Judit sigraði stóru upplestarar­keppni Breiðholts

Judith Stefnisdóttir, Eva Lind og Katrín Ásta.

Judith Stefnisdóttir sigraði Stóru upplestrarkeppni Breiðholts sem haldin var í Fella og Hólakirkju 15. mars. Auk Judithar keppti  Eva Lind en varamaður var Katrín Ásta, voru þær allar skólanum sínum til sóma.

Keppnin skiptist í tvo hluta, ræktunarhluta og keppnishluta. Ræktunarhlutinn er sá hluti upplestrarkeppninnar sem mestu máli skiptir. Hann miðast við tímabilið frá degi íslenskrar tungu fram í lok febrúar. Á þessu tímabili er lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk. Lögð hefur verið áhersla á að íslensku máli væri jafnan nokkur sómi sýndur við upphaf keppninnar í 7. bekk, og þá gjarnan fengnir verðlaunahafar frá fyrra ári til að lesa upp. Þær vikur í skólunum, sem helgaðar eru vönduðum upplestri, eru alfarið í höndum kennara.

Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Hann er í tvennu lagi. Annars vegar er upplestrarhátíð í hverjum skóla í lok febrúar þar sem tveir til þrír nemendur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Hins vegar er lokahátíð í héraði, sem haldin er í góðum samkomusal í byggðarlaginu í mars. Þar koma saman fulltrúar skólanna í héraðinu, einn, tveir eða þrír úr hverjum skóla, og lesa ljóð og laust mál sem þeir hafa undirbúið vandlega.

Hafa ber í huga að „keppnin“ er í raun aðeins formsatriði, nokkurs konar staðfesting á þeim árangri sem náðst hefur í skólastarfinu, og því miklu meir í ætt við uppskeruhátíð. Ekki skiptir máli hver sigrar, heldur það að tekist hafi að virkja nemendur til að vanda upplestur sinn um veturinn.

You may also like...