Sjálfbært útivistarsvæði Reykvíkinga

ellidaardalur-2

Elliðaárnar liðast undir göngubrú. Trjágróður á bökkum og Efra Breiðholtið í baksýn.

Elliðaárdalurinn verður sjálfbær og áfram eitt af aðalútivistarsvæðum Reykvíkinga. Þetta eru niðurstöður starfshóps sem skipaður var á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar 26. mars á liðnu ári. Í niðurstöðum skýrslu sem hópurinn hefur sent frá sér kemur fram að fjölbreytilegt lífríki dalsins njóti verndar og að þess verði gætt að Elliðaárnar verði áfram frjósöm laxveiðiá.

Starfshópurinn telur að jafnvægi þurfi að ríkja á milli útivistarsvæða í dalnum og íbúðabyggðar. Þá séu tækifæri til að styrkja vistvænar samgöngur í dalnum. Þá telur starfshópurinn að kanna þurfi vægi og fjölda vegfarenda um svæðið til að sjá hvar áherslum þurfi að breyta eða hvar bæta þurfi aðstöðu fyrir hjólreiðamenn, gangandi vegfarendur eða hestamenn. Í niðurstöðum starfshópsins segir að fjölda tækifæra séu að finna í Elliðaárdalurinn. Það sé kjörin aðstaða fyrir umhverfismennt, rannsóknir á vistkerfinu og fræðslu og skoða þarf ólíkar leiðir til þess en staðsetning dalsins í miðri borg eykur notkunarmöguleika hans til muna. Ekki er talin þörf á aukinni skógrækt í dalnum en grisja verði núverandi skóg talsvert til að bæta útivistarsvæðið. Þegar horft er til fjölgunar ferðamanna er það mat hópsins að þó að margir þeirra leggi ferð sína í dalinn sé hlutverk hans fyrst og fremst að vera athvarf og útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Nú eru 22 ár síðan núgildandi deiliskipulag Elliðaárdalsins var unnið og því tímabært að vinna nýtt skipulag fyrir dalinn. Gert er ráð fyrir því að vinna við nýtt skipulag fyrir Elliðaárdal hefjist á árinu 2017.

You may also like...