmsir hópar nýta húsnæðið nú einkum í samfélagsleg verkefni. Framundan er endurbygging þessa svæðis. 
Breiðholtskjör starfaði við Arnarbakka á fyrstu árum Breiðholtsins. Síðan hvarf hún líkt og margar aðrar verslanir í Breiðholti.
Gamla Kaffihúsið er vinalegur veitingastaður við Drafnarfell. Við hliðina er Pólska búðin Mini market. 
Breiðholtsbakarí var í áratugi við Völvufellið ásamt annarri verslunar-starfsemi. Nú er engin verslunarrekstur þar. Nýlistasafnið hefur haft aðstöðu í hluta húsnæðisins og sumt hefur verið leigt út til íbúða eða tímabundinnar starfsemi.  
Við Kleifarsel var verslunarstarfsemi á árum áður en ekki lengur.

You may also like...