Listasafn Íslands tekur við lækningaminjahúsinu

Gengið hefur verið frá samkomulagi Seltjarnarnesbæjar, Lækna­fé­lags Íslands og Lækna­fé­lags Reykja­vík­ur við Listasafn Íslands um að listasafnið yfirtaki hús sem upphaflega var byggt á Seltjarnarnesi fyrir Lækningaminjasafn Íslands.

Húsið hefur staðið hálf klárað um hríð eftir að slitnaði upp úr samkomulagi bæjarins og læknafélaganna við ríkið um bygginguna og rekstur lækningaminjasafns. Munir sem tengjast sögu lækninga hér á landi eru nú í vörslu Þjóðminjasafnsins. Með samningnum við Listasafn Íslands mun húsið öðlast notagildi að nýju en það stendur á mjög viðkvæmum stað á Nesinu í nágrenni við Nesstofu. Húsinu er ætlað það hlutverk að varðveita nútímalist. Einkum er horft til verka þeirra Woody og Steinu Vasulka sem hafa á undanförnum árum verið í nánu samstarfi við Listasafn Íslands en þau eru brautryðjendur á sviði alþjóðlegrar margmiðlunarlistar. Woody er af tékknesku bergi brotinn en fluttist hingað til lands og síðar til Bandaríkjanna ásamt konu sinni Steinu Briem Bjarnadóttur Vasulka þar sem þau eru búsett.

You may also like...