Tvö ný hús í stað þriggja gamalla

Við Framnesveg. Húsin þrjú sem standa næst á myndinni verða rifin og ný byggð í staðinn með níu íbúðum.
Nýtt deiliskipulag fyrir Framnesveg 40, 42 og 44 hefur verið auglýst. Í skipulaginu er gert ráð fyrir niðurrifi húsanna sem fyrir eru á lóðunum og að byggð verði ný hús í staðinn með níu íbúðum.
Samþykkt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 7. september og í borgarráði Reykjavíkur þann 15. september sl. að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Sólvallagötureits vegna lóðanna nr. 40, 42 og 42a við Framnesveg. Breytingin gengur út á að heimilt verði að rífa núverandi byggingar og gera nýbyggingar innan byggingarreita samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti. Í skipulagstillögunni kemur fram að nýbyggingarnar eiga að vera í samræmi við byggð á Framnesvegi og er tekið fram að mænishæð skuli ekki vera hærri en mænir á Framnesvegi 36 en það hús stendur á horni Holtsgötu og Framnesvegs. Húsin tvö sem verða byggð á lóðunum skulu hvort um sig hafa sjálfstætt útlit, t.d. hvað varðar gluggasetningu og litaval. Ásýnd og efnisval skal vera máluð steinsteypa í samræmi við aðliggjandi byggð. Heimilt er að gera þakkvista en samanlögð breidd þeirra á hvorri hlið má ekki vera meiri en tveir þriðju hluti þakbreiddar. Heimilt verður að hafa tvö bílastæði á lóð.