Ánægðir vinningshafar í 17. júní fánaleiknum

17. júní var sannarlega óvenjulegur þetta árið þar sem ekki var hægt að standa fyrir hefðbundnum hátíðarhöldum en þess í stað voru bæjarbúar hvattir til að fagna Þjóðhátíðardeginum í faðmi fjölskyldu og vina. Það var þó bryddað upp á smá skemmtilegheitum fyrir börnin og fór ísbíllinn um öll hverfi bæjarins og gaf ís í boði bæjarins. 

Ennfremur var fánaleikur í gangi þar sem að börnin og foreldrar voru hvött til að fara út að telja íslenska fána í görðum, gluggum og á fánastöngum.

Fjölmargir drifu sig út að telja og  sendu sína talningu inn rafrænt. Þrjátíu krakkar fengu verðlaun fyrir þátttökuna en um var að ræða bæði sápukúlusverð og gjafabréf á Örnu ís- og kaffibar. Svo sannarlega var það skemmtilegur og fjölbreyttur hópur kom og sótti verðlaunin en yngsti verðlaunahafinn var ekki nema sextán mánaða gamall. Talinn fjöldi fána var allt frá sjö fánum upp í heila fjögur hundruð áttatíu og sjö og ljóst að allir lögðu sig fram og uppskáru verðlaun fyrir þátttökuna. Afhending verðlaunanna vakti mikla kátínu, ekki aðeins á meðal þátttakenda heldur einnig á meðal starfsmanna bæjarskrifstofunnar.

You may also like...