Tekist á um fráveitumálin

Fundargerð 141. fundar Veitustofnunar var á dagskrá síðasta fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar. Í bókum bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar segir m.a. að einfalda fráveitukerfið á Seltjarnarnesi taki við skólpi úr klósettum, sturtum og vöskum. Þetta einfalda fráveitukerfi fyllist þegar rigni og þá dæli yfirfallslagnir óhreinsuðu skólpi út í sjó. 

Í bókuninni er m.a. vitnað til bókunar umhverfisnefndar frá 13.11.2019 þar sem segir að mikilvægt sé kannaðir verði möguleikar til að fanga þetta vatn og koma í veg fyrir að það fari í fráveitukerfi bæjarins. Það væri unnt að gera með því að innleiða blágrænar ofanvatnslausnir. Lagt er til að ráðnir verði sérfræðingar til að meta þetta fyrir einstaka hverfi og að verkefnum verði forgangsraðað og unnið samkvæmt þeirri forgangsröðun á næstu árum.

Í bókun Ásgerðar Halldórsdóttur bæjarstjóra er því hafnað að fráveitumálin séu í ólestri. Þar segir m.a. að veitustjórn hafi strax fengið utanaðkomandi sérfræðing til að skoða fráveitukerfi bæjarins eftir að bréf frá Heilbrigðiseftirlitinu barst. Veitustjórn hafi strax tekið fyrir viðkomandi bréf og óskaði eftir fresti sem og upplýsti Heilbrigðiseftirlitið  að málið væri komið í ferli. Nú liggji fyrir tillögur frá sérfræðingum, sem unnið hafa með starfsmönnum bæjarfélagsins að endurbótum.

You may also like...