Ljóskastarahús

ljoskastarahus

Hafin er viðgerð á Ljóskastarahúsinu við Urð í Suðurnesi. Verkinu stjórnar Gísli Hermannsson yfirmaður umhverfissviðs Seltjarnarnesbæjar í samstarfi við Minjastofnun Íslands.

Ljóskastarahúsið var byggt veturinn 1940-1941. Húsið er 26 m2 að grunnfleti, steinsteypt ofan á grjóthleðslu. Húsið var teiknað af verkfræðingasveit breska setuliðsins. Einn í sveitinni var Arthur Lloyd Benjamin en hann teiknaði einnig gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli sem friðaður var fyrir nokkrum árum. Benjamin giftist íslenskri konu, Sigríði Guðrúnu Gudberg og eignuðust þau einn son, Tom Benjamin. Bæði hjónin hvíla nú í Fossvogskirkjugarði. Ljóskastarahúsið var hluti hverfisheildar á Suðurnesi og er eina mannvirkið sem enn stendur. Frumskoðun hefur verið gerð á húsinu og ástand þess kannað í megindráttum. Húsið var mælt upp af Pétri Ármannssyni arkitekt hjá Minjastofnun Íslands. Umhverfisnefnd hefur einnig verið í sambandi við Ólaf Mathiesen arkitekt vegna athugana á mannvirkinu og forvörslu. Ólafur er m.a. þekktur fyrir úttekt á eyðibýlum á Íslandi og útgáfu um þau efni. Haft hefur verið samband við Tom Benjamin en hann býr í Kanada. Tom hefur, auk annars, sent okkur minnispunkta frá dvöl föður síns á Íslandi. Líklegt er að Ljóskastarahúsið við Urð sé eitt sinnar tegundar á Íslandi. Ef leitað er utan Íslands finnast svipuð hús í Færeyjum, við Lossie, á Suðureyjum Skotlands og í Ástralíu. Ekki hefur fundist nákvæmlega eins hús og Ljóskastarahúsið og er frekari rannsókna þörf ef staðfesta á að húsið sé einstakt á veraldarvísu.

Margrét Pálsdóttir, formaður umhverfisnefndar Seltjarnarness

You may also like...