Í hálfgerðu dái milli vakta þegar álagið var mest

Ágústa Unnur Gunnarsdóttir ræddi við Sigrúnu Klöru Sævarsdóttur sjúkraliðanema í FB —

Sigrún Klara Sævarsdóttir sjúkraliðanema í FB.

Undanfarið ár hefur Sigrún Klara unnið með námi sínu á smitsjúkdómadeild Landsspítalans A7. Vegna COVID-19 ástandsins hefur hún lært óvenju margt undanfarið og tekist að sameina nám og vinnu.

Öryggi á smitsjúkdómadeild

„Þegar ég mæti á vakt er búið að skipta okkur niður á svæði. Það er alltaf einn hjúkrunarfræðingur og einn sjúkraliði í teymi sem hjálpast að við að hjúkra sjúklingum. Vaktin byrjar á stöðumati, þá er okkur sagt hvað er nýtt að frétta og við lesum okkur til um sjúklingahópinn okkar. Við skiptumst á að vera inni á deildinni í einn og hálfan tíma í senn. Deildin er lokuð og við þurfum alltaf að vera í búningum inni á deild. Maður klæðist plastgalla, lambúshettu eða húfu með maska og hlífðargleraugu og auðvitað í hönskum. Þar sem búningarnir eru afar óþægilegir og meiða hef ég þurft að plástra enni og nef til að forðast mar. Við verðum að klæðast tvöföldum hönskum því það eyðileggur plastið í hönskunum að spritta þá og þá verja þeir mann ekki lengur gegn veirunni. „

Besta ákvörðunin

Sigrún Klara segir að það að vinna á smitsjúkdómadeild sé besta ákvörðun sem hún hefur tekið á sínum ferli. „Ég læri svo margt á hverjum degi og tel mig hafa góðan skilning á smitvörnum. Ég hef unnið á deildinni í ár og það er alltaf jafn gaman að mæta til vinnu. Það er einstök upplifun að fá að taka þátt í þessu stóra verkefni og það magnaða er að maður er aldrei hræddur í vinnunni um að smitast. Á smitsjúkdómadeild veistu að hverju þú gengur, þú veist hvaða svæði eru hrein og hver ekki, það eru meiri líkur á því að smitast út í búð en að mæta til vinnu.“

Heilbrigðisstarfsfólk mikilvægt samfélaginu

Sigrún Klara hefur öðlast mikla og dýrmæta reynslu. „Mér finnst ég vera að upplifa hápunkt ferils míns áður en ég útskrifast sem sjúkraliði sem ég veit að gerist ekki oft. Ég finn fyrir því hvað fólkið í samfélaginu virðir heilbrigðisstarfsfólk meira en áður og er farið að fatta hvað við erum gríðarlega mikilvæg. Þetta er samt búið að taka verulega á, allt álagið sem er á heilbrigðisstarfsfólki er gríðarlegt. Ég leyfi mér að tala um heilbrigðisstarfsfólk sem óeingjarnasta fólk samfélagsins. Framlínustarfsmenn fórna sér fyrir samfélagið og vinna við aðstæður sem flestir geta ekki hugsað sér að vinna við“

Þakklát kennurum FB

Vegna samkomubanns hafa framhaldsskólar verið lokaðir undanfarnar vikur og kennsla farið fram í gegnum fjarkennslubúnað en með dugnaði og skipulagningu hefur Sigrúnu Klöru tekist að sameina nám og vinnu. „Ég er einungis tvítug og mér datt ekki annað í hug en að hjálpa eins mikið og ég mögulega gat, þrátt fyrir að vera að stefna á útskrift í vor og í 7 áföngum í skólanum vann ég alla daga og var bara í hálfgerðu dái á milli vakta þegar álagið var sem mest. Ég er mjög heppin að eiga gott bakland og þökk sé rosalega skilningsríkum og góðum kennurum í FB hefur þetta tekist eins og í góðri lygasögu.

You may also like...