Menningarhús opnað á Laugavegi 18

– Miðborgin mun standa fyrir sínu segja þeir Garðar Kjartansson og Ari Gísli Bragason sem standa fyrir hinu nýja menningarhúsi –

Ari Gísli Bragason og Garðar Kjartansson standa að baki menningarhúsi við Laugaveg 18. Þarna eru þeir fyrir fram bókahillur þar sem góðbókmenntir og meistaraverk er að finna.

Garðar Kjartansson fasteignasali og veitingamaður og Ari Gísli Bragason bóksali í Bókinni hafa opnað menningarhús í húsnæði Máls og menningar við Laugaveg 18. Um er að ræða nýstárlega bókabúð ásamt veiting- og tónlistarstað. Þar eru bækur á flestum veggnum bæði á vegum Bókarinnar og einnig Garðars. Við innganginn á jarðhæðinni er bar og veitingasala. Þegar er komið er upp á miðhæðina hefur verið komið upp skemmtilegri setustofu og aðstöðu til tónleikahalds. Gamla kaffihúsið norðan megin á efri hæð þar sem menningarvitar og listamenn hafa setið í gegnum tíðina auk margra annarra kaffigesta hefur gengið í endurnýjum lífdaga. Margir eiga kaffisopa og minningar um samræður á kaffihúsinu í Mál og menningu sem nú er tilvalið að rifja upp og endurnýja. Á neðstu hæðinni er heimili Bókarinnar og tæpast verður komið tölu á þann fjölda titla sem þar er að finna. Arfur Braga Kristjónssonar bóksala sem Ari Gísli sonur hans varðveitir teygir sig þar um alla veggi. Vart verður annað sagt en að þessi gróni verslunar- og samkomustaður hafi vaknað til lífsins en versluninni hafði verið lokað á hápunkti kórónuveirufaraldursins. 

Laugavegur 18 hefur lengi verið kennileiti í miðborg Reykjavíkur og áfangastaður og vinnustaður margra í gegnum tíðina. Húsið hefur löngum verið kennt við bókaforlagið Mál og menningu. Árið 1953 ákváðu forsvarsmenn félagsins að kaupa hús sem stóð á lóðinni við Laugaveg 18 og reisa þar stórhýsi fyrir skrifstofu sína og bókabúð. Erfiðlega gekk að afla fé til byggingarinnar og leituðu forsvarsmenn Máls og menningar og Sólíalistaflokksins til sendiherra Sovétríkjanna um stuðning við bygginguna og mun nokkur stuðningur hafa fengist. Af því festist nafnið Rúblan við húsið um tíma. Bygging Laugavegar 18 mun hafa kostað sjö til átta milljónir króna sem var umtalsvert fé á sjötta áratug liðinnar aldar þegar ströng gjaldeyrishöft voru í gildi og miklar takmarkanir á flestum framkvæmdum. Á byggingartíma hússins kom fram hugmynd um að Halldór Laxness hefði íbúð á efstu hæðinni. Til þess kom þó aldrei og Halldór eignaðist íbúð við Fálkagötu vestur í bæ sem hann notaði þegar hann dvaldi í borginni en ekki upp á Gljúfrasteini eða erlendis.

Bækur og listaverk prýða bekki menningarhússins.

Bækur hafa alltaf verið á þessum stað

„Bækur eru hluti af þessum stað og hafa alltaf verið,“ segir Garðar. Að mínum dómi væri útilokað að loka á þessa fortíð og minningu. Hér væri ekki hægt að opna að nýju án þess að bækur væru hluti af staðnum eins og alltaf hefur verið. Þess vegna sló ég í félagsskap við Ara Gísla. Hann er lykillinn að því að ég fór út í þetta.“ Garðar segist þó gera sér grein fyrir því að að bækur og bóksala ein og sér standi ekki undir rekstri svona húsrýmis. „Ég rak skemmtistaðinn Nasa í áratug og ákvað að taka upp þann þráð að nýju. Að hluti af þessu yrði veitingasala og tónlistarhald. Ég sá strax að það yrði að hafa ákveðna breidd í því. Þetta yrði ekki dansstaður eins og Nasa var fremur tónleikastaður. Hér yrði fjölbreytnin að ráða ríkjum. Ég stefni á að hér verði flutt lifandi tónlist á hverjum degi og það verði ólíkir aðilar með allskonar tónlist að koma fram. Ég tel að ákveðinn markaður hafi opnast hér þegar Kaffi Rósenberg flutti af Klapparstígnum og vestur í bæ. Ég er með kammersveit sem mun spila hér og síðan allt yfir í dægur- og rokktónlist. Fyrst að Græni hatturinn hjá Hauki Tryggva gengur í Hafnarstrætinu á Akureyri þá ætti þetta að ganga á Laugaveginum í Reykjavík.“ Þegar hér er komið sögu í spjalli við þá félaga Garðar og Ara Gísla stíga þrjár ungar stúlkur upp á tónlistarsviðið. Ein sest við flygilinn sem er gamli flygillinn úr Fríkirkjunni. Önnur tekur upp fiðlu og sú þriðja kontrabassa. Þær eru á vegum Hins hússins sem er ungmennastarf á vegum Reykjavíkurborgar. Þær fara að spila. Þrátt fyrir ungan aldur er ljóst að hjá þeim ræður fagmennska för. Greinilega búnar að stunda tónlistarnám frá bernsku. Þær fara að spila klassísk íslensks lög. Stúlkan með kontrabassann fer að syngja. Hefur góða söngrödd og gömlu lögin hans Fúsa Halldórs tóku að hjóma. Og þetta er bara byrjunin. Hádegistónleikar. Síðar á deginum er meiri tónlist á dagskránni. Þannig er þetta hugsað frá einum degi til annars. Garðar segir stærð húsnæðisins og hvernig það er innréttað bjóði upp á þessa nauðsynlegu fjölbreytni „Ég ætla að vera með lifandi tónlist á hverju kvöldi. Er búinn að fullbóka næstu vikur og einnig marga viðburði alveg út árið.“

Gamla kaffihúsið á efri hæð í norður hluta hússins hefur gengið í endurnýjum lífdaga. Þar hafa margir drukkið kaffisopann sinn og átt samræður af ýmsu tagi. 

Veitingar og lifandi tónlist

Ari Gísli segir allt orðið fullt af bókum í gömlu hillunum. “Þetta er eins og verið hefur allt frá upphafi. Bókabúð hefur verið á Laugavegi í áratugi. Þetta er orðin löng saga. Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg 18 var einn af hornsteinum íslenskra bókmennta og íslenskrar menningar í ríflega hálfa öld og einn af mikilvægum miðpunktum miðborgarinnar. Á efri pallinum í kjallaranum er gjafavara og gjafabækur í boði. Hentugar þegar halda þarf í afmæli eða þess háttar og í kjallaranum sjálfum verða á boðstólum fræðibækur, skáldsögur, þýddar og íslenskar. Ég búinn að vera að raða upp fornritasettum. Ég er með tvö til þrjú hundruð Laxnessbækur og svo verður hér gott úrval af barnabókum. Hugmyndin er að vera einnig með tvö eða þrjú skákborð og sófa. Fólk á að geta tyllt sér hér niðri rétt eins og annars staðar í húsinu. Hér er gott karma. Góður andi,“ segir Ari Gísli og bætir við að vissulega sé þetta ekki eingöngu bókabúð. Heldur fjölbreytt menningarhús þar sem gestir geti komið, sest niður, fengið sér kaffi og vöfflur, eða aðra drykki, gluggað í bók, og notið lifandi tónlistar. Alls þess sem húsið kemur til með að hafa upp á að bjóða. Ari Gísli er þó ekki að flytja Bókina af horninu á Hverfisgötu og Klapparstíg þar sem hún hefur verið um árabil og Bragi faðir hans sagði skemmtisögur af mönnum og málefnum enda margfróður. „Klapparstígurinn og miðbærinn er svo skemmtilegt svæði. Mér finnst ekki hægt að fara þaðan nema bara í allra brýnustu neyð. Ég hef heldur ekki þurft að taka eina einustu bók úr Bókinni á Klapparstíg til þess að fylla upp hér á Laugaveginum. Eitthvað hefur þó minnkað í geymslunum,“ segir Ari Gísli. Laugavegur 18 hefur vaknað til lífsins á ný og nú í breyttri mynd og lifandi. Þar er að finna samjöfnuð við eitt og annað sem upplifa má víða erlendis. Tíðindamanni fannst eins og hann væri komin til Kaupmannahafnar. Í hina gömlu höfuðborg Íslands þegar hann gekk inn í „hina nýju“ Mál og menningu. Þá rifjuðust einnig upp ýmsar stundir í þessu húsi. Í bókabúðinni og á kaffihúsinu þar sem oft mátti kenna margra kvista en einnig að njóta næðis ef svo gaf.

Séð af efri hæðinni yfir tónlistapallinn og veitingabar sem er í anddyri hússins.

Miðborgin mun standa fyrir sínu

Talið berst að Laugaveginum og Miðborginni sem margir hafa verið að tala niður að undanförnu. Kóvid tímabilið hefur vissulega dregið úr ferðum fólks og sú staðreynd að Laugavegurinn var orðin um margt ferðamannagata hefur fækkað ferðum innfæddra þar um sinn. Þeir Garðar og Ari Gísli segjast þó í engu kvíðnir. „Sagan er hér og af þessu horni eiga margir góðar minningar. Yngra fólk er aftur farið að sækja í miðbæinn,“ segir Garðar og Ari Gísli tekur undir. „Fólkið er farið að koma til baka. Margir höfðu þann sið að aka niður Laugaveginn á sunnudögum. Oft án þess að stöðva eða fara út úr bílnum. Þetta var svona ákveðinn rúntur sem margir höfðu tileinkað sér. Held að þetta hafi meira verið eldra fólk sem ók þessa leið. Oft fólk sem hafði aldrei vanist að fara inn á kaffihús. Horfði í búðarglugga í gegnum bílrúður. „Hlutir og venjur breytast og rúnturinn með. Fer í aðrar áttir. Við höfum báðir trú á miðborginni,“ segja þeir Garðar og Ari Gísli. „Það verða alltaf einhverjar breytingar en miðborgin mun koma til með að standa fyrir sínu.“

You may also like...