Glæsilegur útskriftarhópur úr FB
Glæsilegur hópur 135 nema útskrifaðist við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær þann 24. maí. Stúdentar voru 79, sjúkraliðar 21, rafvirkjar 13, húsasmiðir 11, af snyrtifræðibraut 8, af starfsbraut 8 og af fata- og textílbraut 3 nemendur. Sigurósk Gréta Garðarsdóttir útskriftarnemi af starfsbraut söng. Magnús Ingvason aðstoðarskólameistari flutti ávarp og fulltrúar nýstúdenta héldu ræður. Þá var myndlistarkennaranum Helga Gíslasyni þökkuð vel unnin störf en hann lætur nú af störfum eftir fjörutíu ára kennslu við skólann.
Hljómsveit skipuð núverandi og fyrrverandi nemendum og kennurum lék og tóku útskriftarnemar og gestir vel undir í lokalaginu. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari stýrði athöfninni og flutti kveðjuorð. Dagmar Ísleifsdóttir dúx skólans hlaut verðlaun fyrir bestan árangur í raungreinum, spænsku, stærðfræði og íslensku. Hún hlaut einnig styrk úr styrktarsjóði Kristínar Arnalds fyrrverandi skólameistara FB og frá Soroptimistafélagi Hóla og Fella. Gréta Jónsdóttir semídúx skólans hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í myndlistaragreinum ásamt verðlaunum frá Rótarýklúbbi Breiðholts. Fleiri myndir má finna á Fésbókarsíðu skólans. Þá voru veitt fjölmörg verðlaun fyrir góðan árangur í ýmsum greinum.