Seltjarnarnes er glæsilegt byggðarlag

Dr. Ólafur Ísleifsson.

Ólafur Ísleifsson hagfræðingur flutti á Seltjarnarnes fyrir tveimur árum. Hann kveðst þó hafa meiri tengsl við nesið en þessu nemur því móðir hans hafi búið rúma þrjá áratugi á Nesinu. Hann hafi komið þangað reglulega í gegnum árin og fylgst með mönnum og málefnum auk þess að njóta einstakrar náttúru svæðisins eins og hann kemst að orði. Ólafur hóf spjallið við tíðindamann á því að ganga út að stofuglugganum á heimili sínu við Melabrautina og sýna honum útsýnið. Móðir mín hafði oft orð á hvað hún var ánægð hér á Seltjarnarnesi. Hún var Eyjakona og naut þess að geta horft út á hafið eins og hún var vön úr æsku sinni og uppvexti í Vestmannaeyjum. Ég hef því átt erindi hingað út eftir allan þann tíma sem móðir mín bjó hér og tel mig því hafa fylgst nokkuð vel með þótt ég þykist ekki eiga tilkall til þess að kalla mig Seltirning,“ heldur Ólafur áfram þegar hann hefur sótt bolla af sérstöku gæðakaffi í eldhúsið og tíðindamaður ekki staðist tilboð um lögg af rjóma út í bollann.

Þegar ég kom hingað var eitt fyrsta verk mitt að láta í samráði við nágranna fjarlægja hávaxin tré í garðinum og voru tekin að byrgja útsýnið verulega. Ég hef verið að velta fyrir mér að undanförnu hvort ekki sé verið að byrgja um of fyrir útsýni hér á Seltjarnarnesi bæði út á hafið og líka fyrir sýn á frábæra náttúru með of miklum og hávöxnum gróðri. Hvort ekki þurfi að grisja mun meira en gert hefur verið og hvort bæjaryfirvöld gætu átt hlutverki að gegna í því efni. Hvað sem um trjágróðurinn má segja þá getur hann vaxið manninum yfir höfuð og spurning er um hvort sá tími sé ekki runninn upp á Seltjarnarnesi.“

Vestmannaeyingur í báðar ættir

„Ef ég á að greina frá uppruna mínum þá er ég Vestmanneyingur að því leyti að foreldrar mínir voru bæði fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en ég á ættir víða um land. Faðir minn var Ísleifur A. Pálsson framkvæmdastjóri og móðir mín Ágústa Jóhannsdóttir átti ættlegg í Vestmannaeyjum svo langt sem kirkjubækur ná. Feður þeirra voru báðir kaupmenn og útvegsmenn í Vestmannaeyjum. Afi minn í föðurætt var Páll Oddgeirsson sonur séra Oddgeirs Gudmundsen, hins síðasta gömlu Eyjaprestanna, en móðir hans var Jóhanna Andrea, ein af Knudsenssystrunum í Landakoti. Eftir því sem Páll Valsson bókmenntafræðingur heldur fram var systir hennar Kristjana Dóróthea stóra ástin í lífi Jónasar Hallgrímssonar. Móðir Páls Oddgeirssonar föðurafa míns var Anna Guðmundsdóttir prests í Arnarbæli Einarssonar en hann var bræðrungur við Jón Sigurðsson og systir hans var Ingibjörg eiginkona Jóns forseta. Föðuramma mín Matthildur Ísleifsdóttir var frá Kirkjubæ í Vestmannaeyjum en móðuramma mín Magnea Dagmar Þórðardóttir var fædd í Reykjavík. Hún fluttist til Eyja um 1918 til þess að starfa á símstöðinni þar. Talsímakonur voru með fyrstu kvennastéttunum hér á landi þar sem konur gátu sjálfar unnið fyrir sér. Hún kynntist í Eyjum Jóhanni Þ. Jósefssyni afa mínum og áttu þau glæsilegt heimili í Vest-mannaeyjum. Fagurlyst hét húsið og stóð við Urðastíg en sá bæjarhluti fór undir hraun í gosinu 1973. Þau fluttu 1935 til Reykjavíkur og bjuggu á Bergstaðastræti 86 á mótum Bergstaðastrætis og Barónsstígs þar sem amma bjó nærfellt hálfa öld en afi minn féll frá 1961. Sjálfur átti ég eftir að búa í því húsi í 30 ár.“

Valdi ritgerðarefni um Sigurð Nordal

„Sjálfur er fæddur í Reykjavík og ólst upp á Kvisthaga 4. Bernsku- og ungdómsárin voru gleðirík og skólagangan hefðbundin. Ég gekk í Melaskólann, síðan Hagaskóla Íslands og því næst í MR. Ég hafði frábæra kennara alla mína skólagöngu. Í Melaskólanum Dagnýju G. Albertsson sem var afburða kennari og í MR Jón S. Guðmundsson íslenskukennara svo einhverjir séu nefndir. Jón setti okkur fyrir sem ritgerðarefni að skrifa um nýútkomna bók og við áttum sjálf að velja. Ég valdi bók Sigurðar Nordal um Snorra Sturluson. Það átti við Jón S. Guðmundsson.“

Kristnihald undir jökli

„Ef við víkjum að næstu kynslóð þá á ég á einkason með fyrrum eiginkonu minni Dögg Pálsdóttur lögfræðingi. Hann heitir Páll Ágúst Ólafsson og nam á sínum tíma lögfræði og lauk meistaraprófi í henni. Með honum hafði lengi blundað áhugi á guðfræði sem endaði með að hann tók hana á eftir lögfræðinni. Ég hygg hann sé eini núlifandi Íslendingurinn sem lokið hefur embættisprófum í lögfræði og guðfræði. Hann er sóknarprestur í Staðastaðarprestakalli vestur á Snæfellsnesi. Hann á fjögur börn með konu sinni Karen Lind Ólafsdóttur guðfræðingi. Barnabörnin eru yndisleg og ég nýt afahlutverksins. Enda þótt við Dögg höfum slitið hjúskap okkar höldum við góðri vináttu og ræktum upprennandi kynslóð. Og fyrst ég er kominn vestur á Snæfellsnes er ekki úr vegi að minnast á Kristnihald undir jökli sem af sumum kunnáttumönnum er talin með bestu bókum Halldórs Laxness ef ekki sú besta. Ég hef fyrir venju að lesa Kristnihaldið á hverju ári og byrja alltaf á því sama daginn 11. maí því það er dagurinn sem sem för Umba til að rannsaka kristnihald undir jökli hefst. Annars hef ég mikla ánægju af ferðum um landið og að dveljast í sumarbústað í góðum félagsskap. Til að styrkja þekkingu á jarðfræði og náttúrufræði skráði ég mig í leiðsögunám í Endurmenntun HÍ.“

Of mikil samþjöppun að hafa einn lífeyrissjóð

„Ef þú spyrð hvort hagfræðin hafi ekki komið í beinu framhaldi af stúdentsprófinu þá er ekki svo. Ég lauk prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands en hélt eftir það til Bretlands til náms við London School of Economics, LSE. Námsdvölin í Lundúnum var eftirminnileg enda sögulegir tímar í Bretlandi með innreið frú Margrétar Thatcher eftir vantraust á ríkisstjórn Verkamanna-flokksins undir forystu James Callaghans og býsnaveturinn 1979 sem með vísun í verk Shakespeares hefur verið kallaður the winter of discontent eða vetur rauna minna í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Tveir kennara minna í LSE hafa hlotið nóbelsverðlaun í hagfræði og þriðji kennarinn Janet Yellen er aðalbankastjóri bandaríska seðlabankans, fyrsta konan til að gegna því embætti. Hún er reyndar eiginkona annars nóbelsverðlaunahafanna tveggja, George Akerlöfs, en þau skiptu með sér þjóðhagfræðinni í meistaranáminu í LSE.

Doktorsritgerð um íslenska lífeyriskerfið

Við nokkrir skólabræður úr LSE höfum haldið hópinn með því að hittast á hverjum föstudegi í hádeginu til að taka púlsinn á málefnum líðandi stundar. Síðar sneri ég mér aftur að námi og skrifaði doktorsritgerð um íslenska lífeyriskerfið.“ Spurður um hvort sameina eigi lífeyrissjóðina jafnvel í einn kveður Ólafur nei við því. „Ég tel að með því að sameina alla lífeyrissjóði landsmanna safnist of mikið peningalegt vald á of fáar hendur. Slíkur lífeyrissjóður yrði berskjaldaður fyrir ásælni stjórnmála- og fjármálaafla. Ég tel því heppilegra að hafa fleiri sjóði og að heilbrigð samkeppni ríki milli þeirra. Svo sterkt fjármálavald sem fylgir eignum og umsvifum lífeyrissjóðanna kallar á að nauðsynlega dreifingu á nokkra sjóði af hæfilegri stærð.

Úr bankamálum í háskólakennslu

Eftir námið við London School of Economics hófst starfsferillinn. „Já – hann hófst í Þjóðhagsstofnun og þaðan fór ég yfir í Seðlabankann þegar Geir Haarde hvarf þaðan frá störfum til þess að gerast aðstoðarmaður Alberts Guðmundssonar fjármálaráðherra og ég var ráðinn í hans stað með samþykki Jóhannesar Nordal. Síðan var ég sendur á vegum bankans vestur haf um tveggja ára skeið – til starfa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Rétt í þann mund sem ég sneri heim aftur bauð Þorsteinn Pálsson mér starf efnahagsráðgjafa en ríkisstjórn hans féll eftir aðeins 14 mánuði. Þetta var skammur tími en viðburðaríkur. Síðar fór ég aftur til starfa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þá sem stjórnarmaður í sjóðnum fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Í Seðlabankanum var ég yfir alþjóðasviði bankans og hafði þá með höndum lánsfjáröflun fyrir ríkissjóð á erlendum mörkuðum. Í störfum mínum í Seðlabankanum átti ég samskipti við helstu fjármálastofnanir í London, Frankfurt, New York og víðar. Ég þekkti einnig til starfa matsfyrirtækjanna og bar ábyrgð á samskiptum Seðlabankans við þau. Öll þessi reynsla og tengsl ollu því að þegar hrunið skall á 2008 og yfirskyggði alla umræðu í landinu var mikið leitað til mín bæði af innlendum og erlendum fjölmiðlum að fjalla um þá óvenjulegu stöðu sem komin var upp og ræða hana af efnahagslegum sjónarhóli. Ég sogaðist þannig í fjölmiðlaumræðuna. Ég mætti til dæmis vikulega í bítið á Bylgjunni í fimm ár ásamt nafna mínum Ólafi Arnarsyni nýkjörnum formanni Neytendasamtakanna. Við höfum einnig verið á Útvarpi Sögu hvor um sig eða saman og við nafnar vorum með þjóðmálaþátt á Hringbraut sem nýflutt er á Nesið. Einnig hef ég verið tekinn tali af fjölmörgum innlendum og erlendum fjölmiðlum og jafn ólíkum og Sky News og Al Jazeera. Eftir tímann í Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum lá leiðin í háskólakennslu. Ég kenndi við Háskólann í Reykjavík um tíu ára skeið og ég hef einnig kennt við Háskóla Íslands og Tækniskólann. Ég starfa nú sem kennari við Háskólann á Bifröst og er auk þess gæðastjóri skólans.“

Umbótahugmyndir vöknuðu um 1950

„Já – ég á á vissan hátt pólitískar rætur. Móðurafi minn Jóhann Þ. Jósefsson var lengi þingmaður Vestmannaeyja og ráðherra í ríkisstjórnum. Fyrst var hann fjármála- og atvinnumálaráðaherra í ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar sem mynduð var 1947 og var kölluð Stefanía í höfuð á forsætisráðherranum Stefáni Jóhanni Stefánssyni og síðan atvinnumálaráðherra í minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins 1950 undir forystu Ólafs Thors sem er eina ríkisstjórnin í lýðveldissögunni sem felld hefur verið með vantrausti á Alþingi.“ Og Ólafur lítur aðeins til baka í sögunni. „Þegar þessi minnihlutastjórn féll höfðu verið undirbúnar efnahagsaðgerðir sem komu ekki til framkvæmda fyrir en áratug síðar þegar Viðreisnarstjórnin kom til valda. Þannig var að þegar Bjarni Benediktsson eldri fór vestur um haf árið 1949 til að sækja stofnfund Atlantshafsbandalagsins í Washington DC kynntist hann ungum hagfræðingi sem þá starfaði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sá var Benjamín H. J. Eiríksson sem var hámenntaður hagfræðingur og víðlesinn og þekkti vel til alþjóðamála. Bjarni virðist hafa hrifist af þekkingu Benjamíns og leiftrandi greind sem varð til þess að Benjamín og Ólafur Björnsson sem lengi var prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og alþingismaður um tíma voru fengnir af minnihlutastjórn Ólafs til að vinna að tillögum um lausn á efnahagsvanda sem aðkallandi var um miðja öldina. Þótt farið væri að huga að þessum tillögum gekk á ýmsu bæði í efnahagsmálunum og landsmálunum almennt næstu árin. Af ýmsum ástæðum varð því dráttur á að hugmyndir dr. Benjamíns og Ólafs næðu fram að ganga og það var ekki fyrr en upp úr 1960 að ríkisstjórn Ólafs Thors Viðreisnarstjórnin sem síðar laut forystu Bjarna Benedikts-sonar tók áþekkar hugmyndir fram í samvinnu við Alþýðuflokkinn.“

Seltjarnarnes er glæsilegt búsvæði

Ólafur gengur aftur út að stofuglugganum og lítur yfir Suðurnesið og hafið. Stendur í sömu sporum og hann segir móður sína oft hafa staðið. „Hún var alsæl hér,“ segir hann eins og hann væri að ræða við sjálfan sig. Víkur svo aftur að trjágróðrinum sem tekinn er að spilla útsýni. „Ég er ekki frá því að eitthvað af barrtrjám hér á Nesinu séu sýkt enda dökk ásýndum. Eins og móðir mín nýt ég þess að búa á Seltjarnarnesi. Og það er ekki bara útsýnið sem heillar. Hér er líka löng saga að baki. Saga útvegsmennskunnar. Saga lækninga sem á sér merka sögu hér í þessu bæjarfélagi. Nesstofa er eitt af steinhúsunum gömlu á Íslandi frá 18. öld og trúlega það þessara merku húsa sem næst er upprunalegri mynd. Gróttuviti er líka einstaklega fallegt mannvirki. Og svo er það náttúran, fegurð umhverfisins, fjallasýnin og sjórinn. Ég hef gengið talsvert um nesið og hef séð hér á annan tug andategunda auk fjölda annarra tegunda í hinu fjölbreytta fuglalífi sem einkennir þetta svæði. Seltjarnarnes er glæsilegt byggðarlag hvert sem litið er.“

You may also like...