Sex innbrot á 14 mánuðum

Samkvæmt gögnum frá lögreglunni hafa verið tilkynnt um sex innbrot á síðustu 14 mánuðum á Seltjarnarnesi, farið var inn í þrjá bíla og þrjú hús. Samkvæmt lögreglunni voru skráð eftir áramót þrjú brot þar sem hlutum var stolið úr ólæstum bifreiðum, segir Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri í spjalli við Nesfréttir.

Fljótlega verður boðað til íbúafundar með lögreglunni til að ræða löggæslumál á Seltjarnarnesi eins og gert var árið 2015 þegar lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins mætti á fundinn. Send verður út tilkynning þegar nær dregur og vonast Ásgerður eftir að sem flestir sjái sér fært að mæta. Fjallað verður m.a. um hvernig hægt sé að draga úr líkum á innbroti. Bent hefur verið á að húsnæði sem stendur autt til lengri tíma getur verið auðvelt skotmark innbrotsþjófa, en þá er hægt að grípa til ýmissa ráðstafana til að draga úr líkum á innbroti. Einnig er gott að geta leitað til nágranna þegar farið er í frí og fá þá til að líta til með húsnæðinu, segir Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri.

You may also like...